135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[19:08]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég gerði grein fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar í ræðu í dag og vil ítreka að meiri hluti nefndarinnar gerir nokkrar breytingartillögur, líkt og hv. þm. Jón Bjarnason vék að. Ég vil nefna að innan fjárlaganefndar voru settir upp hópar til að fara yfir skiptingu fjárheimilda til sýslumannsembætta, framhaldsskóla og öldrunar- og heilbrigðisstofnana og var vikið að því í 2. umr. fjáraukalaga.

Ég vil einnig ítreka að meiri hluti nefndarinnar gerir breytingartillögur sem nema alls 1.356,9 milljónum til hækkunar gjalda en jafnframt 15,7 milljörðum til hækkunar á tekjum. Fjallað hefur verið um þá tekjufærslu í umræðu í dag, bæði er varðar fjáraukalög jafnt annarri umræðu sem hófst í morgun. Því vík ég að því, með leyfi forseta, að ríkisendurskoðandi hefur staðfest við nefndina að umræddar tekjur byggist á yfirferð embættisins á sölusamningum og að þeir séu að mati embættisins tryggir.

Niðurstaða fjárlaga ársins 2007, eftir yfirferð þá sem við höfum greint frá í dag, mun leiða til þess að tekjuafgangur af ríkissjóði á árinu er rúmir 80 milljarðar. Ég verð að segja að það er verulegur tekjuafgangur og lofar góðu fyrir rekstur ríkissjóðs.

Hv. þingmenn. Ég ætla ekki að tefja málið neitt frekar og hvet ykkur til að skoða umræddar breytingartillögur sem til afgreiðslu eru og styðja þær í atkvæðagreiðslunni, enda getur stjórnarandstaðan, eins og fram kom í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, stutt fjölmargar af þeim breytingartillögum sem bornar eru upp.