135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[15:50]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir framan mig eru frumvörp hæstv. menntamálaráðherra í skólamálum. Það er líklega ekki oft á öld sem leikskólakennaranemi fær tækifæri til að koma að umræðu um ný lög á Alþingi en tilviljun ein, ef þær eru þá til, veldur því að í þessu tilfelli fær leikskólakennaraneminn tækifæri til að tjá sig um lögin sem stýra eiga starfsháttum hennar í framtíðinni.

Ég vil líka byrja á því að fagna þessum frumvörpum. Þau eru um margt mjög góð en eins og alltaf er það svo að betur sjá augu en auga og því vona ég að tala mín í dag verði til þess að nokkrar breytingar verði gerðar í því augnamiði að gera þessi frumvörp, sérstaklega frumvarpið til laga um leikskóla sem ég hef alveg sérstakan áhuga á af fyrrgreindum ástæðum, enn betra og að ábendingarnar sem ég vísa til verði teknar til umfjöllunar í menntamálanefndinni.

Ég tek í þessu sambandi líka undir orð hv. þingmanna Vinstri grænna sem hafa rætt um að til þess að leikskólastigið verði að fullu metið sé mjög mikilvægt að það verði gjaldfrjálst eins og önnur skólastig og það eigi líka við um framhaldsskólastigið hvað varðar m.a. bókakaup.

Svo að ég snúi mér aftur að frumvarpi til laga um leikskóla, í fyrsta lagi hefði ég viljað sjá í 1. gr. að setningin, með leyfi forseta, „Leikskóli annast að ósk foreldra uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri í samræmi við lög þessi“, yrði lagfærð og höfð eitthvað í þá veru að leikskólinn annaðist að ósk og í samstarfi við foreldra uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri í samræmi við lög þessi. Meginástæða þessa er sú að foreldrar bera þrátt fyrir góðan skóla mesta ábyrgð á uppeldi barna sinna. Samvinna skóla og foreldra skilar að flestra mati besta árangrinum.

Í öðru lagi sakna ég þess mikið að orðið „umhyggju“ er hvergi að finna í þessum nýju lögum um leikskóla. Mér hefði þótt tilhlýðilegt að strax í 2. gr. laganna kæmi það fyrir, að setningin, með leyfi forseta, „Veita skal börnum umönnun og menntun“ yrði höfð svona: Veita skal börnum umhyggju, umönnun og menntun. Rök fyrir þessu eru þau að umönnun og menntun geta orðið hálffátækleg ef þeim er ekki pakkað inn í umhyggju. Í ljósi þess að nú eru flest börn farin að vera a.m.k. 8 klukkustundir á dag í leikskóla 5 daga vikunnar 11 mánuði ársins, nokkuð sem ég held að stangist á við vinnuverndarlög barna, hlýtur skýlaus krafa foreldra vera að þeim sé a.m.k. sýnd umhyggja.

Í þriðja lagi fagna ég mjög 7. gr. í frumvarpinu og tel að hana mætti að ósekju einnig finna í frumvörpum um grunnskóla og framhaldsskóla, ekki síst þar sem það er ætlun hæstv. menntamálaráðherra með þessum frumvörpum að skapa samhljóm við löggjöf um önnur skólastig sem hafa með börn innan 18 ára aldurs að gera. Þá er ég sérstaklega að vísa, ekki bara í þagnarskylduna heldur líka í það að þagnarskyldan nái ekki til atvika sem ber að tilkynna lögum samkvæmt. Ég held að með því að setja tilvísun til barnaverndarlaganna inn í þessi frumvörp sköpum við börnum öryggi, og starfsfólki veitum við það öryggi að það geti ýtt þeim málum áfram, að það geri það ekki of seint, að við upplifum ekki svo ljót málefni, leyfi ég mér að segja, eins og mál Thelmu Ásdísardóttur aftur og aftur á nýrri öld. Nú er ég ekki að gera því skóna að svo sé farið, en mér finnst mjög mikilvægt að þessi grein sé teygð og höfð í öllum frumvörpunum til að skapa einmitt þetta samræmi.

Í fjórða lagi tel ég réttast að 9. og 10. gr. verði slegið saman undir heitinu Samstarf foreldra og skóla og skyldur þeirra. Þar finnst mér eðlilegast að hnykkja á gagnkvæmum skyldum sem foreldrar og skóli hafa. Eðlilegast þykir mér að á eftir setningunum, með leyfi forseta: „Foreldrar leikskólabarna skulu gæta hagsmuna barna sinna. Þeir skulu hafa náið samráð við starfslið leikskóla og fylgjast með skólagöngu barna sinna“ komi setningin: Foreldrum og skóla er skylt að veita hvert öðru þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir velferð barna, stöðu þeirra og skólastarfið — og setja bara punkt á eftir því.

