135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[11:26]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið mæli ég fyrir fjórum frumvörpum um menntun barna frá leikskóla allt að háskóla og um menntun og ráðningu kennara. Þessi frumvörp, verði þau að lögum, marka að mínu mati ákveðin tímamót í menntunarsögu okkar Íslendinga.

Í ár eru lið 100 ár frá því að sett voru fræðslulög á Íslandi. Þá var skólaskyldu í fyrsta sinn komið á hér á landi sem náði til barna á aldrinum 10–14 ára. Á sama tíma voru sett lög um menntun kennara. Líkt og árið 1907 horfa Íslendingar nú fram á nýja tíma í atvinnu og þjóðlífi. Þá voru Íslendingar að taka fyrstu skrefin í byltingu atvinnuhátta með vélvæðingu fiskveiða og sjálfstæðisbaráttan var í algleymingi. Nú stöndum við Íslendingar aftur frammi fyrir miklum breytingum í atvinnuháttum og þjóðlífi með alþjóðavæðingu í viðskiptum og stjórnmálum.

Guðmundur Finnbogason velti því fyrir sér, í bók sinni Lýðmenntun, sem kom út þremur árum áður en fræðslulögin voru sett, í hverju menntun væri fólgin og hvernig unnt væri að efla hana með hverjum og einum. Þessum sömu spurningum veltum við fyrir okkur enn í dag rúmum 100 síðar. Niðurstaða hans var, með leyfi forseta, að „menntun hvers manns [yrði] að metast eftir því hve hæfur hann er til að lifa og starfa í mannlegu félagi, lifa og starfa þannig að líf hans verði með hverjum degi meira virði fyrir sjálfan hann og aðra.“ Ég hygg að þessi kjarni menntunar eigi við enn í dag þó að í frumvarpinu sé nú fjallað um skólagöngu barna allt frá eins árs til tvítugs í stað 10–14 ára barna fyrir 100 árum.

Þau frumvörp sem ég mæli hér fyrir fela í sér heildarendurskoðun löggjafar um skólamál þar sem lögð er áhersla á skilyrði barna til menntunar frá leikskólaaldri til barna í grunnskóla og nemenda í framhaldsskóla, en hluti af þessari heildarmynd er ekki síður góð menntun kennara, hún er lykilatriði. Ég held ég geti fullyrt að þetta sé í fyrsta skipti sem frumvörp um öll skólastig — að undanskildu háskólastiginu, en ég vil þó sérstaklega vekja athygli þingmanna á því að óbein tenging er við háskólastigið með breytingu á einingakerfinu þannig að auðveldara verði að hafa flæðandi skil á milli framhaldsskóla og háskóla — eru lögð fram í einu lagi. Ég tel þetta mjög mikilvægt og menn verða að hafa það í huga við umræðuna.

Frumvörpin eru afrakstur vinnu margra aðila og þau endurspegla m.a. skoðanir og hugsjónir þeirra sem best þekkja til í menntamálum. Það er mikilvægt að víðtæk sátt ríki um frumvörpin án þess þó að gefið sé eftir af því markmiði okkar að gera gott skólakerfi enn betra og vissulega geta skoðanir verið skiptar varðandi leiðir að því marki. Allir þeir sem hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar eiga þökk skilið fyrir framlag sitt til betri skóla.

Virðulegi forseti. Ég mun hér í ræðu minni fyrst gera grein fyrir þeim markmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar við samningu frumvarpanna. Því næst mun ég gera grein fyrir efni þeirra og í lokin mun ég víkja að þeim áhrifum sem frumvörpin munu koma til með að hafa, verði þau að lögum, og þá sérstaklega varðandi kostnaðarmatið sem slíkt.

Endurskoðun laganna um skólastigin hefur nú staðið yfir í um eitt og hálft ár eða frá vormánuðum ársins 2006. Meginmarkmið endurskoðunarinnar er fyrst og fremst að móta löggjöf sem styrkir menntun á öllum skólastigum með velferð allra barna og nemenda að leiðarljósi. Með frumvörpunum er leitast við að auka samfellu milli skólastiga, festa í sessi svigrúm til sveigjanleika milli og innan þeirra og að skólakerfið mæti breytilegum þörfum ólíkra einstaklinga. Auk þess er mikil áhersla lögð á sjálfstæði sveitarfélaga og skóla og aukna þátttöku foreldra. Með áherslu á mikilvægi samfellu og sveigjanleika milli skólastiga er horft á skólakerfið sem eina heild frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla.

Leikskólastigið sem fyrsta skólastigið er styrkt í sessi sem mikilvægur hlekkur í órofa keðju samfellds náms og undirstrikað er mikilvægi þess að byggt sé á þeirri reynslu við skipulag náms á næsta skólastigi. Segja má að með breyttum samfélagsháttum og aukinni atvinnuþátttöku beggja foreldra hafi orðið grundvallarbreyting hvað varðar skólasókn barna í leikskóla. Með grunnskólafrumvarpinu eru undirstöður grunnskólans treystar með námsárangur, velferð og þarfir nemenda að leiðarljósi. Sérstaða og hlutverk framhaldsskólans eru undirstrikuð og lögð áhersla á mikilvægi hans fyrir samfélagið og með frumvarpi um menntun og ráðningu kennara og stjórnenda, sem kemur í stað núverandi lögverndunarlaga, eru gerðar auknar kröfur um menntun kennara með meistaranám sem meginviðmiðun starfsréttinda. Auk þess eru starfsréttindi leikskólakennara lögvernduð og styrkir það enn frekar leikskólastigið.

Frumvörpin bera þess skýr merki að vera unnin samtímis með áherslu á samræmingu með samhljóm að leiðarljósi. Þá bera þau þess vitni að horft er til skólakerfisins fyrst og fremst með velferð og hagsmuni þeirra er þjónustu skólanna njóta, þ.e. barnanna sjálfra og fjölskyldna þeirra, í huga. Með því að búa þeim kjöraðstæður til náms og þroska aukum við verðmæti þess tíma sem einstaklingur er í skóla og um leið þjóðhagslegan ávinning.

Íslenskt skólakerfi felur í sér að öll börn eiga að geta notið uppeldis og menntunar við hæfi. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar um er að ræða börn með ýmiss konar sérþarfir. Með frumvörpunum er leitast við að tryggja enn betur þessi réttindi miðað við gildandi lög. Með frumvörpunum er stigið stórt skref í framfaraátt með því að lögfesta að leikskólar og grunnskólar skuli vera án aðgreiningar, þ.e. að þeir skuli taka á móti öllum börnum óháð stöðu þeirra og sérþörfum.

Virðulegi forseti. Ég vík þá máli mínu að frumvarpi til laga um leikskóla. Meginmarkmið frumvarpsins er að móta skýra löggjöf sem styrkir menntun og uppeldi í leikskólum með velferð barnanna okkar að leiðarljósi og festir leikskólann enn betur í sessi sem fyrsta skólastigið hér á landi og það hefur vakið eftirtekt í útlöndum. Þess hefur verið gætt að frumvarpið hafi samhljóm við löggjöf um önnur skólastig með möguleika á samfellu og samstarfi milli einstakra skólastiga. Þá hefur verið lögð áhersla á að frumvarpið leiði til meiri sveigjanleika milli og innan skólastiga til að skólar verði betur í stakk búnir að mæta þörfum hvers og eins barns. Frumvarpið endurspeglar breytta samfélagshætti og þá miklu þróun á leikskólastigi frá setningu gildandi laga frá árinu 1994.

Gjörbylting hefur orðið á aðsókn að leikskóla og dvelja börn nú mun lengur þar dag hvern en þau gerðu fyrir áratug. Þá hefur samsetning barnahópsins breyst mikið einkum hvað varðar aukinn fjölda barna sem koma að utan með annað móðurmál en íslensku og börn koma einnig yngri inn í leikskóla. Í ljósi þeirrar breytingar er m.a. lögð áhersla á að leikskólar horfi til snemmtækrar íhlutunar og þeirrar aðferðafræði sem hún byggist á en með því er leitast við að bregðast á viðeigandi hátt sem fyrst við ýmsum þroskafrávikum þannig að öllum börnum séu búnar kjöraðstæður til náms og þroska allt frá byrjun. Frumvarpið ber þess enn fremur skýr merki að leikskólinn er styrktur í sessi sem fyrsta skólastigið eins og ég gat um og mikilvægur hlekkur í samfellu náms. Þá er áhersla lögð á að hugmyndafræði leikskólans sem byggist á leik og skapandi starfi verði áfram leiðarljós leikskólastarfs samhliða áherslu á nám og uppeldi í samræmi við markmið aðalnámskrár leikskóla.

