135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[16:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er verið að fjalla um mikinn menntamálabálk frá leikskóla og alveg upp úr hvað aldurinn varðar. Eitt langar mig til að segja í upphafi, það sem einkennt hefur þessa umræðu miðað við það sem áður hefur gerst er að tiltölulega mikill friður ríkir um þessi frumvörp. Ég vil minna á að þegar fram komu á sínum tíma hugmyndir úr menntamálaráðuneytinu um styttingu framhaldsskólans reis mikil mótmælaalda í þjóðfélaginu sem varð til þess að þær hugmyndir voru teknar til baka og endurskoðaðar frá grunni. Að samráðsborði komu samtök kennara og hygg ég að skýringarinnar á því að tónninn í samfélaginu almennt og viðhorfin til þessara frumvarpa eru orðin jákvæðari en þá var sé að leita í því.

Ég minni á að við höfum verið að ræða hér um ný þingskapalög og vinnulag á Alþingi og við í stjórnarandstöðu, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum bent á að umdeild lagafrumvörp eiga ekki að renna auðveldlega í gegnum þingið. Það á að tryggja að þau fái góða, málefnalega og djúpa umræðu.

Sá þáttur í þessum frumvörpum sem mig langar til að víkja að og ætla nánast að einskorða mál mitt við er hlutur fatlaðra barna í leikskóla og grunnskóla. Það hefur verið rætt í umræðunni hér í dag en mig langar til að víkja alveg sérstaklega að þessu. Í leikskólalögunum er fjallað um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla, þar á meðal skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu í 21. og 22. gr. lagafrumvarpsins. Í 21. gr. segir, með leyfi forseta:

„Á vegum sveitarfélaga skal rekin sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við leikskólabörn og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi leikskóla og starfslið þeirra. Sveitarfélög ákveða fyrirkomulag sérfræðiþjónustu en skulu stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskóla.“

Ég legg áherslu á það sem hér segir, þótt sveitarfélögin ákveði hvert um sig fyrirkomulag sérfræðiþjónustunnar er þeim gert, samkvæmt þessu frumvarpi, að stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskólans. Þetta tel ég mjög mikilvægt. Síðan heldur áfram í greininni, með leyfi forseta:

„Sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla getur verið rekin sameiginlega með sérfræðiþjónustu grunnskóla. Þá geta sveitarfélög sameinast um slíkan rekstur eða gert þjónustusamninga við önnur sveitarfélög, stofnanir eða aðila sem veita þá þjónustu sem þörf er fyrir hverju sinni.“

Síðan er vikið að reglugerðarheimildum. Í 22. gr. er vikið að framkvæmd sérfræðiþjónustunnar og þar segir, með leyfi forseta:

„Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eiga rétt á slíkri þjónustu. Þjónusta þessi skal fara fram undir handleiðslu sérfræðinga.

Leikskólastjóri skal samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra barna skv. 21. gr. og eiga samráð við foreldra og félagsþjónustu sveitarfélags eftir því sem þurfa þykir.

Við framkvæmd sérfræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á góð tengsl leikskóla og grunnskóla með samfellu í skólastarfi að leiðarljósi.“

Í athugasemdum um 21. gr. segir, með leyfi forseta:

„Í þessari grein er sveitarfélögum gert skylt að tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt fyrir leikskóla, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskóla.“

Hæstv. forseti. Hvers vegna legg ég svona ríka áherslu á þetta? Ég geri það vegna þess að í núgildandi leikskólalögum eru ekki skýr ákvæði hvað þetta snertir. Í greinargerð sem fylgir leikskólalögum er vikið að þeirri þjónustu sem á að veita börnum með sérþarfir og að mínu mati eru lagaákvæðin skýr hvað leikskólann varðar af þeim sökum. Engu að síður hafa verið miklar brotalamir í framkvæmdinni. Sveitarfélögin eða leikskólarnir hafa ekki sinnt þessu sem skyldi og hefur verið tog á milli ríkis og sveitarfélaga um greiðslu. Einnig hefur í sumum tilvikum gengið illa að semja við sérfræðistéttir um fyrirkomulagið þannig að það hefur verið allur gangur á því hvernig tekist hefur að framfylgja þessu. En hér er skýrt kveðið á um það, eins og segir í athugasemdum, að sveitarfélögunum er gert skylt að tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt fyrir leikskóla, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskóla.