Í þessari sömu grein er fjallað um foreldra sem ekki tala íslensku eða nota táknmál. Það á að leitast við að tryggja þeim túlkun á upplýsingum — leitast við. Nei, við eigum að gera nýtt frumvarp. Við ætlum ekkert að leitast við. Við ætlum að tryggja þeim eins og öðrum þá túlkun og það sem þarf til að þau skilji það sem rætt er um.

Þó að ég hafi ekki mikið flett frumvarpi til grunnskólalaga er þess að geta að í 16. gr. á að tryggja að nemendur með annað móðurmál en íslensku og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf. Um þetta finnst mér eiga við eins og um þagnarheitið. Þetta eru reglur sem eiga að ganga þvert í gegnum allt skólakerfið og vera nákvæmlega eins orðaðar og ætlast til þess sama á öllum skólastigum. Ef við ætlum að hafa samvinnu við foreldra verða foreldrar að geta skilið hvað við ætlum að hafa samvinnu um. Það hlýtur að vera það fyrsta sem þarf til.

Núverandi 10. gr. finnst mér að eigi svo að koma í beinu framhaldi af þessari málsgrein sem ég ræddi áðan. Þar af leiðandi geta þær verið saman. Jafnframt verð ég að taka fram að þetta orðræksni „skulu“ fer alveg ósegjanlega í taugarnar á mér. Það hlýtur að vera hægt að nota orð eins og er ætlað eða er skylt en málfarsráðunautur hlýtur að huga að þessu áður en þessi lög verða gefin út. Ég verð að viðurkenna að þegar ég var að lesa þetta var ég nánast farin að kalla þessi lög skulu-lögin af því að skulu kemur fyrir nánast í annarri hverri málsgrein. Þetta var nú útúrdúr.

Þegar kemur að kaflanum um húsnæði og aðstöðu í skólanum hefði ég viljað að það yrði sérstaklega tekið fram að húsnæðið yrði að vera aðgengilegt fötluðum. Allt of oft vilja lög og reglugerðir um aðgengi fatlaðra gleymast. Þetta er mjög bagalegt og verður stundum til þess að fatlaðir foreldrar eða foreldrar fatlaðra barna hafa skert val þegar kemur að því að velja barninu sínu skóla.

Í VI. kafla leikskólafrumvarpsins er fjallað um aðalnámskrána. Við þær breytingar sem þar eru gerðar leyfi ég mér líka að setja spurningarmerki. Kostur núgildandi aðalnámskrár leikskólans er nefnilega sá að hún er opin og lítið um markmið sem ósjálfrátt fara að stýra náminu við skólann. Því finnst mér ekki þörf á því að setja inn frekari markmið fyrir námssvið skólans en eru og þaðan af síður að skilgreina eigi „hæfniþætti á námssviði leikskólans í samræmi við aldur og þroska barna“. Nú geri ég mér alveg grein fyrir að þetta er gert til að styðja við að ná að greina þau börn sem þess þurfa og beita á þau snemmtækri íhlutun en ég leyfi mér að fullyrða að þetta er þegar gert í leikskólanum. Það að orða þetta kostar það að börn eru flokkuð óþarflega mikið niður, það að þau geti ekki 5 ára klippt eftir beinni línu hljóti að setja þau í II. flokk þó að þau geti kannski perlað miklu betur en einhverjir aðrir. Þetta er hlutur sem mér finnst að þurfi að gæta hófs í og við þurfum að ræða vel. Ég skil alveg hver meiningin er, en ég er hrædd um að þetta geti leitt til þess að við förum að flokka fólk einum of mikið.

Það er kvartað undan því að stýringin í núverandi aðalnámskrá grunnskólans sé of mikil og þá eigum við ekki að fara að taka upp stýringu í leikskólanum. Það má glöggt sjá ef skoðaðir eru leikskólarnir á Akureyri sem eru í fremsta flokki leikskóla landsins hvað varðar faglegt starf, mannahald og frumkvæði að þessa hefur ekki verið þörf hingað til og eru þó þeir leikskólar þeir sem sennilega eiga hvað auðveldast með að fara eftir þeim skyldum sem á þá eru lagðar, en a.m.k. er víða pottur brotinn hvað varðar það eitt að gera skólanámskrá, enda er full vinna hjá því fólki sem er við störf þar sem er minnst fagmenntun og mest mannekla að halda sjó í dagsins önn. Máli mínu til stuðnings vil ég nefna að það er hald sumra manna sem kynnt hafa sér skólamál mjög vel að í leikskóla læri börn en í grunnskóla sé þeim kennt.

Í kaflanum er einnig rætt um sprotasjóð og á sá sjóður að vera sameiginlegur öllum skólastigum. Um það getur verið allt gott að segja en ég tel að það þurfi að koma inn ákvæði í reglugerðinni sem fylgja á sjóðnum um að það sé tryggt að öllum skólastigum sé gert jafnhátt undir höfði við úthlutun úr þessum sjóði.