Ég ætla örstutt að gera grein fyrir helstu áhersluatriðum og nýmælum:

Til að mynda er lögð áhersla á velferð barna og hagsmunir þeirra hafðir í fyrirrúmi sem áður. Réttindi og skyldur foreldra og barna eru skilgreind með skýrum hætti, þar með talið málskotsréttur, réttur leikskólabarna til sérfræðiþjónustu og upplýsingaskylda við foreldra. Leitast er við að koma til móts við breyttar aðstæður foreldra og barna vegna nýrra atvinnu- og þjóðfélagshátta. Möguleikar foreldra á að hafa áhrif á og taka þátt í starfsemi leikskóla eru auknir, mat á skólastarfi og upplýsingagjöf í starfsemi leikskóla eru stórefld og sett eru greinarbetri viðmið um mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs og upplýsingamiðlun. Þetta er mikilvægt.

Forræði sveitarfélaga og verkefnaskipting milli þeirra, ríkis, stjórnvalda og leikskóla eru skýr. Ákvæði um rekstrarleyfi leikskóla eru skýrð og samrekstur skóla heimilaður. Aukin áhersla er á faglegt starf í leikskólum, þeir setji sér skólanámskrá og stofnaður er nýr sjóður til að styrkja þróunarverkefni, sprotasjóður.

Í I. kafla frumvarpsins eru gildissvið þess og hlutverk skilgreind. Þar gætir ákveðinnar grundvallarbreytingar frá gildandi lögum, þ.e. ekki er lengur gert ráð fyrir að lok leikskólanáms miðist eingöngu við 1. september árið sem börn verða 6 ára. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að félagsþroski og námsframvinda barna geti ráðið því hvenær þau ljúka leikskólanámi og hefji nám í grunnskóla. Þessi breyting er liður í því að gera skólakerfið sveigjanlegra með tilliti til þarfa hvers og eins barns þannig að unnt er að fara hraðar eða hægar í gegnum skólakerfið.

Þá hefur í 2. gr. frumvarpsins verið tekið tillit til fjölmargra ábendinga sem laganefndinni bárust um mikilvægi þess að ný löggjöf um leikskólann endurspeglaði m.a. fjölmenningarlegt samfélag hér á landi og tekið tillit til þess sem sagt hefur verið hjá Mannréttindadómstóli Evrópu. Orðalaginu „að efla kristilegt siðgæði“ er breytt í að leikskóli skuli efla siðferðisvitund barna. Hér er ekki, og ég vil undirstrika það, um efnislega breytingu að ræða heldur viðurkenningu á því að leikskólar eru mennta- og uppeldisstofnanir sem virða fjölbreytileika. Áhersla er lögð á að með þessari breytingu er ekki verið að draga úr mikilvægi kristinnar trúar og kristilegu gildismati, menningu og hefðum. Markmiðskaflanum er einnig breytt lítillega með hliðsjón af þróun leikskólans undanfarin ár. Breytingarnar eru til að undirstrika þátt kennslu og náms í leikskólastarfi til jafns við umönnun og uppeldi.

Í frumvarpinu er að finna skilgreiningu á hugtakinu foreldri sem vísi til þeirra sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Þetta er talið nauðsynlegt vegna fjölgunar tilvika þar sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá og til afmörkunar á því við hverja er átt með hugtakinu. Stuðst er við sömu afmörkun í frumvarpi til laga um grunnskóla sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um stjórnskipan leikskóla. Skyldur leikskólastjóra sem yfirmanns og faglegs leiðtoga eru einnig skýrðar og bundið er í lög að þeir eigi áheyrnarfulltrúa í nefnd sem fer með málaflokkinn. Í kaflanum er einnig það nýmæli að menntamálaráðherra skuli gera Alþingi grein fyrir skólastarfi í leikskólum þriðja hvert ár og er það til samræmis við ákvæði í grunn- og framhaldsskólalögum. Með þessu vonast ég til þess að við fáum enn frekari umræðu um skólamál hér á þinginu og jafnframt því að aukið eftirlitshlutverk verður af hálfu ráðuneytisins gagnvart skólastigunum. Það er mikilvægt og einnig brýnt að Alþingi komi hér sterkar inn.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um starfslið leikskóla, menntun þess, skyldur og réttindi. Einnig eru nokkur nýmæli þar, til að mynda tilvísun í ákveðið frumvarp um menntun og ráðningu kennara þess efnis að að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara. Þetta er grundvallarbreyting, herra forseti, frá því sem er í gildandi löggjöf þar sem gert er ráð fyrir að allir sem starfi við kennslu og uppeldi hafi leikskólakennaramenntun en heimild er gefin leikskólum til að ráða aðra ef ekki fást leikskólakennarar til starfa.

Í kaflanum er jafnframt að finna nýmæli er taka til þagmælsku starfsfólks og til þess að við ráðningu í leikskóla liggi fyrir sakavottorð eða heimild leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Annað nýmæli í kaflanum eru ákvæði um símenntun fyrir leikskólakennara og leikskólastjóra. Einnig er fjallað um aðkomu foreldra að leikskólastarfi í IV. kafla frumvarpsins en sá kafli endurspeglar ábendingar fjölmargra hagsmunaaðila um mikilvægi þess að auka aðkomu foreldra að starfinu. Ábyrgð á uppeldi barna hvílir einkum á herðum foreldra en öflugt og náið samstarf þeirra og starfsliðs leikskóla er lykill að vellíðan og þroska barna. Stofnun foreldraráða við leikskóla er ein leið til að styrkja aðkomu foreldra að málefnum leikskólanna þar sem þeim er gefinn kostur á að hafa meiri áhrif á faglegt starf og því er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir því að slíkum vettvangi verði komið á í leikskólum með sama hætti og verið hefur í grunnskólum.

Þá er að finna í frumvarpinu ákvæði um að leikskólar skuli leitast við að tryggja foreldrum sem ekki tala íslensku eða nota táknmál þjónustu með túlkun upplýsinga, munnlegum og/eða skriflegum, sem eru mikilvæg nýmæli og að mínu mati réttarbót.

Í V. kafla frumvarpsins eru skýr ákvæði um starfsumhverfi leikskóla og að horft verði til nokkurra grundvallaratriða við gerð og hönnun leikskólahúsnæðis. Tekið verði í auknum mæli mið af þörfum leikskólabarna, starfsliðs leikskóla og þeirrar starfsemi er þar fer fram. Þetta atriði er sérstaklega mikilvægt í ljósi þróunar á síðustu árum, m.a. á lengd dvalartíma leikskólabarna. Grundvallarbreyting frá gildandi löggjöf er að viðmið vegna barngilda og rýmis verða tekin úr reglugerð og þess í stað verði aðstæður látnar ráða á hverjum stað barnafjölda að teknu tilliti til lágmarkskrafna um húsnæði og aðbúnað barna og starfsfólks.

Sérstaklega er kveðið á um skyldur hvers leikskóla til að móta skólanámskrá. Sú skylda hefur hvílt á leikskólum að móta skólanámskrá en nú er einungis kveðið á um slíkt í aðalnámskrá leikskóla. Þá hefur sú breyting verið gerð að skólanámskrá skal fá umsögn foreldraráðs og staðfestast af nefnd sem fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórna. Þar er einnig það nýmæli að sveitarstjórnum er gert að leitast við að koma á nánu og skilvirku samstarfi leik- og grunnskóla. Mikilvægt er að vandað sé til verka við framkvæmd þessa samstarfs og að skólastigin bæði, nemendur og starfslið skóla, taki virkan þátt í því. Í ljósi áherslu á samfellu milli skólastiga er að finna í frumvarpinu ákvæði um miðlun upplýsinga um hvert barn á milli skólastiga þannig að upplýsingar fylgi barninu frá leikskóla í grunnskóla. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að grunnskólanám á að vera eðlilegt framhald af leikskólanáminu.

