135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:23]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á í sinni síðari ræðu. Hún kom inn á marga mikilvæga þætti og það er fagnaðarefni að allir hér inni eru meðvitaðir, og ég vona líka í samfélaginu öllu, um að sterk tunga, sterk íslenska, styrkir að sjálfsögðu sjálfsmynd okkar Íslendinga og skapar okkur sterka stöðu í þeirri alþjóðavæðingu sem nú ræður ríkjum. Það skiptir máli að hafa íslenskuna okkar sterka.

Ég vil líka geta þess að við erum að vinna að litlum sem stórum þáttum til að stuðla að eflingu tungunnar. Við erum orðin mun meðvitaðri um að innleiða hana á marga staði, m.a. í gegnum frumvörp og lög. Við erum að fara að ræða á eftir frumvarp til laga um framhaldsskóla og ég vek sérstaklega athygli á að þar er nýtt ákvæði um að kennsla í framhaldsskólum skuli fara fram á íslensku nema annað leiði sérstaklega af inntaki náms eða eðli þess. Það verður kveðið á um það að framhaldsskólar eigi að kenna á íslensku í öllum fögum.

Síðan hef ég beitt mér fyrir því, m.a. í viðræðum mínum við háskólana, að þeir háskólar sem öðlast viðurkenningu menntamálaráðuneytis skuli marka sér sérstaka málstefnu, ekki eingöngu á sviði íslenskra fræða heldur almenna málstefnu varðandi kennslu í háskólunum. Þetta hefur Háskóli Íslands gert og ég vil geta þess að Háskólinn á Akureyri mun síðar í þessum mánuði kynna sína íslenskustefnu og það er sérstakt fagnaðarefni.

Ég hef líka tekið mikilvægi íslenskunnar upp við aðra háskóla, svonefnda einkaháskóla, að við munum ekki gefa eftir hvað varðar eftirlitshlutverk okkar með íslenskuna. Það er ekki sjálfgefið að hingað komi skólar og kenni á ensku eða öðru tungumáli og ætlist til þess að fá sjálfkrafa greitt úr ríkissjóði. Menn verða að vera meðvitaðir um mikilvægi íslenskunnar í (Forseti hringir.) alþjóðasamfélaginu.