135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[13:31]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hér eru til umræðu fjögur frumvörp hæstv. menntamálaráðherra varðandi leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og um ráðningu kennara og skólastjórnenda við þessi skólastig.

Það er rétt í upphafi að óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með lagafrumvörpin sem hér eru lögð fram. Þau eru auðvitað búin að vera mjög lengi í vinnslu og það hefur verið haft samráð mjög víða og hér er hreinlega tekið á málefnum allra þessara þriggja skólastiga. Það er líka mjög ánægjulegt í raun og veru hvernig umræðan hefur þróast eftir framsöguræðu hæstv. menntamálaráðherra þar sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hélt afar málefnalega og innihaldsríka ræðu um frumvörpin. Hún var almennt mjög jákvæð í garð þeirra en hafði eðlilega ýmsar spurningar fram að færa varðandi málsmeðferð og ýmis álitaefni sem eðlilegt er þegar jafnstór mál eru undir eins og hér er.

Ég verð að segja, frú forseti, að sá tónn sem var í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur eykur mjög von mína um að við náum mikilli samstöðu og sátt um þessi frumvörp. Það er mikilvægt fyrir íslenskt skólakerfi að það ríki sem allra mest sátt um það fyrirkomulag sem við höfum og þann lagaramma sem við störfum eftir þó að það sé einnig nauðsynlegt og eðlilegt að við séum ekki sátt um öll framkvæmdaratriði því það á auðvitað að vera sem mestur fjölbreytileiki í þeim. En eftir að hafa heyrt tóninn í ræðu hv. þingmanns tel ég að það séu mjög góðar líkur á því að við í menntamálanefndinni náum að leiða þessi frumvörp þannig fram að um þau náist jafnvel alger sátt í þinginu þó svo að menn nái ekki endanlegri samstöðu um einstakar greinar eða útfærslur á þeim, en að um meginlínurnar verði mikil sátt.

Það er líka gleðilegt að við skulum vera að ræða öll þessi frumvörp í einu vegna þess að það er eðlilegt að líta á skólastigið frá leikskóla og til loka framhaldsskólans sem eina heild. Þannig er þetta mál unnið og þannig er þetta lagt fram og þannig verður auðvitað vinnunni í nefndinni háttað, það verður horft á þetta allt saman í heild sinni.

Í fyrri ræðum sem hér hafa verið haldnar hefur verið farið býsna ítarlega yfir efnisatriði frumvarpsins þannig að ég ætla ekki að fara að endurtaka eitt eða neitt af því þó að ég muni reyna að koma víða við og sérstaklega taka upp þá þætti sem mér finnst skipta miklu máli án þess að fara mikið í einstakar efnisgreinar. Það er alveg ljóst að markmiðin sem farið er af stað með eru afskaplega háleit og það má segja að hér sé verið að nálgast það markmið sem sett er fram í stjórnarsáttmálanum um það að menntun á Íslandi verði til fyrirmyndar á alþjóðavísu. Það er sem sagt mikill metnaður á bak við frumvörpin og við verðum auðvitað að horfa til þess að að stórum hluta til eru þetta markmiðslýsingar, eitthvað sem við ætlum að stefna að í framtíðinni og vinna að að ná fram.

Dæmi um það er nokkuð sem hefur verið rætt, þ.e. breytingin varðandi kennsluréttindi á þessum skólastigum, að miðað er við meistarapróf eftir árið 2011. Þetta er auðvitað mjög háleitt markmið og ákjósanlegt að að þessu skuli vera stefnt en það er eðlilegt að við í menntamálanefndinni förum vandlega yfir allar tímasetningar sem settar eru hvað þetta varðar. Eins og bent hefur verið á þá er ástandið þannig t.d. á leikskólastiginu að það er gífurlegur skortur á leikskólakennurum og miðað við þær aðstæður getur verið erfitt að ná þessu fram. Ég ítreka þó að markmiðið er háleitt og við eigum auðvitað að stefna að þessu en fara vandlega yfir allar tímasetningar og útfærslur.

Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvernig staða skólanna sem eru að mennta þessar stéttir er til að taka við öllum þeim umsækjendum sem hugsanlega koma. Kennaraháskólinn hefur séð um menntun kennara lengi, þó að það sé gert víðar, en eins og kunnugt er þá hefur mjög mörgum verið vísað frá námi í Kennaraháskólanum, það hafa ekki allir komist þar að sem viljað hafa. Það er einnig þekkt staðreynd að stór hluti þeirra sem lýkur námi með kennsluréttindum fer ekki til kennslustarfa heldur ýmissa annarra starfa. Út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja en það er auðvitað eðlilegt markmið að reyna að stefna að því að hærra hlutfall skili sér í kennslu og það gætu líka verið rök fyrir lengingu námsins að þegar fólk er búið að leggja á sig fjögurra eða fimm ára háskólanám þá sé líklegra að viðkomandi muni starfa við það sem hann hefur menntað sig til. En ég ítreka að þetta er ein af þeim tímasetningum sem við í nefndinni þurfum að fara mjög vel yfir.

Ég sagði áðan að það væri eðlilegt að horfa á skólakerfið frá leikskóla til loka framhaldsskóla heildstætt. Þá kemur upp eitt álitaefni sem við munum að sjálfsögðu ræða frekar í nefndinni en eins og frumvörpin gera ráð fyrir og hefur verið hjá okkur um nokkurt skeið þá eru bæði leikskólinn og grunnskólinn staðsettir hjá sveitarfélögum en framhaldsskólinn hjá ríkisvaldinu. Ég tel að það þurfi að skoða það mjög gaumgæfilega hvort það sé ekki rétt að stíga eitthvert örlítið skref a.m.k. sem opnar á þá leið að sveitarfélög geti komið að rekstri framhaldsskóla.

Það er hluti af þeirri heildarmynd sem hér er nokkuð um talað að það sé sami rekstraraðili. Það einfaldar auðvitað allt flæði á milli skólastiganna ef svo er. Það er hins vegar ljóst að það að stíga skrefið til fulls er miklu flóknara ferli en hægt er að gera með þessu frumvarpi vegna þess að þá þarf að fara í gífurlegar samningaviðræður við sveitarfélögin. Það sem ég er að orða er að það væri hugsanlegt að stíga einhver skref sem opnuðu þá leið að einhver sveitarfélög gætu tekið að sér, t.d. í tilraunaskyni rekstur framhaldsskóla. Þannig væri hægt að prufukeyra kerfið áður en skrefið yrði stigið til fulls sem að mínu mati er það sem á að gera vegna þess að framhaldsskólaþjónustan er nærþjónusta og það er eðlilegt að nærþjónustan sé hjá sveitarfélögunum. Þess vegna held ég að við eigum að fara vel yfir þetta.

Það kemur inn á, eins og ég sagði áðan, þennan sveigjanleika sem er afskaplega mikilvægur bæði innan eða milli skólastiganna því ef rekstraraðilinn er sá sami þá getur sá aðili í raun og veru leikið sér örlítið með skipulagið. Í frumvörpunum er t.d. verið að opna á heimildir til samrekstrar á leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla sem er afskaplega jákvætt og sýnir að sveitarfélögunum er treyst fyrir málaflokknum enda hafa þau staðið fyllilega undir því trausti. Það er eðlilegt að gefa þeim þetta svigrúm og að mínu mati ætti að auka það enn frekar með því að gefa þeim þess vegna möguleika á rekstri framhaldsskóla.

Einn þráðurinn sem gengur í gegnum þessi frumvörp, sérstaklega grunn- og framhaldsskólann, er efling náms- og starfsráðgjafar. Þetta hefur verið markmið mjög lengi og þetta hefur verið æðioft nefnt sem ein árangursríkasta leiðin til þess að tryggja það að sem allra flestir nemendur fái notið sín í skólum og hætti ekki námi áður en þeir hafa lokið einhverju tilskildu námi. Það er t.d. alveg ljóst með þeim breytingum sem hér eru boðaðar á framhaldsskólakerfinu að náms- og starfsráðgjöf er miklum mun nauðsynlegri en áður vegna þess að nú fá nemendur, auk skólanna sjálfra, miklu meira frelsi en verið hefur fram að þessu við skipulag á námsbrautum og þess vegna er eðlilegt að efla þessa þjónustu. Það er boðað og sett inn í frumvörpin afar skilmerkilega.