Sprotasjóður, sem áður var þróunarsjóður, er hér í annarri útfærslu en í gildandi lögum og verður sjóðurinn sameiginlegur með öðrum skólastigum með víðtækara hlutverk, líka til þess að undirstrika að við skoðum þetta sem heild, sem eina samfellu þannig að við lítum á skólakerfið sem, eins og ég gat um, eina heild og þess vegna er mikilvægt að sjóðurinn taki heildstætt yfir allt skólastigið.

Aukin áhersla er á mikilvægi eftirlits og mat á gæðum leikskólastarfs, það endurspeglast í VII. kafla frumvarpsins. Leitast er við að skapa grundvöll fyrir umbóta- og þróunarstarf í leikskólum og tryggja þátttöku leikskólakennara, barna og foreldra í mati á leikskólastarfi. Í frumvarpinu er sveitarfélögum tryggð aðkoma að ytra mati á þeirri starfsemi sem fram fer í leikskólum þar sem ákvæði um mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs miða að því að sveitarfélögum sé gert kleift að fylgja eftir skólastefnu sinni og áherslum í leikskólastarfi sem fram koma í skólanámskrám.

Fjallað er um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla í VIII. kafla. Þar eru ákveðnar breytingar, t.d. er gert ráð fyrir að sveitarfélög stuðli að því að nauðsynleg þjónusta fari fram innan leikskólans. Frumvarpið gerir ráð fyrir skýlausum rétti barna til þeirrar þjónustu sem að mati viðurkenndra greiningaraðila og annarra sérfræðinga er þörf á. Meginmáli skiptir að mínu mati að þjónustan sé veitt og ákjósanlegast er að hún sé veitt innan leikskóla. Þá er nýmæli að leikskólastjóra ber að samræma störf þeirra sem fara með málefni einstakra barna er lýtur að sérfræðiþjónustu og hafa samráð við félagsþjónustu sveitarfélaga eftir því sem þurfa þykir.

Sérstakur kafli er um stofnun og rekstur leikskóla og er sveitarfélögum skylt að setja sér reglur um veitingu rekstrarleyfa um rekstur leikskóla á vegum annarra en sveitarfélaga. Sjálfstætt reknum leikskólum hefur fjölgað undanfarin ár og því er þörf á að skýrar sé kveðið á um ábyrgð, réttindi og skyldur rekstraraðila. Einnig eru tvö heimildarákvæði fyrir sveitarstjórnir til að nýta sér við rekstur leikskóla. Þá er heimildarákvæði fyrir samvinnu fleiri en eins sveitarfélags um rekstur leikskóla og samrekstri leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. Forsendur fyrir slíku fyrirkomulagi eru fagleg en ekki síður rekstrarleg sjónarmið. Markmiðið með heimildarákvæðinu er einkum að auðvelda fámennum sveitarfélögum að reka viðkomandi skólastig og sambærilegt ákvæði er einnig í frumvarpi til laga um grunnskóla.

Þá er bætt við nýju ákvæði um þróunarskóla er veitir heimildir til að taka upp nýbreytni í leikskólastarfi með því að víkja frá einstökum ákvæðum laga og aðalnámskrár. Þá er nýtt ákvæði um málsmeðferðarreglu í ákveðnum málum sem talin er þörf á að lögbinda, m.a. til að tryggja rétt leikskólabarna til ákveðinnar þjónustu í leikskólum.

Virðulegi forseti. Ísland er eitt fárra landa sem lagalega hefur skilgreint leikskólann sem fyrsta skólastigið. Frumvarpið styrkir stoðir leikskólans og felur í sér aukna viðurkenningu á skólastiginu sem mikilvægum hlekk í skólagöngu barnanna okkar. Íslenskt skólakerfi byggist á því að engum sé mismunað. Öll börn eiga jafnan rétt til leikskólagöngu og eiga að sitja við sama borð óháð stöðu eða þörfum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða börn með sérþarfir. Leikskólum ber að taka tillit til þess að börn koma á ólíkum forsendum í leikskóla og þá er það verkefni leikskóla að jafna þann mun með stuðningi ríkis og sveitarfélaga. Það er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að gera skóla á Íslandi enn betri en þeir eru í dag. Leikskólinn er skóli án aðgreiningar þar sem öllum börnum er sinnt eins vel og kostur er á sviði menntunar og uppeldis. Með aukinni áherslu á hagsmuni barnsins, á þátttöku foreldra í mótun leikskólastarfs, á menntun, réttindi og skyldur starfsliðs leikskóla og sjálfstæði sveitarfélaga og einstakra leikskóla til að móta rekstur og faglegt starf í leikskólum færumst við skrefinu nær því að gera leikskólana okkar enn betri í þágu barnanna okkar.

Ég ætla þá að fara yfir í grunnskólana. Frumvarpið um grunnskólana er grundvallað á því meginsjónarmiði að börnum á skólaskyldualdri séu búnar kjöraðstæður til náms og þroska.

Megináherslur frumvarpsins verði eftirfarandi: Skapa á skilyrði fyrir menntun íslenskra barna, að þau verði til fyrirmyndar á alþjóðavísu. Leitast við að tryggja velferð allra grunnskólabarna og að þau fái jöfn tækifæri til náms. Stuðla að því að nemendur og foreldrar þeirra eigi fjölbreytta valkosti um val á grunnskólum og tilhögun náms, að nám verði lagað að ólíkum þörfum nemenda og að þeir taki virkan þátt í skólastarfi. Auka á svigrúm og samfellu á milli skólastiga og innan grunnskólastigsins. Það er nokkuð sem allir á Alþingi hafa kallað eftir á undanförnum árum. Grunnskólabörn fái viðunandi stuðning í námi og sérfræðiþjónusta verði samhæfð með þarfir barnsins að leiðarljósi, ábyrgð, réttindi og skyldur barna og foreldra verði skýrð, sköpuð verði skilyrði fyrir aukinni þátttöku foreldra í skólastarfi og sterkari tengslum þeirra við stjórn skólans og skólasamfélagið almennt. Forræði sveitarfélaga í skólarekstri aukið og sjálfstæði skóla verði meira. Skýrari verkaskipting er sett inn milli ríkis og sveitarfélaga og stjórnenda og staðfest sú meginregla að menntun barna í grunnskólum landsins sé gjaldfrjáls.

Markmið grunnskólastarfa eins og þau voru skilgreind í eldri lögum um grunnskóla frá árinu 1974 hafa að grunni til haldist lítið breytt. Á þeim tíma sem liðinn er hefur íslenskt þjóðfélag tekið miklum breytingum eins og við þekkjum. Markmiðsgrein frumvarpsins er ætlað að taka mið af fjölbreytileika nemendahópsins en einnig er þar lögð áhersla á sköpun og frumkvæði.

Í gildandi lögum er fjallað um markmið skólastarfs og þar segir að starfshættir skólans skuli m.a. mótast af kristilegu siðgæði. Í frumvarpinu er á hinn bóginn vísað til jafnréttis, ábyrgðar, umhyggju, sáttfýsi og virðingar fyrir manngildi og hefur það m.a. verið sett inn í námskrána. Eru breytingarnar gerðar að höfðu samráði við fjölmarga aðila. Framangreind hugtök endurspegla hugtök kristilegs siðgæðis og grunngildin sem íslenskt þjóðfélag byggir á. Skyldur einstaklingsins við umheiminn og náungann eru ítrekaðar. Um leið er undirstrikað mikilvægi þess að börn fái tækifæri til að nýta og þroska sköpunarkraft sinn og að skólastarfið leggi grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og frumkvæði. Þá er greinilega lögð áhersla á að grunnskólar skuli stuðla að góðu samstarfi við heimilin með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf. Ég legg áherslu á, herra forseti, að með breytingunni er ekki verið að draga úr mikilvægi kristinnar trúar og kristilegu gildismati, menningu okkar og hegðun.

