135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[19:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Verið er að færa til tekna 15,3 milljarða kr. á árinu 2007 vegna sölu á eignum á fyrrum varnarsvæði herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Það er í sjálfu sér gott að fá fjármunina inn en við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, teljum forsendur fyrir tekjunum, umgjörð alla, samninga og heimildir þar að lútandi, vera algjörlega ófullnægjandi. Fresta ber þeim lið og afla gagna sem við höfum krafist, bæði frá hæstv. fjármálaráðherra, forsætisráðherra og öðrum opinberum aðilum áður en þingið getur afgreitt málið með sómasamlegum hætti.