135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:16]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og fagna ályktun Íslenskrar málnefndar. Þegar við ræðum íslenskuna kemur margt upp í hugann og það er augljóst að við þurfum að vanda okkur við að auka les- og málskilning á hverjum tíma. Ég hafði hugsað mér að segja í upphafi frá því að ég sat einu sinni með 12 ára gömlum nemendum yfir prófi þar sem kom fram spurningin: Hvað er landráðamaður? Fyrir þingmenn er ágætt að vita hvert svarið var hjá einum nemanda, hann sagði að það væri forsætisráðherra nú til dags. Við getum líka tekið dæmi úr búðinni þegar stúlkan svaraði spurningunni um hvar fötin væru með orðunum: Ja, ef það sé ekki þarna þá sé það ekki til.

Auðvitað er ástæða til að vera á vaktinni en samtímis vil ég vara við öllum hrakspám um íslenska tungu. Ég vara líka við því að tengja endilega saman tímafjölda í skóla og íslenskukunnáttu. Eins og hefur komið fram á íslenskan samkvæmt íslenskum skólalögum að vera í öllu því sem við erum að vinna, hún á að vera í öllum námsgreinum, ekki bara íslenskutímum, heldur á auðvitað að vanda til málsins og reyna að kenna orðaforða og heiti yfir ýmis hugtök í öllum námsgreinum. Það er jafnmikilvægt í smíðinni, listsköpuninni eða heimilisfræðinni og í íslenskutímanum að við séum með íslenskuna í huga.

Það er mjög ánægjulegt að hér hafi alls staðar komið fram mikilvægi þess að við reynum að hlúa að íslenskunni. Við þurfum samt og samtímis að átta okkur á því að nýr orðaforði krakkanna í dag þýðir ekki að þau séu verr máli farin heldur eru þau hreinlega bara að bregðast við nýju umhverfi og nýjum aðstæðum og hafa kannski jafnmikinn orðaforða og menn höfðu áður, bara önnur og nýrri orð. Þau mundu t.d. ekki fara á rúntinn í drossíum eða sjá helikopter fljúga yfir eins og gerðist þegar ég var yngri. Við sjáum að málið hefur þróast og hreinsast á mörgum sviðum og það er mikilvægt að við höldum því áfram á hverjum tíma.

Við skulum bara vinna samkvæmt þeirri ályktun sem hér kemur fram, ég styð hana heils hugar, (Forseti hringir.) koma íslenskunni inn í stjórnarskrána og þá hef ég engar áhyggjur af íslenskri tungu.