135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[19:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2007 kemur nú til lokaatkvæðagreiðslu. Frumvarpið er um margt sérstakt. Til dæmis hafa breytingar innan ársins frá því að fjárlög voru samþykkt fyrir árið 2007 orðið miklar, eins breytingar á tekjum og gjöldum, samtals í kringum 100 milljarða kr., sem segir okkur að eitthvað er að forsendum og undirbúningi fjárlagagerðarinnar og undarlegt að fjáraukalög og aðgerðir sem ná til alls ársins skuli koma í árslok. Ég hef gagnrýnt slík vinnubrögð og bent á að afgreiða beri fjáraukalög og fjárheimildir oftar innan ársins þannig að við staðfestum ekki aðgerðir og skuldbindingar framkvæmdarvaldsins því að þingið hefur ekki haft aðra aðkomu að málinu en að vinna það og afgreiða undir lok ársins. Það vil ég benda á.

Varðandi einstakar tillögur flytur meiri hlutinn nokkrar breytingartillögur og sumar hafa verið unnar í nánu samráði innan nefndarinnar. Flestar eru til að hækka ákveðnar fjárveitingar til heilbrigðismála, elli- og hjúkrunarmála og skólamála og við styðjum það. Reyndar finnst okkur of lítið að gert. Margar stofnanir, bæði heilbrigðisstofnanir, Heilsugæslan í Reykjavík algjörlega með nærri 500 millj. kr. halla, og öldrunarheimilin, eru skildar eftir með mikinn halla sem að okkar mati ætti að leiðrétta nú.

Þess vegna flytjum við, fulltrúar í fjárlaganefnd frá stjórnarandstöðunni, breytingartillögur sameiginlega og munum gera grein fyrir þeim sérstaklega. Eitt er þó í tillögunum sem við erum algjörlega andvíg og það er meðferð mála, með hvaða hætti tölur koma inn til tekna og gjalda vegna meðferðar mála á fyrrum varnarsvæði Bandaríkjamanna og NATO á Keflavíkurflugvelli. Ég mun (Forseti hringir.) gera grein fyrir atkvæðagreiðslunni þegar þar að kemur, herra forseti.