Virðulegi forseti. Samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum eru aðstæður íslenskra grunnskóla með því besta sem gerist hvað varðar húsnæði og fjármagn til rekstrar. Í samanburði OECD kemur fram að fjárframlög og fjöldi kennara miðað við fjölda nemenda er með því hæsta sem gerist í aðildarríkjum stofnunarinnar. Í samanburði á þekkingu á færni 15 ára nemenda, PISA-könnuninni, sem sama stofnun stendur fyrir, er árangur íslenskra nemenda hins vegar aðeins fyrir neðan meðallag og ekki viðunandi í samanburði við þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Það er öllum ljóst sem kynnt hafa sér málin að sveitarfélögin hafa sýnt mikinn metnað í rekstri grunnskóla og oft búið nemendum fyrirmyndaraðstöðu og eflt stuðning við þá í námi. Ísland er í fararbroddi hvað varðar að skapa skóla án aðgreiningar og aðlaga starf grunnskóla að þörfum barna með sérþarfir. Áhersla er lögð á að sveitarfélög axli aukna faglega ábyrgð á starfi grunnskóla meðfram rekstrarlegri ábyrgð. Samhliða er menntamálaráðuneytinu sett aukin skylda til að veita sveitarfélögunum og grunnskólum aðhald með virku mati og virku eftirliti. Hlutverk grunnskóla er að veita nemendum góða alhliða menntun jafnframt því að stuðla að almennri velferð barna. Líkt og í fyrri lögum um grunnskóla er í frumvarpinu gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið setji grunnskólum aðalnámskrá þar sem kveðið skal á um meginmarkmið náms og kennslu, sett viðmið um þekkingu og færni nemenda á ólíkum námssviðum. Í vaxandi mæli skal taka viðmið um þekkingu og færni, miða að alþjóðlegum skilgreiningum sem m.a. eru þróaðar í samstarfi Evrópuríkja.

Ég fer nú stuttlega yfir könnunarprófin í frumvarpinu. Þar eru felld ákvæði um samræmd lokapróf sem áður var m.a. ætlað hlutverk við innritun í framhaldsskóla. Í staðinn er lagt til í frumvarpinu að nemendur í 10. bekk taki könnunarpróf sambærileg þeim sem lögð eru fyrir í 4. og 7. bekk. Þau skulu lögð fyrir nemendur í fyrri hluta 10. bekkjar þannig að þau nýtist bæði nemendum og skólum í starfi þeirra. Þar er verið að hlusta á þá miklu gagnrýni sem sett hefur verið fram, að samræmd próf í 10. bekk séu of stýrandi.

Megintilgangur samræmdra prófa verður að afla upplýsinga um námsstöðu einstaklinga sem nýtast þeim við áframhaldandi nám en einnig er möguleiki að nýta sér niðurstöðu prófanna til að meta árangur skólastarfs almennt. Skólaskyldunni allri er hægt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga. Börn geta með heimild skólastjóra hafið nám fyrir sex ára aldur og lokið því á skemmri tíma en 10 árum, uppfylli þau skilyrði í námskrá og hægt er að gera það í sjálfstætt reknum grunnskólum eða öðrum viðurkenndum skólum eins og þeim sem sinna heimakennslu.

Í gildandi lögum er kveðið á um að kennsludagar nemenda skuli ekki vera færri en 170. Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um 180 skóladaga nemenda ef skipting milli kennsludaga og annarra starfsdaga nemenda verður á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar. Grunnskólar eiga að gæta að velferð barna eins og eðlilegt er, gæta að andlegri og líkamlegri félagslegri vellíðan þeirra barna er hann sækja. Réttur barna til skólagöngu er skýrt settur fram og skyldur sveitarfélaga í þeim efnum áréttaðar í 5. gr. frumvarpsins. Einnig er kveðið á um réttindi nemenda til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun og fyrirkomulag en jafnframt er kveðið á um skyldu þeirra til að hlíta reglum. Lagt er til að lögfest verði sú meginstefna að skóli sé án aðgreiningar og veiti öllum börnum þjónustu óháð uppruna, tungumáli, heilsu eða fötlun. Einnig er kveðið skýrar á — ég vil vekja athygli á því — um réttindi fósturbarna til skólagöngu en áður. Velferð barna í grunnskólum byggir ekki síst á því að foreldrar og forráðamenn gæti hagsmuna barna sinna. Þeir eigi samstarf við skóla og styðji börnin á skólagöngu þeirra.

Í frumvarpinu er kveðið á um réttindi og skyldur foreldra hvað það varðar og þar segir að foreldrar eigi rétt á að taka þátt í námi barna sinna og geti átt val um grunnskóla fyrir börnin sín innan sveitarfélagsins. Síðast var sjónarhorn barna og aðstandenda, er þar fyrir mestu að þjónustan sem barnið á kröfu á til að geta stundað nám sitt sé fyrir hendi og sé greiðlega veitt. Skiptir þá ekki máli hvort þjónusta falli formlega undir skóla, félags- eða heilbrigðisþjónustu. Einnig er aukin krafa af hálfu foreldra að þjónusta sé veitt innan grunnskólans ef þess er nokkur kostur. Innan grunnskóla er nú veitt ýmisleg sérfræðiþjónusta, svo sem námsráðgjöf, sálfræðiþjónusta og fleira. Mikilvægt er að koma samhæfingu í sérfræðiþjónustu innan skóla og sveitarfélaga, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu milli ráðuneyta og milli ríkis og sveitarfélaga. Kerfið allt verður að tala saman til að við getum sinnt börnunum okkar sem mest og best.

Mikilvægt er að önnur sérþjónusta sem ákveðinn hópur fatlaðra barna þarf á að halda, svo sem sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talkennsla, geti farið fram að hluta til eða alfarið í skólunum óski foreldrar eftir því. Þarna verða kerfin að vinna saman með hagsmuni barnsins og foreldranna að leiðarljósi. Í frumvarpinu er hlutur stjórnvalda og stjórnenda skýrar afmarkaður en áður var. Á það jafnt við um ríkisvaldið, sveitarfélög og skólanefndir, skólaráð og skólastjórnendur. Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefnanna sem lögin taka til og hefur með hendi sérstakt stjórnsýslueftirlit á grundvelli tilgreindra heimilda í frumvarpinu er varðar réttindi og skyldur nemenda og foreldra. Sveitarfélög eru sjálfstætt stjórnvald og þau bera ábyrgð á skipun og framkvæmd skólahalds í grunnskólum innan sinna vébanda. Þau og skólarnir hafa með frumvarpinu mun meira sjálfræði varðandi mótun skólastefnu.

Í frumvarpinu er skilgreint hvaða ákvarðanir er varðar réttindi og skyldur nemenda eru kæranlegar til menntamálaráðuneytis og hvað beri að leysa á vettvangi skóla eða sveitarfélags. Sveitarstjórnum er falin meiri ábyrgð á faglegu starfi í grunnskólum og skólastjórum er með frumvarpinu falið skýrara stjórnmálahlutverk. Þeim er veitt meira svigrúm en áður til að skipa málefnum skóla og stjórnun með þeim hætti sem fellur að þörfum hverju sinni. Við treystum á fagfólkið. Þá er búinn til nýr samráðsvettvangur um skólahaldið með skólaráðum sem í sitja fulltrúar kennara og annars starfshóps, foreldra og grenndarsamfélags og nemenda eftir því sem við á. Með þeim hætti er leitast við að efla lýðræðislega virkni þeirra sem tengjast starfi grunnskólans og áhrif þeirra á stefnumótun og starfsemi skóla og almenna umgjörð skólastarfs.