Óhjákvæmilega kallar það á eina spurningu. Það er athyglisvert að þessi stétt, þ.e. náms- og starfsráðgjafar, er eina fagmenntaða stéttin sem er skilgreind inni í skólakerfinu sem ekki nýtur lögverndar eftir að leikskólakennararnir munu fá hana með þessum frumvörpum ef samþykkt verða. Þetta hlýtur að koma til skoðunar sérstaklega í menntamálanefndinni hvort það sé rétt að stíga það skref gagnvart þessari stétt líka þannig að þar gæti samræmis við allar aðrar stéttir sem hafa sérmenntun innan skólakerfisins. Það fyrirkomulag sem við höfum í menntun þeirrar stéttar er raunverulega tilbúið til að fara þessa leið, þ.e. meistaraprófið er komið inn í Háskóla Íslands þannig að það er raunverulega ekkert þessu til fyrirstöðu. Ég vil vekja athygli á því hér, það er eðlilegt að það sé skoðað sérstaklega í menntamálanefnd hvort ekki sé rétt að stíga þetta skref. Það er sagt í greinargerðinni, jafnvel í lagatextanum sjálfum, ég man þó ekki nákvæmlega hvort er, að það sé æskilegt að að öðru jöfnu séu þeir sem sinna þessari þjónustu í skólakerfinu með sérmenntun á þessu sviði. Það er náttúrlega mjög nauðsynlegt þegar við erum að efla svo mjög og setja upp kerfi sem kallar á stóraukna þjónustu af þessu tagi að það sé tryggt að fagfólk sé þar við störf, það er með þetta eins og svo margt annað að þarna er fagmennskan mjög mikilvæg.

Eitt af því sem er rauður þráður í gegnum þessi frumvörp og er að sjálfsögðu mjög jákvætt er hin aukna áhersla á verknám þar sem vegur þess er verulega aukinn og sérstaklega ber að nefna framhaldsskólastigið. Það er kannski rétt að ég nefni það, þótt það hafi komið fram í umræðunni, að þótt verið sé að breyta og styrkja ýmislegt í leik- og grunnskólanum, þá er mesta breytingin boðuð á framhaldsskólastiginu og þar kemur verknámið mjög sterkt inn. Það hefur áratugum saman verið rætt um að reyna að efla verknámið, gera því hærra undir höfði í skólakerfinu o.s.frv. En ég fullyrði það, frú forseti, að með frumvarpinu sem hér er lagt fram er stigið það stærsta skref sem ég hef séð í þá átt. Ég trúi því ef rétt er á spöðum haldið að þá munum við sjá mjög mikla breytingu í þá átt að auka og efla verknámið og starfsnámið, og full ástæða til. Við sjáum auðvitað hvernig það hefur verið þegar við erum að fara í stórframkvæmdir að okkur skortir mjög mikið fagmenntað iðnaðarfólk. Þarna þarf verulega að taka á og margir hafa gengið svo langt að segja að það sé jafnvel ákveðin hætta á því að við séum að tapa niður ákveðinni verkþekkingu og slíkt má ekki henda okkur. Þetta verður áberandi þegar takast þarf á við stór verkefni, þá sjáum við hvað skorturinn er mikill á þessu fólki og þar er skýringin m.a. sú að námsfólk hefur leitað annarra leiða, m.a. vegna þess að verknámsleiðin hefur oft verið mun flóknari, jafnvel erfiðari til skipulagningar, t.d. hafa nemar sjálfir þurft að útvega sér samning og ná samningum við meistara. Ein af breytingartillögum í frumvarpinu, sem er róttæk tillaga til að gera þetta mál einfaldara, er að framhaldsskólarnir beri sjálfir ábyrgð á verknáminu og þurfi þar af leiðandi og eðlilega að þjónusta nemendurna og geti því líka skipulagt námið betur í heild sinni.

Það er líka afskaplega framsækin tillaga að setja á stofn sjóð sem reyndar er ekki gert ráð fyrir í þessum lögum en í greinargerð er minnst á að stofnaður verði sjóður til að standa undir kostnaði við verknám að einhverju leyti. Ýmsar leiðir eru hugsanlegar í því, m.a. að setja einhver gjöld á fyrirtækin sem gætu komið til baka og þá væri um að ræða eins konar jöfnunarsjóð vegna þess að eins og fyrirkomulagið er í dag eru einstök fyrirtæki jafnvel að leggja til fjármuni í menntun nema en hafa eðlilega enga tryggingu fyrir því hvar sú menntun nýtist. Það yrði þá allra að taka þátt í því og neminn væri þar af leiðandi, eins og hann er í dag, frjáls að því hvar hann heldur vinnu sinni áfram.

