135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

PISA-könnun.

[10:48]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er um margt spaugilegt að hlusta hér á talsmenn Framsóknarflokksins. Ég man ekki betur en að fyrir nokkrum dögum þegar við ræddum aðra könnun, lífskjarakönnun Sameinuðu þjóðanna, hafi formaður þess ágæta flokks komið hér og tilkynnt að í raun og veru væri niðurstaðan Framsóknarflokknum að þakka. Nú erum við hins vegar að ræða aðra könnun, niðurstaðan ekki alveg jafnhugljúf og þá er allt í einu sökin öll hjá Sjálfstæðisflokknum. (GÁ: Nei, það er …) Það er alveg greinilegt að Framsóknarflokkurinn hefur nú sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn, vonandi að eilífu.

Við sjáum ekki framtíð alla fyrir en það er afar sérkennilegt að hlusta á málshefjanda haga máli sínu með þeim hætti sem hann gerði. Það liggur alveg ljóst fyrir og það vita allir sem komið hafa nálægt skólamálum að ein svona könnun, alveg nákvæmlega eins og eitt einstakt próf, er ekki mælistika á heilt skólakerfi. Því fer víðs fjarri. Könnun þessi mælir bara ákveðna þætti og við verðum að velta fyrir okkur hvernig stendur á því að við komum ekki betur út, en við verðum líka að hafa í huga að það er margt fleira í skólakerfinu sem skiptir máli. Við skulum ekki gleyma t.d. líðan barnanna sem er líklega úrslitaatriði um það hver árangurinn verður í heild sinni. Það er um það sem þetta snýst númer eitt, tvö og þrjú og aðstæður barnanna í skólakerfinu.

Þess vegna verðum við um leið og við skoðum með opnum hug hvað þarna hefur komið út að passa okkur á því að vera ekki með sleggjudóma og draga ekki allt of miklar ályktanir af því sem þarna kemur fram. Við verðum sem sagt að fara yfir þetta og ég fagna því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði áðan, að það væri eðlilegt að menntamálanefnd fjallaði um þetta. Ég tel eðlilegt að við gerum það í tengslum við þau frumvörp sem við ætlum að ræða hér á eftir sem auðvitað koma inn í nefndina. Það er mjög eðlilegt að við skoðum þetta í því samhengi. Við þurfum líka að fara örlítið yfir kannanirnar gömlu og sjá hvað við lærðum af þeim, hvernig við brugðumst við þeim bæði 2000 og 2003, þannig að við höfum þetta allt saman undir þegar við förum yfir málið en gerum það með (Gripið fram í.) opnum hug en ekki sleggjudómum.