135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

PISA-könnun.

[10:33]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er allt að því hjákátlegt að hlusta á þennan unga og efnilega þingmann koma hingað upp og tala niður allt skólakerfið. Það virðist sem hv. þingmaður hafi ekki farið nægilega vel í gegnum alla PISA-skýrsluna. (Gripið fram í.) Rétt er að draga fram að enginn talar um það, hvort heldur það eru fagmenn eða — ég trúi ekki öðru en hv. þingmaður taki þá alvarlega — rektor Kennaraháskólans, Kennarasambandið eða Júlíus Björnsson hjá Námsmatsstofnun, sem segja að skólakerfið okkar sé gott. Þetta er ekki áfellisdómur yfir kerfinu svo það sé dregið fram.

Ég vil sérstaklega minna á að nýlega kom fram lífskjarakönnun frá Sameinuðu þjóðunum og í hvaða sæti erum við þar? Við erum í 1. sæti. Og hver var helsti áhrifavaldur þess að við fórum upp í 1. sæti og hentum Norðmönnum niður í 2. sætið? Það er menntunin, það er menntakerfið. (Gripið fram í.) Það var sérstaklega dregið fram að við hefðum skotist upp m.a. vegna menntakerfis okkar. En ég hef hins vegar sagt er að við gætum alla jafna verið ánægð yfir að vera í hópi með Bandaríkjamönnum, að við gætum alla jafna verið ánægð að vera í hópi með Norðmönnum, Svíum og Dönum. Þetta eru þjóðir sem við miðum okkur jafnan við. Ég vara við því þegar hv. þingmaður Framsóknarflokksins kemur hingað upp og talar niður menntakerfið þar sem við höfum verið að auka í menntakerfinu ábyrgð kennara, ábyrgð skólastjóra og ábyrgð sveitarfélaga, sem hafa sett í það mjög aukið fjármagn, ég vara við því að tala það niður.

Hins vegar hef ég sagt að það eru mér mikil vonbrigði þegar við erum búin að leggja eins mikið fjármagn í grunnskólann og raun ber vitni, að stórauka og fjölga fagmenntuðu fólki innan skólakerfisins, hvort sem um er að ræða kennara eða sérfræðiþjónustu, að árangurinn skuli ekki vera betri. Ég lýsi því yfir að ég vil að lesskilningur barnanna okkar verði skoðaður sérstaklega en ég held að það sem skipti máli hér sé að frístundalesturinn hefur greinilega minnkað mjög mikið. Það er eitthvað sem við verðum að horfast í augu við, skólakerfið, en ekki síður foreldrar. (Forseti hringir.) Við þurfum að auka lestur heima við og það skilar sér inn í skólakerfið.