Frú forseti. Þetta voru stóru atriðin sem ég tek í heildina en ég ætla svo að víkja örlítið að einstökum frumvörpum. Í fyrsta lagi að frumvarpi til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla en þar er rétt að vekja athygli á að þetta er í fyrsta skipti sem lögverndun á starfsheitum leikskólakennara og stjórnenda leikskólanna er sett inn. Það er fagnaðarefni að kennarar á öllum skólastigum skuli nú sitja við sama borð hvað þetta varðar. Ég ætla ekki að ræða mikið um lögverndunina sem slíka. Þetta er hins vegar það fyrirkomulag sem við erum með og eðlilegt að allir sitji við sama borð. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þess vegna hljóti að vera til skoðunar að hið sama gildi um náms- og starfsráðgjafa.

Það er líka ánægjulegt að verið er að auka svigrúm kennsluréttinda á milli skólastiganna. Það er eðlilegt að svo sé gert í þeirri þróun sem verið hefur undanfarið þar sem skil milli skólastiganna verða í raun æ óljósari. Ég held reyndar að þetta sé af hinu góða og þannig eigi það að vera. Við eigum að tryggja að flæðið á milli skólastiganna sé sem eðlilegast og fjölbreytilegast þannig að ekki sé verið að negla niður hvar ákveðnir hlutir byrja og enda, heldur þreifi menn sig áfram með það og taki að sjálfsögðu fyrst og fremst tillit til nemendanna sjálfra.

Ég minntist áður á hið háleita markmið að ljúka þurfi meistaraprófi til að öðlast kennsluréttindi á þessum skólastigum eftir 2011. Það er rétt að geta þess vegna þess að ég hef aðeins orðið var við einhvern misskilning hjá sumum að fyrri kennsluréttindi verði þá úr sér gengin en svo er að sjálfsögðu ekki. Allir sem hafa réttindi til starfa á þessum skólastigum í dag munu að sjálfsögðu halda þeim. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt skref er stigið vegna þess að fyrir nokkrum áratugum var Kennaraskólanum breytt í Kennaraháskóla og þá voru kennsluréttindin færð yfir á háskólastigið. Þá var umræðan ekki ólík því sem við höfum aðeins heyrt núna að þetta væri mikil framtíðarsinfónía. Sú breyting gekk ótrúlega vel fyrir sig og hefur skilað sér vel og sannað. Því má segja að þetta sé eðlileg þróun frá þeim tíma og er raunverulega að gerast mjög víða. Ég tel þetta nauðsynlegt og ég tek undir orð hæstv. menntamálaráðherra um að þetta þýði líka sjálfkrafa að laun kennara muni að sjálfsögðu hækka. Það er afar mikilvægt fyrir samfélagið að kennarastéttin njóti hærri launa vegna þess, eins og ég sagði áðan, að of stór hluti þeirra sem afla sér þessarar menntunar fer til annarra starfa. Við þurfum á því að halda að hafa mikið og öflugt hæfileikafólk í þessum störfum. Mér finnst það fagnaðarefni að gerðar séu sömu kröfur til skólastiganna allra þriggja vegna þess að hægt er að færa margvísleg rök fyrir því að þótt öll skólastigin séu mikilvæg sé leikskólinn jafnvel mikilvægasta stigið. Þar eru nemendur að stíga sín fyrstu skref og það er afskaplega mikilvægt hvernig að þeim er hlúð í þeim fyrstu skrefum og eins að eigi nemendur við einhverja örðugleika að etja er auðvitað betra við það eiga því fyrr sem þeir uppgötvast og líklegra að betri árangur náist.

Frú forseti. Ég vík þá að frumvarpinu til leikskólalaga. Það er líka fagnaðarefni að þarna eru skyldur og réttindi foreldra og barna gerð eins sambærileg milli grunn- og leikskóla og hægt er þegar tekið er tillit til þess að leikskólinn val en grunnskólinn er skylda. Þetta er eðlilegt og er hluti af þeirri heildarmynd sem hér hefur nokkuð verið rædd, að líta eigi á þetta allt sem eina heild og því er eðlilegt að þarna séu sömu skyldur og réttindi. Síðan fagna ég því að verið er að styrkja forræði sveitarfélaganna á starfsemi leikskólanna og ábyrgð þeirra gerð algerlega afdráttarlaus sem er auðvitað eðlilegt vegna þess að sveitarfélögin fara með þetta skólastig eins og grunnskólastigið.

