135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:03]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í upphafi ályktunar Íslenskrar málnefndar segir að staða íslensku tungunnar í íslensku samfélagi sé sterk. Við eigum að hafa það í huga. Hins vegar er mjög mikill þrýstingur á íslenskt mál ef svo má að orði komast. Börn eru farin að nota miklu meiri tíma í tölvu og þar er mikið notast við ensku, þau lesa ensku í tölvunum. Við erum líka farin að horfa mjög mikið á sjónvarp og mikið á erlendar rásir sem eru ótextaðar þannig að við förum ósjálfrátt að hlusta eftir erlendum tungumálum, sérstaklega enskunni. Börn fara líka mikið í bíó þar sem enska er aðaltungumálið og þannig væri hægt að nefna mörg dæmi um hve mikill þrýstingur er á tunguna.

Það kemur líka fram í ályktun Íslenskrar málnefndar að atvinnulífið er að verða alþjóðlegra og dæmi um að stórir íslenskir vinnustaðir hafi ensku sem vinnumál þótt flestir starfsmenn séu íslenskir. Það er því mikill þrýstingur á íslenskuna og á sama tíma, eins og fram kemur í ályktuninni, erum við að draga úr móðurmálskennslu í skólunum og frekari áform um niðurskurð á þeirri kennslu hafa verið kynnt. Þetta er mál sem við þurfum að vanda okkur mjög vel við. Við þurfum að endurskoða stefnuna og bæta stöðu kennara. Kennarar eru lykilatriði fyrir tungutak barna og við eigum ekki að ýta undir þau erlendu áhrif sem nú þegar eru til staðar.

Það er mjög spennandi að núna sé unnið að íslenskri málstefnu og það er ljóst að ef við sofnum á verðinum þá getur farið illa. Í þessari ályktun eru tilgreind mörg atriði sem við þurfum að taka til ítarlegri skoðunar. En mér líst mjög vel á það ef þingið tekur oftar fyrir og með reglulegum hætti stöðu íslenskunnar.