Ýmis nýmæli eru sem varða heimild sveitarfélaga til að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla að fenginni umsögn skólanefndar svipað og er í leikskólafrumvarpinu. Frumvarpið miðar einnig að því að kennsla og námsgögn í skyldunámi skuli áfram veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu. Nýmæli er hins vegar að kveðið er á um að hið sama eigi við um nám grunnskólanemenda sem er að aukast. Í framhaldsskólum er námið metið sem hluti af grunnskólanámi. Í frumvarpinu er að finna ákvæði um að sveitarfélögum sé heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir og lengda viðveru utan daglegs kennslutíma samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Á hinn bóginn er samkvæmt frumvarpinu ekki heimilt að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi þeirra en þó er heimilt að innheimta gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda. Meginmarkmiðið er að takmarka gjaldtökuheimild skóla og skýra þær. Þá er einnig gert ráð fyrir í 47. gr. frumvarpsins að unnt verði að kæra til menntamálaráðuneytisins ákvarðanir sem teknar hafa verið af hálfu grunnskóla um rétt og skyldu einstakra nemenda, þ.e. ákvarðanir sem falla undir gildissvið stjórnsýslulaga.

Meðal þeirra ágreiningsmála sem lotið geta kæru samkvæmt frumvarpinu er þegar ekki næst samkomulag milli foreldra og skóla um fyrirkomulag skólavistunar barns sem þarf á sérúrræði að halda. Skal skólastjóri þá taka ákvörðun í málinu á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga. Þótt meginsjónarmiðið sé að foreldrar geti ákveðið skólavistun í almennum skóla eða sérúrræði geta komið upp tilvik þar sem skoðað verði mál með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi. Málsmeðferðin tekur mið af óskum aðila sem komið hafa að framkvæmd málanna og er til þess ætluð að tryggja réttindi barnsins. Samkvæmt ákvæðinu skal setja í reglugerð nánari ákvæði þar sem m.a. verði kveðið á um málsmeðferð í kærumálum samkvæmt greininni. Gert er ráð fyrir að til ákvörðunar skólastjóra komi einungis í undantekningartilfellum.

Ég hef þegar fengið gagnrýni þess efnis að ekki megi skerða rétt foreldra til að velja skólaúrræði fyrir börn sín með þessum hætti. Ég vil því sérstaklega óska eftir að menntamálanefnd taki atriðið til sérstakrar skoðunar og tryggi við afgreiðslu málsins ótvíræðan rétt foreldra nemenda með sérþarfir að velja skóla fyrir börn sín.

Ýmsar fleiri breytingar eru, herra forseti, sem vert væri að vekja athygli á en ég hef farið einungis yfir meginatriði. Aukinn sveigjanleiki er boðaður, eins og ég hef sagt, samhliða auknu sjálfstæði og aukið svigrúm fyrir sveitarfélögin, skóla og skólarekstur allan í gegnum grunnskólann og allt er þetta gert til að efla umbótastarf og menntakerfið okkar.

Ég mun nú víkja að framhaldsskólafrumvarpinu en engum dylst að hlutverk framhaldsskóla hefur tekið miklum breytingum. Aukin sókn í menntun hefur skilað sér í mikilli fjölgun framhaldsskólanema og reyndar einnig háskólanema, enda þurftum við að herða á hvað það varðar og okkur hefur tekist það. Mun fleiri en áður ákveða að sækja sér menntun á framhaldsskólastigi og er það vel. Breytingar á samfélagi og atvinnuháttum kalla því á að framhaldsskólinn veiti breiðari hópi nemenda fjölbreyttari undirbúning fyrir líf og starf og frekari menntun en áður hefur þekkst. Hann verður að þroska og mennta einstaklinginn í víðum skilningi og fyrir marga er nám í framhaldsskóla mikilvægur undirbúningur til starfa á vinnumarkaði sem gerir æ meiri og fjölbreyttari kröfur um menntun og færni. Síðast en ekki síst undirbýr framhaldsskólinn einstaklingana fyrir frekara nám og þá oftast á háskólastigi þar sem námið byggist á þeim undirbúningi sem fer fram í framhaldsskólum. Framhaldsskólinn á sem sagt að taka tillit til þarfa atvinnulífsins annars vegar og hins vegar til háskólanna og það þekkja þeir sem lesið hafa og mótað starfsnámsskýrsluna og tillögu þeirra sem settu fram starfsnámsskýrsluna.

Frumvarpið er afrakstur víðtæks samráðs og byggir á störfum margra nefnda og starfshópa og mér er til efs að fleiri einstaklingar hafi lagt hönd á plóg við undirbúning frumvarpanna. Vinna við gerð frumvarpsins fór fram eins og ég hef áður rakið samkvæmt svokölluðu 10 skrefa samkomulagi mínu og Kennarasambands Íslands um umbætur og sókn í skólastarfi.

Með frumvarpinu er leitast við að skapa almenna rammalöggjöf um málefni framhaldsskólans þannig að skólar fái sem mest sjálfstæði og svigrúm til að sýna frumkvæði og skapa sér sérstöðu. Greina má meginatriði og markmið frumvarpsins í nokkra þætti og það geri ég síðar en ég vil undirstrika að frumvarpið felur í sér heildstæðar breytingar á framhaldsskólakerfinu.

Frumvarpið miðar einkum að eftirfarandi: Að sem flestir ljúki námi á framhaldsskólastigi og stórlega dragi úr brottfalli. Það hefur margoft verið rætt og ég er sannfærð um að þær leiðir sem boðaðar hafa verið og byggja m.a. á skýrslu starfsmannanefndar, munu skila okkur því að draga muni úr brottfalli. Frumvarpið miðar einnig að því að allir nemendur eigi kost á námi við hæfi í fjölbreyttu námsframboði, að tengsl framhaldsskóla við grunnskóla og háskóla séu sveigjanleg og þjál. Að réttur nemenda til skólavistar og náms verði styrktur m.a. með fræðsluskyldu stjórnvalda til 18 ára aldurs. Að gildi stúdentsprófs verði óskorað en framhaldsskólinn gefur kost á að byggja upp mismunandi námsframboð varðar hvað inntak og skipulag, að stórefla náms- og starfsráðgjöf og stuðning við nemendur, að draga stórlega úr miðstýringu á námsframboði og námskrárgerð og hvetja til aukins frumkvæðis skóla með frelsi þeirra til að þróa námsbrautir sem nýta sér síðan sérstöðu sína og styrk. Að skilgreina með greinargóðum hætti ólík námslok á framhaldsskólastigi og taka upp nýtt próf, framhaldsskólapróf. Að tekið verði upp nýtt einingakerfi í framhaldsskólum sem miðist við vinnuframlag nemenda og taki til alls náms, verknáms jafnt sem bóknáms, og að stúdentsnám á bóknáms- og verknámsbrautum verði jafngilt. Við ætlum að tryggja hag og stöðu nemenda og starfsmanna í iðn m.a. með því að framhaldsskólar beri ábyrgð á vinnustaðanámi. Jafnframt eru markmið frumvarpsins þau að gæði náms verði tryggð með því að efla innra og ytra mat á skólastarfi með stuðningi við umbætur í skólastarfi. Framhaldsskólar beri skýrari ábyrgð á heilsuvernd nemenda, forvörnum og skólastarfi og komið verði til móts við þarfir fatlaðra nemenda og annarra nemenda með heilsutengdar sérþarfir. Ég ætla að stikla á stóru í efni frumvarpsins en vísa síðan til umfjöllunar í athugasemdum við það.

Samkvæmt frumvarpinu flyst gerð námsbrautar frá ráðuneyti til framhaldsskólanna. Við drögum úr miðstýringu. Það þýðir að skólunum er falin eiginleg tillögugerð um fyrirkomulag, samhengi og inntak náms. Menntamálaráðuneytið mun eftirleiðis eingöngu gefa út almenna hluta aðalnámskrár en framhaldsskólar bera ábyrgð á gerð skólanámskrár og semja námsbrautalýsingar á grunni skólanámskrár og leggja fyrir ráðherra til staðfestingar í samræmi við viðmiðun lokaprófs. Það fyrirkomulag mun gilda um allt nám á framhaldsskólastigi, sérhæfðar námsbrautir og iðn- og verknám jafnt sem bóknám. Framhaldsskólarnir munu að fengnu þessu hlutverki geta markað sér sérstöðu.

Samkvæmt þessu flyst uppbygging námsbrauta þannig til skólanna en staðfestingarvaldið verður hjá ráðherra. Þetta er grundvallarbreyting og ég held að hún hljóti að vera mikið fagnaðarefni fyrir skólana en jafnframt og ekki síst mikil áskorun fyrir þá.

