135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nú að verða mikill hallelújakór en ég veit og trúi að margt horfir til betri vegar í vinnubrögðum og ég hlakka til að fá að fylgjast með og taka þátt í vinnunni sem fram þarf að fara. Ég sem nýr meðlimur í þjóðleikhúsráði hef fengið að sjá áætlanirnar sem þar eru til staðar. Ég ítreka að við höfum skyldum að gegna gagnvart menningarstofnunum okkar sem hafa rótfestu í samfélaginu, sem hafa lagaskyldu, m.a. að bera leiklistina út um land allt, sem sjaldnast eru fjármunir fyrir. Ég vil því leggja áherslu á að við reisum Þjóðleikhúsið úr öskustónni og heimilum því glæsilega endurfæðingu. Ég held að ég geti talað fyrir munn okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við mundum setja það framar í röðina en nýja ráðstefnuhúsið ofan í Reykjavíkurhöfn. Við höfum því kraft og kjark til að forgangsraða í okkar huga í þeim efnum og ég mundi segja að stórt ráðstefnuhús í Reykjavíkurhöfn sé ekki efst á listanum hjá okkur heldur mun frekar rótgróin menningarstofnun á borð við Þjóðleikhúsið.

Ég sakna þess að andsvörin skuli ekki vera lengri en tvær mínútur því að ég er viss um að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefði alveg viljað skiptast á skoðunum við mig um Drekasvæðið við Jan Mayen en það bíður betri tíma.