135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

Hagstofa Íslands og opinber hagskýrslugerð.

128. mál
[18:08]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð.

Nefndin hefur fjallað um málið á nokkrum fundum og fengið til sín allnokkra gesti og hefur einnig fengið í hendur nokkrar umsagnir um málið.

Með lögum nr. 109/2007, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, sem samþykkt voru á þingi í sumar var meðal annars gerð sú breyting að Hagstofa Íslands verður lögð niður sem sérstakt ráðuneyti frá og með árslokum 2007. Í athugasemdum með því frumvarpi kom fram að ætlunin væri að Hagstofunni yrði breytt í sjálfstæða ríkisstofnun og tæki sú breyting gildi frá ársbyrjun 2008.

Frumvarpi því sem hér liggur fyrir er ætlað að búa Hagstofu Íslands og opinberri hagskýrslugerð viðhlítandi lagagrundvöll á þessum grundvelli.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar er fjallað um helstu efnisatriði sem er að finna í frumvarpinu sem gera í rauninni ráð fyrir fremur litlum raunverulegum breytingum á starfsemi Hagstofunnar en það er verið að styrkja þann lagagrundvöll sem hún stendur á. Meðal þeirra efnisatriða sem þarna er fjallað um er að það er tekið fram að Hagstofa Íslands skuli vera sjálfstæð stofnun og heyra undir forsætisráðuneyti. Það er tekið fram að stofnunin skuli vera miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar en með því er átt við starfsemi sem lýtur að söfnun gagna til tölfræðilegrar úrvinnslu um landshagi og þjóðfélagsleg málefni, úrvinnslu gagna og miðlun tölfræðilegra upplýsinga til almennings, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda á grundvelli laga og fyrirmæla sem eru sett samkvæmt lögum.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um gagnaöflun Hagstofunnar. Samkvæmt frumvarpinu skal Hagstofunni heimilt að afla gagna frá stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum en þó er lögð áhersla á notkun stjórnsýslugagna og upplýsinga sem til eru í opinberum skrám. Þá er í kaflanum mælt fyrir um heimild Hagstofunnar til samtengingar skráa við tölfræðilega úrvinnslu og hagskýrslugerð.

Í III. kafla er fjallað um trúnaðarskyldur við gerð hagskýrslna. Slík ákvæði er ekki að finna í þeirri löggjöf sem nú gildir um Hagstofuna og hefur Hagstofan hingað til stuðst við venjur og alþjóðlegar reglur og jafnframt sett sínar eigin reglur um meðferð trúnaðargagna.

Allsherjarnefnd hefur eins og áður er sagt fjallað nokkuð um frumvarpið og leggur til nokkrar breytingar. Lagt er til að við 2. gr. bætist „aðilar vinnumarkaðarins“ við upptalningu þeirra sem Hagstofunni ber einkum að líta til hvað snertir þarfir fyrir upplýsingar og henni ber að hafa samráð við. Þetta er til áréttingar og fyllingar en ljóst er að Hagstofan hefur um árabil haft margþætt samráð og samstarf við samtök á vinnumarkaði og er engin breyting fyrirhuguð í þeim efnum.

Í umsögnum ríkisskattstjóra og Fasteignamats ríkisins komu fram áhyggjur af því að ekki væri skýrt hvernig skyldi fara með kostnað af hugsanlegri öflun viðbótarupplýsinga og breytingum á skrám skv. 2. og 3. mgr. 6 gr. frumvarpsins. Í umræðum fyrir nefndinni hafa fulltrúar Hagstofunnar lagt áherslu á að stofnunin verði að sjálfsögðu að gæta meðalhófs í óskum sínum um gögn og notkun opinberra skráa til hagskýrslugerðar. Lögð er áhersla á þessi sjónarmið í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að haga skuli gagnaöflun á þann hátt að fyrirhöfn upplýsingagjafa við að láta í té gögn sé hófleg. Hagstofan verði einnig að taka tillit til þess kostnaðar sem öflun viðbótarupplýsinga og breyting skráa geti haft í för með sér. Til að styrkja þessi sjónarmið leggur nefndin til að bætt verði við niðurlag 2. og 3. mgr. 6. gr. að tekið skuli tillit til eðlilegra sjónarmiða um kostnað. Með því móti telur nefndin að hún komi til móts við þau sjónarmið sem komu fram af hálfu ríkisskattstjóra og Fasteignamats varðandi þessa upplýsingagjöf til Hagstofunnar.

