135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[18:04]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég hef ekki skilið af hverju er verið að leggja fram þetta frumvarp vegna þess að ég veit ekki betur en að það hafi alltaf verið hægt að loka veiðisvæðum, svæðum vegna viðkvæms botns og það hefur verið gert svo lengi sem ég man eftir, frá því að ég byrjaði að starfa til sjós. Ég er búinn að vera skipstjóri í bráðum 30 ár og þetta hefur alla mína tíð verið með þeim hætti að ef um smáfisk hefur verið að ræða, eitthvað sem hefur verið talið eyðileggja botn hefur alltaf verið hægt að loka svæðum með reglugerðarhólfum. Það kemur mér því verulega á óvart að menn skuli flytja frumvarp til þess að loka svæðum. Þá læðist að mér sá grunur að það sé ekki tilgangur frumvarpsins. Í dag eru landhelgislög og á síðustu missirum hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra opnað veiðisvæði fyrir skip inn fyrir landhelgislínur, inn fyrir þessa 12 mílna landhelgi sem við höfum haft og togarar hafa farið á grunnslóð nokkuð víða.

Það var reyndar óskað eftir því í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að fá þessi gögn. Þau komu ekki fyrr en í þriðju tilraun að mér skilst. Ég hef reyndar ekki fengið að sjá um hve miklar lokanir er að ræða nákvæmlega en ég þekki það náttúrlega frá félögum mínum sem eru til sjós og eru í starfi við að veiða fisk hringinn í kringum landið að það er víða búið að opna svæði, ekki loka, heldur opna veiðisvæði.

Svo má segja að það nýjasta í þessu sé að farið er að veita leyfi til að veiða í troll inni á flóum og fjörðum til framhaldseldis. Í Ísafjarðardjúpi hefur lítill trollbátur fengið að vera að veiðum, átti að veiða þorsk í áframeldi en um daginn vissi ég að veiðihlutfallið var þannig að hann var búinn að fá 50 tonn af ýsu og 12 tonn af þorski. Þorskurinn fór í áframeldið, ýsan í frystihús.

Ég óttast að þetta muni hafa þær afleiðingar að samkeppni verði um veiðisvæði, það verði árekstrar á milli línu- og netabáta við trollbáta þegar farið verður að hleypa þeim inn á sum af þessum svæðum þar sem þeir hafa verið. Ég óttast að í framtíðinni aukist kröfur um að fá að fara víðar nær landi. Það hefur verið opnað á snurvoðableyður fyrir suðurströndinni sem er kannski annað en það sem ég hef mestar áhyggjur af, þ.e. að hleypa stórum togurum sem eru með 5–6 tonna hlera inn á viðkvæmt grunnsjávarsvæði.

Þetta er það sem ég óttast við frumvarpið. Ég sá ekki tilganginn, ég sá ekki að þyrfti að koma með frumvarp til að loka svæðum vegna þess að það hefur alltaf verið hægt að loka þeim. Ég held að þetta snúist miklu frekar um það að geta farið inn fyrir 12 mílurnar og lái mér hver sem vill að ég skil ekki tilganginn með þessu frumvarpi.