135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:19]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að það geti verið rétt að vinna að því að koma inn í stjórnarskrána ákvæði um að þjóðtungan hér eða hið opinbera tungumál sé íslenska. Það er hins vegar innihaldslaust ef ekkert annað fylgir þar með, lagabókstafur í einhverjum skræðum sem rykfalla inni í skáp dugar ekki til að tryggja tiltekna þróun á íslensku tungumáli.

Ég held að menn þurfi að hafa dálitlar áhyggjur af því að þær breytingar sem orðið hafa breyta samskiptaháttum fólks í nútímaþjóðfélagi. Unglingarnir tala miklu minna saman nú en þeir gerðu áður og þeir tala miklu minna við fullorðið fólk en þeir gerðu áður. Þeir hverfa gjarnan inn í tölvuheima daginn út og daginn inn, ferðast í óravíddum netheima og tala þar ekki við nokkurn mann heldur ferðast um þær víðlendur, fyrst og fremst á ensku tungumáli. Það að íslenskan hafi sterka stöðu endurspeglast af málskilningi, málnotkun og málvitund. Allt þetta þarf að vera til staðar til að íslenskan hafi sterka stöðu. Þegar dregur úr samskiptum og hugsun á íslenskri tungu veikist íslensk tunga. Þarna eru atriðin sem við þurfum að huga að og sækja fram með. Það er vel hægt, ég hygg að ungt fólk, ekki síður en þeir sem eldri eru, hafi mikinn áhuga á því að viðhalda íslensku tungumáli og íslenskri menningu.

Ég tek undir það að lokum, virðulegi forseti, sem fram kemur í stefnuskrá Íslenskrar málnefndar, að huga þurfi sérstaklega að stöðu útlendinga sem hér setjast að. Þeir eru orðnir tugir þúsunda og munu verða hér áfram aufúsugestir og við eigum að leggja okkur fram um að gera þeim kleift að tileinka sér íslenskt tungumál.