Við samningu frumvarpsins var leitað álits hjá Persónuvernd um efni frumvarpsins er varðar meðferð trúnaðargagna og persónubundinna gagna. Við nánari athugun á efni frumvarpsins taldi Persónuvernd að skerpa mætti á orðalagi ákvæða um skilyrði sem gæta þarf við veitingu aðgangs að gagnasafni með persónubundnum gögnum í rannsóknarskyni eða afhendingu slíkra gagna til rannsóknaraðila. Persónuvernd hefur sent allsherjarnefnd ábendingar um tvenns konar orðalagsbreytingar á 2. mgr. 13. gr. og leggur nefndin til að frumvarpinu verði breytt á þann veg. Nefndin leggur annars vegar til að í stað þess að vísað sé til 1. mgr. 9. gr. laga um persónuvernd verði vísað til „einhvers skilyrða 9. gr. laga um persónuvernd“. Hins vegar leggur nefndin til viðbót við 2. mgr. 13. gr. í þá veru að rannsóknaraðila beri að skila gögnum eða eyða persónuauðkennum í síðasta lagi að liðnum tilteknum tíma og ef hann hyggst varðveita persónuauðkenni lengur skuli hann tilkynna Hagstofunni um það og óska eftir samþykki hennar.

Á síðari stigum við meðferð frumvarpsins fyrir nefndinni kom einnig fram ábending frá Persónuvernd um að setja bæri sérstök ákvæði um meðferð og öryggi upplýsinga sem aflað væri með samtengingu skráa skv. 9. gr. Nefndin telur rétt að taka af tvímæli í þeim efnum með því að taka upp í 10. gr. frumvarpsins ákvæði um að þær trúnaðarkvaðir sem kveðið er á um í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. gildi einnig um þær upplýsingar sem verða til við samtengingu skráa skv. 9. gr. Hins vegar telur nefndin ekki þörf á að bæta við sérstöku ákvæði um öryggi þessara gagna þar sem ljóst sé að ákvæði 12. gr. frumvarpsins um öryggi gagna, eyðingu eða dulkóðun eigi jafnt við um öll hagskýrslugögn sem snerta tilgreinda einstaklinga og lögaðila.

Loks hefur komið í ljós að það kann að orka tvímælis að fella úr gildi lög um launavísitölu, nr. 89/1989, eins og gert er ráð fyrir í 17. gr. frumvarpsins um gildistöku og niðurfellingu eldri laga. Þetta stafar af því að enn eru útistandandi skuldabréf Byggingarsjóðs ríkisins með ákvæðum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána samkvæmt lögum frá árinu 1983. Hér er um að ræða almenn lán til einstaklinga veitt á árunum 1983–1989, lán vegna sérþarfa veitt 1983–2004 og viðbótarlán veitt á árunum 1999–2004. Þessi greiðslujöfnun styðst meðal annars við mánaðarlega launavísitölu samkvæmt fyrrgreindum lögum. Að höfðu samráði við Íbúðalánasjóð er niðurstaðan sú að verði lagaákvæði um launavísitölu felld úr gildi kunni að skapast óvissa um framkvæmd fyrrnefndrar greiðslujöfnunar ef til hennar kemur. Af þessum ástæðum er lagt til að horfið verði frá afnámi laga um launavísitölu.

Fram kemur í nefndarálitinu að allsherjarnefndarmenn hv. þingmenn Jón Magnússon og Karl V. Matthíasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin stendur saman að þessu nefndaráliti og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir og fram komu á sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit rita auk þess sem hér stendur Ágúst Ólafur Ágústsson, Atli Gíslason, Sigurður Kári Kristjánsson, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir og Ólöf Nordal.