Ég mun fara örfáum orðum um frumvarpið til laga um grunnskóla. Það var athyglisvert andsvar sem hv. þm. Karl V. Matthíasson átti við hæstv. menntamálaráðherra áðan varðandi markmiðsgrein laganna en eins og fram kom í máli hv. þm. Karls V. Matthíassonar er verið að gera breytingu á markmiðslýsingunni, sem hefur líklega verið allt frá upphafi grunnskólalaganna, um kristilegt siðgæði. Benti hv. þingmaður m.a. á að í upptalninguna vantaði orðið kærleikur sem er ákveðið grunnhugtak í kristilegu siðgæði. Það er auðvitað eðlilegt að menntamálanefnd fari sérstaklega yfir þessa markmiðsgrein og ég tók eftir því að hæstv. ráðherra taldi það vera hið besta mál að orðið kærleikur bættist þar við. Það vill svo til að við eigum svolítið grundvallarplagg sem heitir Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og í markmiðslýsingu þar er þetta tekið allt saman og mér finnst eðlilegt að menntamálanefnd velti því fyrir sér í vinnu sinni hvort við gætum náð utan um þetta allt með því sem þar segir. Ég vil bara rétt til að allir átti sig á hvað ég er að tala um lesa 1. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna en þar segir, með leyfi forseta :

„Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Þetta er býsna skýrt og mergjað orðalag og ég held að við ættum að velta því fyrir okkur hvort við gætum ekki sett það inn í markmiðsgreinina í staðinn fyrir alla þessa upptalningu vegna þess að í þessum tveimur setningum sýnist mér allt vera innifalið. Mér finnst þetta vera eitthvað sem ættum að velta fyrir okkur. Eitt af því sem fram kemur í frumvarpi til laga um grunnskóla og er hvað brýnast í skólakerfinu almennt er að námið verði lagað að ólíkum þörfum nemenda og þeir taki virkan þátt í skólastarfinu. Það er eilífðarverkefni að nálgast alla nemendur og við vitum hvernig þróunin hefur verið í því. Nú er lögð mest áhersla á einstaklingsmiðað nám og það er hluti af þessari þróun að reyna að nálgast hvern nemanda þannig að hann fái að njóta sín sem best.

Síðan er hert á þeirri reglu að nám í grunnskóla sé gjaldfrjálst og það er eðlilegt að svo sé. Það er kannski rétt að minna á það, af því að ég gleymdi því áðan, frú forseti, að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi að eðlilegt væri að nám í leikskólum væri líka gjaldfrjálst. Hægt er að taka undir það með hv. þingmanni en það er hins vegar álitaefni hvort það eigi að vera í frumvarpi sem þessu, því að ég ber afskaplega mikla virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og ég tel að sveitarfélögin sjálf eigi að ákveða slíkt og hafa slíkar heimildir eins og raunverulega kemur fram í þessu frumvarpi. Það er engin skylda til gjaldtöku heldur hafa sveitarfélögin heimild til hennar og það er eðlilegt að sveitarfélögin taki þá ákvörðun sjálf. Það má hugsanlega taka hana með samkomulagi við ríkisvaldið, það er ekkert sem útilokar það, en meðan það samkomulag liggur ekki fyrir og þessar útfærslur eru mismunandi í sveitarfélögunum tel ég eðlilegt að sjálfsákvörðunarréttur þeirra standi.

Frú forseti. Það fyrirkomulag sem hér er boðað um breytingu á samræmdum prófum er einnig fagnaðarefni. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það mál en ég tók eftir því að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór yfir það og að mínu viti nægjanlega þannig að það þarf raunverulega engu við það að bæta. Ég held að fyrirkomulagið sem hér er verið að boða sé betra, það sé líka eðlilegra og minna stýrandi inn í skólastarfið og það er afskaplega mikilvægt. Hins vegar er gert rá fyrir að hægt sé að leggja fyrir könnunarpróf sem nýtast þá bæði skólunum og nemendunum til að bæta sig og finna ef eitthvað má betur fara.

Ég hef áður minnst á að það sé mikilvægt af því að grunnskólastigið er milli leikskólans og framhaldsskólans að þá sé flæðið milli skólastiganna í báðar áttir þar af leiðandi í grunnskólunum. Á því er tekið og þó svo að hugsanlega megi hnika þar til einhverju orðalagi þá held ég að verið sé að stíga þarna afar mikilvægt skref í átt að þeirri þróun sem við höfum séð gerast.