Í VIII. kafla er fjallað um sérfræðiþjónustu fyrir leikskóla. Þar er sveitarfélögum gert skylt að reka slíka þjónustu. Ég tel að við núverandi stöðu velflestra sveitarfélaga sé slíkt ómögulegt í mörgum tilfellum og ég tel líklegra að síðari hluti 21. gr., um sameiginlegan rekstur sveitarfélaga, sameiginlegan rekstur sérfræðiþjónustu við grunnskóla og gerð þjónustusamninga, sé alveg nóg í bili, a.m.k. á meðan ekki kemur aukið fé frá ríki til sveitarfélaga.

Í IX. kafla er fjallað um stofnun og rekstur leikskóla. Í 25. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn getur leyft öðrum aðilum að byggja og reka leikskóla í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi.“ Um slíka skóla gilda sömu lög og reglur og um aðra leikskóla samkvæmt lögum þessum „eftir því sem við á“. Nei, nei, nei, nei. Ég legg til að þessum orðum verði sleppt og engin undanþága gefin frá þessum lögum. Það er gagnsæjast og best og í rauninni er það svoleiðis að í reglum um þróunarskólana og ýmislegt annað geta menn sótt um að reka skólakerfið einhvern veginn öðruvísi til einhverra ára og fylgja þeim lögum og reglum. Þess vegna sé ég enga ástæðu fyrir þessum orðum: „eftir því sem við á“. Við setjum bara lög og höldum þau.

Að lokum langar mig til að biðja hæstv. ráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að hugleiða hvaða ástæður liggja að baki því að aðalnámskrá leikskóla hefur fengið mikla gagnrýni samanborið við aðrar námskrár skólanna og hafa það að leiðarljósi við endurskoðun aðalnámskránna.

Svo langar mig jafnframt, þó að ég hafi einungis ætlað að fjalla um leikskólann, að koma inn á frumvarpið um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Það er þessi regla sem fyrr í dag hefur verið vísað í um 9. gr.: „Að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara.“

Ég get vel skilið að hugsunin bak við þetta hafi verið sú að hægt sé að ráða annað fagfólk í stöðu leikskólakennara. Ég get samt líka séð að þar sem skólar eru með 100% fagmenntun leikskólakennara sé hætta á því að þegar til róttækra sparnaðaraðgerða eigi að grípa sé bara upplagt að segja upp 25% leikskólakennara. Það er ekki það sem við stefnum að.

Ég velti líka fyrir mér hvort aðrar starfsstéttir eins og lögfræðingar eða prestar gætu sætt sig við að ráðið yrði fólk með annars konar menntun í störf þeirra. Ég er ekki viss um að þeir mundu taka því fagnandi að ef ekki fengist prestur við Hallgrímskirkju mundum við ráða einhvern frá — eigum við að segja Siðmennt? Í mínum augum er það sambærilegt. Leikskólakennaramenntunin er til þess fallin og er með því markmiði að búa til fagfólk í leikskólum landsins. Við eigum ekki að þurfa að selja þá menntun og þau stöðugildi. Það er alveg sjálfsagt að ráða annað fagfólk til starfa í leikskólum og grunnskólum, bæði þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og annars konar fagfólk en það á ekki að vera á kostnað leikskólakennara. Það bara getur ekki gengið upp í mínum augum.

Eins og áður sagði hvet ég menntamálanefnd til að passa sig á því að hafa námskrárnar þannig að starfsfólkið hafi gaman af að vinna eftir þeim. Það er svoleiðis í dag að þeir sem eru enn þá við kennslu eru áhugafólk um kennslu, áhugafólk um börn. Það er áhugafólk um starfið sitt og þróunina í því. Það er enginn kennari á Íslandi til sem er kennari vegna þess að svo hátt kaup er borgað. Enginn velur að fara í nám í kennslufræðum vegna þess að hann haldi að hann verði svo ríkur af því. Við erum að tala um áhugafólk, fólk sem hefur áhuga á starfinu sínu, sem elskar að vera návistum við börn og unglinga, fræða þau og hjálpa þeim til manns. Svoleiðis fólk þarf ekkert að láta binda sig á klafa um hvernig það eigi að kenna eða hvernig það eigi ekki að kenna. Það þarf aðallega að stoppa það í að kenna, en mér sýnist ríkisstjórnin fara nokkuð langt með það. Þó að maður hafi áhuga á að kenna verður maður líka að geta lifað. (Gripið fram í.) Það eina sem ég hef áhyggjur af — (Forseti hringir.) Ég sakna þess að hæstv. ráðherra sé farin af því að það eina sem ég hef áhyggjur af varðandi þessi fínu fyrirheit sem hér eru er að þeim verði ekki skapaðir nógir peningar, að þetta blóm deyi áður en það nær að blómstra vegna þess að kennarar hafa ekki tíma til að bíða eftir peningum. Sveitarfélögin geta það ekki og þegar ekki eru til peningar til að koma á fögrum fyrirheitum verður ekkert úr þeim.