Frumvarpið kveður á um að horfið verði frá einingakerfi sem er við lýði í framhaldsskólum, en samkvæmt því og þeim námskrám sem í gildi eru á bóknámsbrautum þarf nemandi að ljúka 140 einingum til stúdentsprófs. Í því kerfi sem lagt er til að tekið verði upp er útreikningur eininga miðað við vinnuframlag nemanda. Það kerfi sem við lýði er byggðist á kennslustundafjölda í einstökum áföngum. Rétt er að vekja athygli á einmitt þessu atriði, að útgangspunkturinn er vinna nemandans og að nýtt einingakerfi tekur til alls náms allra nemenda, sama hvaða brautir þeir velja. Með því er stigið skref í þá átt að gera öllu námi jafnhátt undir höfði, að meta vinnu nemenda á einum kvarða. Samkvæmt frumvarpinu mundi ársvinna nemanda svara til 60 eininga. Það einingakerfi sem hér er lagt til svarar til einingakerfis sem tekið var upp á háskólastigi með gildistöku laga um háskóla og ætti því að auðvelda háskólum að fara í samstarf við framhaldsskóla, hugsanlega varðandi viðbótarnám til stúdentsprófs, sem menn hafa líka verið að kalla eftir hér og er vísað til í starfsnámsskýrslunni.

Breyting á einingakerfi, ábyrgð á sviði framhaldsskóla við skipulagningu námsbrauta svo og lenging á árlegum starfstíma skóla úr 175 dögum í 180 kallar á endurskoðun á umfangi náms og endurskilgreiningar á einstökum áföngum, inntaki þeirra en ekki síður einingavægi.

Ég vil í örstuttu máli fjalla um þau mismunandi lokapróf í framhaldsskólum sem frumvarpið kveður á um. Fyrst vil ég fara yfir í framhaldsskólaprófið en lagt er til að þar verði nýtt próf, framhaldsskólapróf, tekið upp. Miðað er við að framhaldsskólar semji sérstakar námsbrautalýsingar þar sem reynt er að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda. Vonir standa til að tilkoma þessa prófs geti verið mikilvægur liður í að draga úr brottfalli nemenda. Þar sem skipulag námsbrauta hefur verið tekið föstum tökum hafa þær skilað ágætu námsfólki upp í framhaldsskólann, til fagnáms, til stúdentsprófs og síðan til æðri mennta. Reynslan af almennu námsbrautunum hefur verið til athugunar og er ljóst að samhliða því sem tekið er upp nýtt framhaldsskólapróf muni gefast færi á að koma á ýmsum öðrum úrbótum í slíku námi til hagsbóta m.a. fyrir þann hóp sem ekki hefur fram til þessa fundið þar nám við hæfi.

Starfréttindapróf er samheiti yfir öll lokapróf sem veita tiltekin starfsréttindi og miðað er við að starfsgreinaráð séu ráðgefandi um megininntak starfsréttindaprófa en að skólar fái svigrúm til að þróa eigin námsleiðir og námshlutalýsingar í þessum efnum. Með þessu undirstrikum við sjálfstæði skóla til mótunar námsbrauta. Líkt og í öðru námi munu einstakir framhaldsskólar setja fram tillögur að námsbrautalýsingum í starfsréttindanámi og miðstýring í námskrárgerð verður þar með afnumin. Ekki verður um meiri háttar breytingar að ræða hvað varðar skipan prófa til starfsréttinda.

Umræðan á fyrri stigum snerist að miklu leyti um breytingar á hefðbundnu námi til stúdentsprófs. Námsleiðir til stúdentsprófs eru nú fjórar lögum samkvæmt, en margir framhaldsskólar hafa boðið nemendum að velja ólík kjörsvið við einstakar brautir. Námskrárgerð og námsbrautarlýsingar til stúdentsprófs hafa alfarið verið í höndum menntamálaráðuneytis, en skólar hafa haft takmarkað svigrúm til mismunandi útfærslna á námsbrautarlýsingum. Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu um breytingar á stúdentsprófinu er að mínu áliti mjög skynsamleg og í samræmi við þær raddir sem voru m.a. uppi hjá stjórn og stjórnarandstöðu á síðasta þingi um að auka sjálfdæmi og frelsi skóla varðandi mótun náms og námsframboðs.

Rök fyrir því að ráðuneytið gefi út fáar námsbrautir til stúdentsprófs eru ekki lengur sannfærandi að mínu mati, jafnvel þótt skólarnir hafi ákveðið svigrúm til að móta inntak náms á kjörsviðum eins og þeir hafa gert. Mikil gróska hefur verið í námsframboði á háskólastigi og kröfur, og þetta er mikilvægt að hafa í huga, um undirbúning fyrir það verða æ margbreytilegri og við því þurfa stjórnvöld en ekki síður framhaldsskólar að geta brugðist eigi þeir að þjóna nemendum sínum og þörfum atvinnulífs annars vegar og háskóla hins vegar en síðast en ekki síst samfélagsins alls.

Eins og gilda mun um allt annað nám á framhaldsskólastigi munu framhaldsskólar gera tillögur til menntamálaráðherra að námsbrautarlýsingum sem leiða til stúdentsprófs. Þó er tilskilið að 45 einingar á hverri námsbraut til stúdentsprófs skuli vera í þeim greinum sem nefndar eru kjarnagreinar framhaldsskólans, þ.e. í stærðfræði, íslensku og ensku. Samkvæmt þessu verður það á ábyrgð einstakra skóla að skilgreina inntak námsins og þar með stúdentsprófsins. Þess er að vænta að við gerð námsbrautarlýsinga til stúdentsprófs muni framhaldsskólar kappkosta að tryggja að meginkostum stúdentsprófsins sé við haldið, jafnframt því sem þeir leitast við að marka sér ákveðna sérstöðu og byggja á þeim sérstöku gæðum sem þeir ráða yfir. Við skipulag náms munu skólar vafalaust kappkosta að nýta námstíma svo vel sem kostur er.

Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að námstími eða einingafjöldi til stúdentsprófs sé skilgreindur í lögum. Leitast er við að skapa framhaldsskólum svigrúm til að gera tillögu um uppbyggingu, skipulag og inntak náms til stúdentsprófs, sem lögð er fyrir ráðherra til staðfestingar. Gert er ráð fyrir að einstakir skólar nýti þetta svigrúm til að útfæra mismunandi námsbrautir til stúdentsprófs, ekki síst í iðn- og verknámsgreinum. Markvisst er stefnt að því að aukinn sveigjanleiki og fjölbreyttara námsframboð á námsbrautum til stúdentsprófs muni leiða til þess að fleiri ljúki námi til stúdentsprófs á skemmri tíma en nú er. Innan hins nýja kerfis verður væntanlega til fjöldi nýrra námsleiða sem henta breiðum hópi fólks með mismunandi þarfir. Við erum því að sjá fram á mun fjölbreyttara stúdentspróf en nú er.

Ég vil sérstaklega geta þess að kveðið er á um það í frumvarpinu að framhaldsskólar geti, að fenginni staðfestingu menntamálaráðherra, skilgreint önnur námslok og lokapróf en framhaldsskólapróf, starfséttindapróf og stúdentspróf, þ.e. þau þrjú próf sem ég hef farið yfir.

Ef litið er til þróunar á framhaldsskólastigi undanfarin missiri má greina að mikill vöxtur hefur verið í aðsókn að ýmsum styttri og sérhæfðari námsbrautum sem flokkaðar eru sem annað starfsnám í viðtekinni flokkun framhaldsskólanáms. Frumkvæði að stofnun slíkra námsbrauta getur eftir atvikum komið frá launþegasamtökum og fagfélögum, atvinnurekendum, starfsgreinaráðum í samstarfi við skóla eða aðra fræðsluaðila.

Loks er í frumvarpinu sérstaklega vikið að námi sem skilgreint er sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi. Hér er um að ræða skipulegt nám að loknum öðrum prófum í framhaldsskóla. Dæmi um slíkt nám er að finna í framhaldsskólum og má þar m.a. nefna iðnmeistarapróf í löggiltum iðngreinum.

