135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:58]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin nota tækifærið til að þakka öllum hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðum um fjáraukalög í dag. Umræðan var með sérstöku móti í dag því að eftir að við vorum búin að flytja nefndarálitin, var slitin í sundur umræðan og hófst hún aftur seinni partinn. Vissulega er það svo að andsvörin eru stutt á stundum til að eiga samræður um allt sem fram kemur í ræðum hv. þingmanna en líkt og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði áðan getum við auðvitað farið í umræðuna síðar, hvort sem er í nefndum eða inni á þingi undir öðrum liðum.

Ég ítreka að vissulega liggja fyrir ákveðnar tillögur í nefndaráliti meiri hluta auk þess sem minni hluti hefur lagt fram tillögur sem teknar verða til afgreiðslu. Ég hvet þingmenn hv. til að kynna sér allar umræddar tillögur vel og ítarlega jafnframt því að kynna sér það sem fram kom í 2. umr. og það sem lagt var fram í frumvarpinu í 1. umr.

Nú tekur við atkvæðagreiðsla og síðan afgreiðsla á fjárlögum í næstu viku. Þá förum við enn á ný í mikla vegferð og ég hvet alla þingmenn til að fylgjast með því sem kemur fram í 3. umr. við fjárlögin. Ég ítreka þakklæti allra nefndarmanna í fjárlaganefnd og tala nú fyrir hönd minni hlutans líka og tel að ég hafi fulla heimild til þess, enda fæ ég nú vink frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Ég vil sérstaklega þakka starfsfólki nefndasviðs og ekki síst starfsfólki fjárlaganefndarsviðs fyrir mikla vinnu undanfarna daga og vikur fyrir okkur öll, hv. þingmenn, til að geta komið málinu á framfæri í þingsölum.