Þá kem ég að því frumvarpi sem, eins og ég sagði áðan, boðar hvað mestar breytingar og það er frumvarp til laga um framhaldsskóla. Rétt er að ítreka að þar er verið að stíga afar stórt skref með fræðsluskylduákvæðinu til 18 ára aldurs sem er framfaraspor og setur á skólakerfið eða ríkisvaldið í þessu tilfelli töluverðar skyldur sem nauðsynlegt er að standa undir. Það er fagnaðarefni að þetta skref skuli vera stigið af því að það tekur af allan vafa um þær skyldur sem lagðar eru á herðar ríkisvaldsins.

Í frumvarpinu er boðað aukið frelsi og þar af leiðandi minni miðstýring sem er einnig fagnaðarefni. Það er gaman að horfa örlítið aftur í tímann og sjá hvernig hlutirnir fara í hring vegna þess að þegar við sáum hvað mesta þróun í framhaldsskólum á Íslandi var frelsið svo mikið að það er varla hægt að segja að það hafi verið til lög um framhaldsskóla í landinu. Þá var byggt á breytingu á einni grein í lögum um menntaskóla sem heimilaði fjölbrautaskólum að verða til. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti varð til fyrstur og síðan má segja að sveitarfélögin hafi tekið þessi mál meira og minna í eigin hendur og tryggt hina miklu uppbyggingu framhaldsskólanna vítt og breitt um landið, mestu uppbyggingu sem við höfum séð á því skólastigi. Síðan fóru menn að taka utan um þetta og auka smám saman miðstýringuna þar til nú að mér sýnist nær allir vera á því að sú miðstýring sé orðin of mikil og nú þurfi að gefa framhaldsskólunum aftur frelsi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það frelsi sem nú er boðað mun lífga mjög við framhaldsskólastigið og mun væntanlega tryggja miklu meiri fjölbreytileika þó svo að við megum auðvitað ekki gera lítið úr þeim fjölbreytileika sem verið hefur í kerfinu. Það er svolítið athyglisvert að fólk gleymir því oft í umræðunni þegar menn hafa verið að ræða um lengd náms til stúdentsprófs, sem hefur oft verið ansi áberandi í þessari umræðu, að í núverandi áfangakerfi hefur nám til stúdentsprófs verið tekið á mjög mismunandi tíma þannig að það út af fyrir sig er ekki nýtt. Núna er stigið mun stærra skref til að gefa nemendum fleiri möguleika á að ljúka námi fyrr hafi þeir áhuga á því og vera lengur hafi þeir áhuga á því og síðast en ekki síst, sem er auðvitað stóra málið og kem ég þá aftur að eflingu verknámsins, að hér er boðað að bóknám og verknám sé jafngilt innan framhaldsskólans. Það er náttúrlega afskaplega stórt skref sem þýðir að nú er enn meiri möguleiki en ella til að hafa stúdentsprófið mjög fjölbreytt. Ég er alveg klár á því að gagnvart mjög mörgum greinum t.d. í háskóla er sá undirbúningur betri en eingöngu bóklegur. Á ég þá við ýmislegt verknám sem síðan héldi áfram í margs konar tækninámi og verkfræði og annað þess háttar. Ég vona að þetta leiði til þess að við fáum ekki bara fjölbreyttari skóla heldur betri skóla og betur undirbúna nemendur á menntaskólastigi og ég er rauninni sannfærður um að svo verður vegna þess að í framhaldsskólakerfinu er margt hæfileikaríkt fólk. Ég er viss um að margir skólanna bíða í óþreyju eftir að þróast í þá átt sem hér er boðuð og mér er ekki grunlaust um að sumir hafi jafnvel verið svo ákafir að þeir séu ýmsir búnir, ég ætla ekki að segja að setja í gang þetta nýja kerfi en a.m.k. að hugsa hvernig þeir geti tryggt framgang þess.

Ég vænti þess að þessar breytingar eigi eftir að hafa góð og víðtæk áhrif. Hér er verið að boða miklar breytingar og því þurfum við vissulega að vanda sérstaklega til yfirferðar og hugsanlega að hnika einhverju til, taka tillit til væntanlegra athugasemda. Það verður fyrsta verk menntamálanefndar nú á næstu dögum að taka þessi frumvörp og senda þau til umsagnar vítt og breitt um samfélagið því að umræður um skólamálin, og ég tala nú ekki um jafnvíðtækar breytingar og um er að ræða í þessum frumvörpum, þurfa að vera mjög miklar.