Merki eru um vaxandi áhuga á námi sem unnt er að stunda í beinu framhaldi af iðn- og tækninámi en tækifæri til þess hafa verið fremur fá. Hér er því um spennandi tækifæri til nýbreytni fyrir framhaldsskóla að ræða og sjá má fyrir sér ýmsa möguleika á samstarfi þeirra við háskóla um mat á hluta náms til eininga á háskólastigi, en lög um háskóla fela einmitt í sér heimild til þess konar mats og hafa rektorar þegar greint mér frá því að þeir sjái mikla möguleika og tækifæri fólgin í þessari breytingu.

Ég hef rætt um skýrslu starfsnámsnefndar, sem skilað var í júní 2006, en í henni koma fram áhyggjur af skýrri aðgreiningu skólastarfs í bóknám og verknám. Mikilvægt er að efla verknám og gera því jafnhátt undir höfði og bóknámi. Til að ná því markmiði er mælt fyrir um eftirfarandi breytingar í frumvarpinu:

Í fyrsta lagi að skólar taki ábyrgð á námi nemenda í starfsnámi m.a. með því að tryggja þeim samninga við aðila sem standast kröfur sem skólar setja um vinnustaðanám og starfsþjálfun. Með þessari breytingu eru bundnar vonir við að samstarf skóla og atvinnulífs eflist nemendum til hagsbóta.

Í öðru lagi að afnumin verði mörk kennslutíma og próftíma sem leiðir til þess að haga má skipulagi kennslu í iðn- og verknámi með öðrum hætti en t.d. í bóknámi.

Í þriðja lagi að auðveldara verði að meta starfsreynslu eða starfsþjálfun sem hluta af námi en áður hefur verið. Frumvarpið kveður á um að í almennum hluta aðalnámskrár verði settar reglur um mat á starfsnámi og skilgreiningu færnimarkmiða. Þar verði einnig reglur — og ég vek athygli þingheims á því — um raunfærnimat, sem við erum að þróa í góðu samstarfi m.a. við atvinnulífið, jafngildingu náms og mat á námi þegar nemendur flytjast á milli skóla eða námsbrauta.

Í fjórða lagi að mun auðveldara verði að tengja iðn- og verknám öðru námi.

Í tengslum við framangreindar ráðstafanir til eflingar verknámi er rétt að benda á að í skilabréfi nefndar um frumvarp til laga um framhaldsskóla er vikið að kostnaði við vinnustaðanám. Þar segir: „Nefndin gerir tillögur um grundvallarbreytingar á skipulagi verknáms í þá veru að skólar axli aukna ábyrgð á því, þar með talið vinnustaðanámi. Nefndin telur að setja eigi á fót sjálfstæðan sjóð sem hafi það hlutverk að greiða fyrir nám á vinnustað, enda verði námið skipulagt í samvinnu vinnuveitenda og framhaldsskóla, eftir atvikum með fulltingi viðkomandi starfsgreinaráðs. Er lagt til við menntamálaráðherra og ríkisstjórn að undirbúningur að löggjöf um slíkan sjóð hefjist sem fyrst.“

Ég vil vekja þingheims á síðastnefnda atriðinu og boða um leið að ég hyggst beita mér fyrir því í ríkisstjórn að hafinn verði undirbúningur að stofnun vinnustaðanámssjóðs og þar komi að þau ráðuneyti og aðrir hagsmunaaðilar sem við á. Verði slíkur sjóður að veruleika er stigið stórt skref í átt til öflugri starfsmenntunar.

Að mörgu leyti er tekið tillit til aukins kostnaðar við vinnustaðanám, en mig minnir að í kostnaðarmatinu sé gert ráð fyrir a.m.k. 200 millj. kr. Þetta allt undirstrikar það að við reynum að fylgja þeim orðum eftir að við viljum efla viðgang og styrkja iðn-, verk- og starfsnám í samfélaginu. Við þurfum á því að halda.

Í frumvarpinu er í fyrsta sinn skilgreindur sérstakur réttur nemenda til náms í framhaldsskóla. Þar segir að allir þeir sem lokið hafa grunnskóla, hafa jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri skuli eiga rétt til innritunar í framhaldsskóla og til að stunda þar nám að 18 ára aldri. Þessum rétti halda nemendur svo lengi sem þeir virða þær skyldur sem fylgja námsrétti í framhaldsskóla en þær lúta að skólasókn, hegðun og námsframvindu.

Samhliða auknu sjálfstæði framhaldsskóla og minni miðstýringu á námsframboði og námskrárgerð er mikilvægt að tryggja gæði skólastarfsins. Framhaldsskólar þurfa að sjálfsögðu að fara eftir gildandi lögum og reglum að veita nemendum viðhlítandi þjónustu.

Mat og eftirlit með gæðum skólastarfs í frumvarpi þessu tekur mið af tveimur meginsjónarmiðum. Annars vegar að unnið sé markvisst að eflingu gæða innan skólanna með innra mati. Hins vegar að skólarnir sýni ábyrgðarskyldu út á við gagnvart þeim sem að skólunum standa, njóta þjónustu þeirra eða hafa hagsmuni af starfi þeirra. Mikilvægt er að tryggja með nauðsynlegum fjárveitingum að innra og ytra mati verði fylgt eftir þannig að niðurstöður þess skili sér í raunverulegum umbótum í skólastarfi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarps til laga um framhaldsskóla og vík þá máli mínu að frumvarpi til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Frumvarpinu er ætlað að koma í stað frumvarps til laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Heitið í þessu er þó annað en með því endurspeglast sú stefnumörkun að ríkari kröfur verði gerðar til kennaramenntunar. Með því er lögð áhersla á að börn og ungmenni búi við sem best uppeldis- og námsskilyrði. Í því felst jafnframt að skólastigin, leikskólinn, grunnskólinn og framhaldsskólinn, verði færð nær hvert öðru og stuðlað verði að því strax í leikskóla hefjist undirbúningur að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tekur við af öðru. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að til þess að geta fengið leyfisbréf sem leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari verði hlutaðeigandi að hafa lokið meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á fræðasviði til kennslu á viðkomandi skólastigi. Sérstaklega mun þetta hafa þýðingu fyrir störf leikskólakennara en gert er ráð fyrir að minnst tveir þriðju hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara. Í því felst jafnframt mikilsverð viðurkenning á störfum leikskólakennara og því þýðingarmikla hlutverki þeirra að mennta börn í leikskólum sem er fyrsta skólastigið eins og ég hef áður vikið að.

Virðulegi forseti. Það er löngu viðurkennt í þeim löndum sem við Íslendingar horfum til að beint samhengi er á milli gæða og skilvirkni menntakerfis annars vegar og menntunarstigs, lífsgæða og efnahagsþróunar samfélagsins hins vegar. Við stefnumörkun í skólamálum á vegum alþjóðastofnana og einstakra ríkja hafa menn jafnframt í vaxandi mæli gert sér grein fyrir miðlægri stöðu kennarans í breytingaferlinu öllu og þeirri kjölfestu sem öflug kennaramenntun er í menntakerfinu. Að þessum sökum hefur starfsmenntun kennara verið til endurskoðunar víða um heim.

Austan hafs og vestan hafa menn reynt að greina fjölbreytileika kennarastarfsins og alls staðar komist að þeirri niðurstöðu að efla þurfi kennaramenntun fyrir öll skólastig og tryggja stöðu hennar á háskólastigi. Við samningu þessa frumvarps hefur verið litið til þeirrar stefnumörkunar. Menntun kennara hér á landi hefur ekki fylgt þeim kröfum sem gerðar eru til menntunar kennara í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Við höfum m.a. litið til Finnlands en Finnar einbeittu sér á sínum tíma sérstaklega að kennaramenntun og ákváðu að efla hana á öllum skólastigum. Ég tel einnig að með því tækifæri sem við sjáum í sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands á næsta ári munum við sjá ótalmörg tækifæri til þess að efla kennaramenntun enn frekar, m.a. hefur verið rætt um aukna faggreinaþekkingu kennara á sviði íslensku. Einnig væri hægt að nefna stærðfræði, ensku og fleiri þætti.

