135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:05]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2007 þá er staða íslenskunnar sterk í samfélaginu. Þetta birtist í auknum lestri bóka og blaða og nú á síðustu árum birtist þessi sterka staða í gríðarlegu magni vefskrifa hvers konar á íslensku. Við verðum þó ávallt að vera á varðbergi því ábyrgð hverrar kynslóðar er gríðarlega mikil. Tungan gengur mann fram af manni og ef það verða slys á þeirri leið þá veldur það óafturkræfri breytingu á íslenskri tungu. Íslenska tungan er nefnilega eins og náttúran og sumt verður ekki tekið aftur.

Ég tel afar mikilvægt að við styrkjum stöðu íslenskunnar í lögum sem og í íslensku stjórnarskránni. Einnig verðum við að vera sífellt á varðbergi gagnvart stöðu íslenskunnar í skólakerfinu. Ég vil vekja sérstaka athygli á lokasetningu ályktunarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Íslenska hefur því alla burði til að verða samskiptamálið í fjölmenningarsamfélagi á Íslandi og að því ættum við öll að stefna.“

Undir þetta tek ég heils hugar. En til að svo megi verða er nauðsynlegt að styrkja stöðu íslenskunnar í lögum. Ég vil í þessu sambandi minna á mjög góða þingsályktunartillögu sem Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, flutti á síðasta kjörtímabili um stöðu íslenskrar tungu. Þar fjallaði Mörður um mikilvægi þess að binda íslensku sem móðurmál okkar í stjórnarskrá og styrkja lagalegt umhverfi íslenskunnar. Mörður minnti á að það væri undirstaða þess að hægt væri að festa í sessi rétt fólks til íslensku sem á annað mál en íslenska móðurmálið, svo sem táknmál og nýbúamálin.

Öll okkar menning og saga byggist á sterkri stöðu íslenskunnar. Ég held þó að ekki síður byggist öll okkar framtíð og hin óskrifaða saga á íslenskunni þótt hún verði ekki móðurmál allra Íslendinga þá hef ég sömu trú og íslensk málnefnd, að hún verði samskiptamálið í samfélagi framtíðarinnar.