Ég endurtek það sem ég sagði í byrjun að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að við náum sem allra víðtækastri sátt um þessi mál og í undirbúningnum hafa verið stigin mjög mörg skref til þess að reyna að tryggja það sem allra best. En þegar þetta fer í hina almennu umræðu þá er mjög líklegt að einhverjar ábendingar komi sem geti gert hlutina betri og að sjálfsögðu munum við þá taka tillit til þess og reyna að bæta það sem bæta má.

Mér hefur verið nokkuð tíðrætt um þann mikla sveigjanleika sem er verið að boða og tel ástæðu til að fara yfir örfáum orðum. Í því sambandi vil ég nefna eitt til sem ég hef ekki nefnt áður en það er breytingin sem verður á kjarnanum til stúdentsprófs, þ.e. að tryggja 45 einingar í þremur greinum, íslensku, stærðfræði og ensku og að í raun sé ekki annað bundið gagnvart skólanum. Þetta held ég að sé mjög nauðsynlegt. Ég var svo heppinn að hæstv. ráðherra setti mig í merka nefnd, svokallaða starfsnámsnefnd þar sem við fórum einmitt yfir öll þessi mál. Það er eðlilegt að vekja athygli á niðurstöðu sem nefndin komst að en niðurstaðan fékkst í mjög góðu samkomulagi milli margra hópa. Þar voru fulltrúar fá kennurum, stjórnendum í framhaldsskólum, úr atvinnulífinu og stjórnmálamenn. Það náðist því um þetta afskaplega víðtæk samstaða og það má segja að mikill hluti hinna stóru breytinga sé kominn frá þessari ágætu nefnd og þar af leiðandi var búið að ná býsna víðtækri samstöðu um stóran hluta breytinganna.

Ég vil vekja athygli á einu sem er nauðsynlegt að menntamálanefndin gefi sér töluverðan tíma í en það er þetta nýja einingakerfi sem er auðvitað ákveðin breyting. Við höfum heyrt það og það er kannski eðlilegt að víða í kerfinu sé ákveðinn skjálfti gagnvart svo viðamikilli breytingu í grunninn en ég hef ekki trú á öðru en að hægt sé að ná um þetta víðtækri samstöðu. Það er rétt að vekja athygli á því að í greinargerðinni er talað sérstaklega um að þetta kerfi þurfi að þróa í mjög góðri samvinnu allra aðila sem að því koma.

Framhaldsskólaprófið er líka nýjung og afar mikilvæg nýjung að mínu mati. Þetta hefur verið rætt lengi, í raun og veru allt of lengi, ætli það sé ekki hægt að telja það í áratugum hvað sú umræða hefur staðið lengi, þ.e. um nauðsyn þess að boðið verði upp á styttra framhaldsskólapróf, u.þ.b. tveggja ára nám. Það er mjög mikilvægt af ýmsum ástæðum og ég ætla bara að nefna hér eina sem er hins vegar auðvitað mikilvæg. Eitt af því sem menn eru að boða með þessari breytingu á framhaldsskólalögunum er það að tryggja að sem flestir ljúki skilgreindu námi í framhaldsskólum. Það er mikilvægt fyrir einstaklinginn, fyrir sjálfsmynd hans, að ljúka með formlegum hætti því námi sem viðkomandi hefur hafið. Því miður hafa of margir hætt í framhaldsskólunum án þess að ljúka nokkru skilgreindu námi. Þetta er því mikilvægt og slíkt framhaldsskólapróf mundi nýtast nemandanum áfram í það nám sem viðkomandi vill hugsanlega fara í síðar eða strax eftir að hann lýkur framhaldsskólaprófinu. Þetta er auðvitað hluti af þeim sveigjanleika sem verið er að boða hér og hluti af því að gera bóknám og verknám jafngilt innan skólanna.

Ég nefndi aðeins áðan eitt sem mér finnst líka skipta töluvert miklu máli og það er að framhaldsskólarnir beri ábyrgð á vinnustaðanámi. Þetta hefur verið með ýmsum hætti og valdið mörgum nemendum erfiðleikum. Þetta hefur gert þeim sem hafa viljað stunda verknám á margan hátt erfiðara fyrir og því hafa margir valið að fara í bóknám þrátt fyrir að hugur þeirra hafi staðið til verknáms. Nú er boðað að skólarnir taki þetta að sér og það auðvitað eykur möguleikann á því að skólarnir geti í fullu samráði við nemendurna skipulagt þetta nám.