Menntun leikskólakennara hefur nokkra sérstöðu í alþjóðlegu samhengi þar sem leikskólinn er ekki á öllum stöðum talinn til almenns skólastarfs og skólakerfis. Íslendingar voru í framvarðasveit ríkja til að skilgreina leikskólann sem fyrsta stig skólakerfisins árið 1994. Fram til þessa hefur verið rætt um leikskólinn og leikskólamálin, t.d. á sviði hins norræna samstarfs, á sviði félagsmálanefnda norrænu ráðherranefndarinnar hjá félagsmálaráðherrum. Eftir tillögu mína til norska ráðherrans, sem var formaður norrænu ráðherranefndarinnar um mennta- og menningarmál, var samþykkt að við fengum leikskólamálin á dagskrá hjá menntamálaráðherrum norrænu ríkjanna.

Við höfum verið í forustu varðandi þetta og jafnframt lagt áherslu á að fagleg starfsmenntun leikskólakennara sé þeim mun mikilvægari sem nemendur eru yngri. Menntun leikskólakennara hérlendis er nú þriggja ára háskólanám. Annars staðar á Norðurlöndunum er menntun leikskólakennara þriggja til þriggja og hálfs árs háskólanám. Hún hefur víða verið færð á háskólastig, t.d. í Bretlandi, Þýskalandi, á Spáni og í Lúxemborg. Eðlilegt er að fagleg og fræðileg viðfangsefni í starfsmenntun kennara hérlendis verði dýpkuð í samræmi við aukna kröfu til kennarastarfsins, m.a. vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna og nýrrar þekkingar á tengslum menntunar og samfélagsþróunar. Á tímum hraðra samfélagsbreytinga, herra forseti, þarf að gera auknar kröfur til fagstétta kennara á öllum skólastigum. Þar er ekkert skólastig undanskilið.

Með frumvarpinu verða kröfur til menntunar leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara auknar þannig að þær verði sambærilegar við það sem tíðkast hjá nágrannaþjóðunum. Jafnframt verður form hennar lagað að Bologna-ferlinu, um skipan háskólanáms í Evrópu. Það þýðir að kennaranám verði m.a. skipulagt sem þriggja ára grunnnám og síðan framhaldsnám til meistaragráðu. Með þessum breytingum verður kennaranám hugsanlega til fjögurra eða fimm ára. Það er misjafnt, eins og menn vita, hvað nám til meistaragráðu getur verið langt.

Auk þess sem ég hef rakið felur frumvarpið einnig í sér eftirfarandi breytingar og áherslur:

Í fyrsta sinn er gert ráð fyrir sérhæfingu í leyfisbréfi á grunnskólastigi fyrir fólk sem hefur fagmenntun á ákveðnu sviði ásamt kennslu- og uppeldisfræði. Ég hef þegar talað um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum leikskólakennara. Gildissvið leyfisbréfa leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara er útvíkkað til aðliggjandi skólastiga þannig að viðkomandi kennarar hafi einnig heimild til að kenna ákveðnum aldursflokkum eða á sérsviði sínu. Er þetta m.a. gert til að stuðla að ákveðnum sveigjanleika á milli skólastiga og að mínu mati líka til að auðvelda sveitarfélögunum að bjóða upp á fjölbreytt skólaform og námsbrautir innan sinna raða. Ég get nefnt og hef oft nefnt í þessu samhengi Krikaskóla í Mosfellsbæ sem er verið að setja á laggirnar. Það er skóli frá 1–9 ára. Það er ekkert óeðlilegt að við bjóðum þá upp á kennaranám sem taki til þess skóla þannig að kennaramenntun verði flæðandi á milli skólastiga, að kennarar á neðri stigum grunnskóla geti kennt í leikskóla og öfugt. Hið sama gildir varðandi framhaldsskólakennara og grunnskólakennara á efri stigum grunnskóla þannig að það er verið að efla samfelluna með þessu og fjölga tækifærum.

Miðað er við að í leikskóla skuli að lágmarki tveir þriðju hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara. Ég vil undirstrika að með þessu er ekki lagt til að skylt verði að segja núverandi starfsmönnum leikskóla upp störfum, eins og menn hafa spurt mig um. Reglur um ráðningu í tímabundin störf og afleysingar eru einfaldaðar og loks hefur orðalagi og framsetningu gildandi laga verið breytt til einföldunar en gildandi lög hafa á köflum þótt tyrfin og fela í sér margar endurtekningar.

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin víkja að kostnaðaráformum frumvarpanna. Menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa sameiginlega metið forsendur kostnaðaráhrifa vegna frumvarpa um leikskóla, grunnskóla og menntun og ráðningu kennara og stjórnenda. Það er samstaða um að ný ákvæði í leik- og grunnskólafrumvarpinu geti haft útgjaldaaukningu í för með sér fyrir sveitarfélög. Aukningin er þó að verulegu leyti háð aðstæðum og því hvernig til tekst að útfæra mismunandi ákvæði á hverjum stað. Jafnframt er samstaða um að ákvæði um skipulag sérfræðiþjónustu, ákvæði sem heimila samrekstur leik-, grunn- og tónlistarskóla og ákvæði um að grunnskólanemendur geti jafnframt stundað nám á framhaldsskólastigi geti haft hagræðingaráhrif í rekstri fyrir sveitarfélög þannig að bein kostnaðaráhrif eru því ekki ljós. Á þessu stigi er því ekki unnt að leggja raunhæft mat á heildarkostnaðaráhrif frumvarpa. Þess vegna og í því ljósi mun menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna að því að safna upplýsingum og þróa mælikvarða til að meta kostnaðaráhrif þeirra lagabreytinga sem frumvörpin hafa í för með sér, verði þau samþykkt á Alþingi.

Kostnaðaráhrif þess að auka menntun kennara hafa hins vegar verið reiknuð út á grundvelli sameiginlegs mats ráðuneytisins og sambandsins. Ljóst er að um nokkurn kostnaðarauka er að ræða fyrir ríki og sveitarfélög sem kemur þó ekki fram fyrr en að nokkrum árum liðnum. Áætlað er að árið 2018, þegar kostnaðaráhrifa frumvarpsins fer að gæta að fullu, verði árlegur viðbótarkostnaður sveitarfélaga vegna launa kennara um 1 milljarður kr. Er þá miðað við ákvæði launa vegna meistaranáms í núgildandi kjarasamningum og að um 150 leikskólakennarar og um 400 grunnskólakennarar með meistaragráðu séu ráðnir til skólanna á hverju ári. Samantekið reiknar menntamálaráðuneytið með því að aukinn árlegur kostnaður vegna frumvarps til laga um framhaldsskóla verði á bilinu 1.310–1.780 millj. kr. Þar af eru, og það er rétt að vekja athygli á því, tæplega 1.300–1.700 millj. kr. varanleg útgjaldaaukning af því að við ætlum að fjárfesta enn frekar í menntun. Við þurfum að taka á ákveðnum atriðum, og ég segi það alveg hiklaust sem við þurfum að taka sérstaklega á og þá er ég að hugsa til iðn- og starfsnáms, að efla náms- og starfsráðgjöf. Þar sem áætlað er að lögin taki gildi 1. ágúst 2008 þá er reiknað með að um 50 millj. kr. kostnaður verði af því á næsta ári.

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar tel ég að þau frumvörp sem ég hef mælt fyrir marki tímamót í íslenskri menntasögu. Fræðslulögin sem samþykkt voru fyrir um 100 árum lögðu grunninn að velsæld Íslendinga. Við Íslendingar vorum þá meðal fátækustu landa í Evrópu, um aldamótin 1900, en nú erum við meðal þeirra þjóða þar sem mest velsæld ríkir. Ef við eigum að halda þeirri stöðu áfram þarf menntakerfi okkar áfram að vera traust og eflast enn frekar. Ég trúi því að í þeim frumvörpum sem ég legg fram felist tækifæri til að leggja til slíkan grunn.

Þau frumvörp sem ég hef mælt fyrir eru afrakstur vinnu fjölmargra aðila. Ég vil sérstaklega færa þeim þakkir mínar fyrir störf þeirra um leið og ég legg til að frumvörpunum verði vísað til menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.