Rétt í lokin vil ég fjalla örlítið um hvernig framhaldsskólanum ljúki. Þar er stigið mjög stórt skref því þar þarf að taka viðmið af þeim sem taka við nemandanum, þ.e. annars vegar í starfsnáminu, að þá sé tekið mið af því hverju starfsgreinin þurfi á að halda og reynt að tryggja að innihald námsins sé sem næst því, sama gildir um stúdentsprófið, að það sé þannig saman sett að nemandinn hafi sem bestan undirbúning fyrir það háskólanám sem viðkomandi nemandi ætlar sér að stunda.

Það er líka fagnaðarefni að þarna er gefinn möguleiki á því að framhaldsskólar teygi sig upp á háskólastigið. Skref í þá átt er kannski ekki eins stórt og við boðuðum í starfsnámsnefndinni þar sem við settum upp kerfi með svokölluðum fagháskólum en þarna er virkilega verið að stíga skref í þá átt og ég sé ekki betur en það sé hægt að þróa það yfir á það stig. Eins og staðan er í dag vitum við að sumt nám í framhaldsskólunum er þannig að það er raunverulega það langt miðað við gömlu skilgreininguna að það teygir sig upp á háskólastigið án þess að það sé viðurkennt sem slíkt. Þarna er gamli vélskólinn þekktastur eða fjöltækniskólinn en þar eru kennd fræði sem teygja sig töluvert upp á háskólastigið og sumt annað iðnnám hefur auðvitað gert það líka. Þarna er því eðlilegt að menn horfi til þess að framhaldsskólarnir geti þróast upp á háskólastigið enn frekar en orðið er og það með formlegum hætti.

Að undanförnu höfum við séð þetta þróast í hina áttina, þ.e. að háskólarnir hafa verið að teygja sig niður á framhaldsskólastig og það er umræða sem við þurfum að fara yfir í menntamálanefndinni hvernig við sjáum þá þróun fyrir. Háskólarnir hafa verið að gera þetta og það er kannski eðlilegt því þeir hafa fundið þörf hjá ákveðnum hópum fyrir nám í frumgreinadeildum til þess að undirbúa nemendur betur undir háskólanám. En auðvitað er um framhaldsskólanám að ræða og þetta þarf að fara vel yfir, líka til að tryggja að farið sé sem allra best með opinbera fjármuni.

Það er eðlilegt að það fari fram umræða um þetta, frú forseti, og það er líka eðlilegt að velta fyrir sér símenntuninni. Í frumvarpinu er tekið á því að setja ramma utan um það fyrirkomulag sem að hluta til er í dag en ég vænti þess að við þurfum ekki lengi að bíða eftir lagafrumvarpi frá hæstv. ráðherra sem tekur á þeim málum frekar, þ.e. símenntun og fullorðinsfræðslu. Það er kominn tími til að þetta sé sett í ákveðinn lagaramma svipað og þegar lög um framhaldsskóla voru sett en þá hafði framhaldsskólinn um nokkurt skeið búið við töluvert frelsi varðandi það hvernig hann þróaðist og hvernig skólarnir urðu til. Ég held að sá tími hvað varðar símenntun og endurmenntun sé liðinn, það hefur verið mikið frelsi, það eru mjög margar leiðar að opnast í þessari menntun og allt gott um það að segja en nú held ég að það sé kominn tími til að sett verði sérstök lög um þetta.

Ég vil vera hreinskilinn með það að ég óttast svolítið að ef slík lög verða ekki sett fyrr en seinna verðum við komin með tvöfalt kerfi í þessari menntun og það held ég að sé ekki gott. Við þurfum að tryggja nægan sveigjanleika en eins og í öllu þurfum við að hugsa til þess að fjármunum almennings eða ríkisins sé sem best varið og ég held að það sé kominn tími til að taka utan um það mál.

Frú forseti. Að lokum vil ég segja að fram undan er mikil vinna í menntamálanefnd við að fara yfir þessi fjögur frumvörp og eins og hér hefur komið fram verður það auðvitað gert í einum pakka. Það verður leitað samráðs og umsagna mjög víða. Ég hef trú á því að þetta verk eigi eftir að ganga vel og tel að tónninn í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur hafi verið með þeim hætti að full ástæða sé til bjartsýni um að mjög víðtæk náist samstaða hér í þinginu um að afgreiða þessi frumvörp fyrir vorið því að það verður fagnaðarefni og mikið gæfuspor fyrir íslenskt skólakerfi.