„Gert er ráð fyrir,“ segir hér áfram, með leyfi forseta, „að í sérfræðiþjónustu felist annars vegar stuðningur við leikskólabörn og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi leikskóla og starfslið þeirra, sbr. ákvæði reglugerðar um sérfræðiþjónustu leikskóla sem menntamálaráðherra setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Lagt er til að sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla geti verið rekin sameiginlega með sérfræðiþjónustu grunnskóla. Þá er lagt til að sveitarfélög geti sameinast um slíkan rekstur eða gert þjónustusamninga við önnur sveitarfélög …“ og þetta er svipað og var að finna í þeim texta sem ég las hér áðan.

Um 22. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ákvæðið byggist á 15. gr. gildandi laga og kveður á um að börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eigi rétt á slíkri þjónustu. Gert er ráð fyrir að þjónustan fari fram undir handleiðslu sérfræðinga. Hvílir sú skylda á leikskólastjóra og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, sbr. 21. gr., að afla nauðsynlegrar þjónustu fyrir barnið, í samráði við foreldra, hvort sem hún fer fram innan leikskólans eða ekki. Gert er ráð fyrir að þjónustan byggist á þeim einstaklingsþörfum sem liggja fyrir hverju sinni. Þessi aðstoð og þjálfun getur því verið af ýmsu tagi og fer eftir því um hvaða sérþarfir er að ræða í hverju tilfelli. Þar af leiðir að ýmsir sérfræðingar aðrir en leikskólakennarar geta átt í hlut varðandi aðstoð og þjálfun við þessa nemendur. Réttur barna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar felur ekki í sér annað viðhorf en gert hefur verið ráð fyrir áður, samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, og lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993.“

Það er alveg rétt, eins og ég gat um áðan. Í greinargerð núgildandi laga um leikskóla er að finna mjög skýr ákvæði um að það beri að veita þessa þjónustu innan veggja skólans. Engu að síður hefur verið tog um þetta.

Ég er í rauninni að árétta þá skyldu sem er að finna í núgildandi lögum og er enn hert á í þessari lagasmíð. Ég fagna því sérstaklega. Það er kveðið á um skyldur sveitarfélagsins og í öðru lagi að stuðla skuli jafnan að því að þessi þjónusta sé veitt innan veggja leikskólans. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Ég vil nefna, þó að það eigi bæði við um leikskóla og grunnskóla, að það er allur gangur á því að við hönnun húsnæðis sé tekið tillit til þarfa fatlaðra barna. Ég hef fylgst með þessu á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu. Það er mjög brýnt að inni í hönnunarferlinu sé það geirneglt að arkitektar hafi jafnan í huga hvaða skyldur hvíla á sveitarfélaginu og skólanum hvað varðar þarfir fatlaðra barna. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Í grunnskólafrumvarpinu er einnig tekið á þessum málum. Það er eiginlega meira fagnaðarefni að það skuli gert vegna þess að í núverandi grunnskólalögum eru miklar brotalamir. Leikskólalögin kveða miklu skýrar á um þetta en lögin um grunnskóla. Í 17. gr. þessa frumvarps segir, með leyfi forseta:

„Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.“

Það á sem sagt að sinna sérþörfum einstaklinganna innan veggja skólans.

Síðan segir, með leyfi forseta enn:

„Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.“

Í 40. gr. sem er að finna í IX. kafla frumvarpsins þar sem sérstaklega er fjallað um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi skóla segir á þá leið að sveitarfélög skuli tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólum. Þetta er mjög gott ákvæði vegna þess að eins og ég segi eru núgildandi lög ekki skýr hvað þetta varðar. Og neðar í 40. gr. segir, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög sem reka grunnskóla skulu hafa frumkvæði að samstarfi sérfræðiþjónustu, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu innan sveitarfélagsins vegna nemenda með sérþarfir og langvinn veikindi.“

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er vikið að þessum þáttum. Þar segir á bls. 23, með leyfi forseta:

„Séð frá sjónarhorni barna og aðstandenda er það fyrir mestu að sú þjónusta sem barnið þarf á að halda til að geta stundað nám sitt sé fyrir hendi og sé greiðlega veitt. Skiptir þá ekki máli hvort þjónustan falli formlega undir skóla eða félags- eða heilbrigðisþjónustu. Það er einnig aukin krafa af hálfu foreldra að þjónustan sé veitt innan grunnskólans ef þess er nokkur kostur. Þannig sé þjónustan löguð að þörfum barnsins þar og ekki þurfi að aka börnum víða um bæ til þess að sækja þjónustuna. Innan grunnskóla er nú veitt ýmisleg sérfræðiþjónusta, svo sem námsráðgjöf, sálfræðiþjónusta og sérkennsla, auk þess sem þar starfa hjúkrunarfræðingar á vegum heilsugæslunnar.“

Og síðan segir:

„Mikilvægt er að koma á samhæfingu sérfræðiþjónustu innan skóla og sveitarfélaga, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu, milli ráðuneyta og milli ríkis og sveitarfélaga.

Komið er til móts við þessi sjónarmið í frumvarpinu og er sveitarstjórnum og skólastjórum grunnskóla falið aukið hlutverk í samræmingu sérfræðiþjónustu. Mælt er fyrir um að sveitarfélög beri ábyrgð á samstarfi skóla við aðila utan skólans.“

Hvað kemur fram hér? Það er sama áherslan, það eru skyldur skólans gagnvart fötluðum börnum og börnum með sérþarfir og að þessi þjónusta sé eftir því sem nokkur kostur er veitt innan veggja skólans. Það er hrikalegt álag sem hvílir á foreldrum fatlaðra barna sem hafa sjálf þurft að annast flutning á þeim frá skóla og til sérfræðinga og það er mjög mikilvægt að skýrt sé kveðið á um það í lögum að það sé réttur barnsins að fá þessa þjónustu innan veggja skólans.

Að sönnu hefði mátt kveða fastar að hvað þetta snertir en engu að síður er alveg skýrt hver vilji löggjafans er hvað þetta snertir, það á eftir því sem nokkur kostur er að stuðla að því að þessi þjónusta sé veitt innan veggja skólans.

Jafnvel þó að þessi lög verði samþykkt — og ég lýsi eindregnum stuðningi við þessa þætti frumvarpanna sem ég geri sérstaklega að umræðuefni og ítreka að þó að fastar mætti kveða að orði er andinn og viljinn sem þarna kemur mjög góður — eru engu að síður miklar brotalamir í þessu kerfi. Ef börn sem eru í leikskóla og grunnskóla þurfa að sækja þjónustu út fyrir veggi skólans, líkamlega þjálfun þess vegna, og þurfa á sérhæfðum flutningi að halda, þurfa foreldrarnir að greiða fyrir þennan flutning og síðan geta þau rukkað skólann en upp að tilteknu marki. Meðan barn sem er heilbrigt á líkama getur farið í sund eða stundað sína leikfimi á fatlaða barnið sem þarf miklu fremur á þessum stuðningi að halda og þessari þjálfun, a.m.k. ekki síður, auk erfiðleikanna að greiða fyrir þjónustuna.

Það er óþolandi að ríki, sveitarfélög og skólarnir geti ekki komist að samkomulagi um hvernig eigi að haga þessu. Ég hef ekki nokkra trú á því að samfélagið eða nokkur maður vilji hafa þetta svona. Ég held að vilji okkar allra standi í gagnstæða átt, við eigum þá að virkja velvildina í þessum málum og finna lausnir og láta ekki dankast ár eftir ár að fá í þetta botn.

Mér er kunnugt um að í menntamálaráðuneytinu sé starfandi nefnd sem fjallar einmitt um þessa þætti, um réttarstöðu fatlaðra barna innan skólakerfisins, innan leikskólakerfisins og grunnskólans. Ég er sannfærður um að það sem er að finna í þessu frumvarpi og ég hef sérstaklega vísað til er frá þessari nefnd sprottið. Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka það mikla og góða starf sem unnið hefur verið í ráðuneytinu af hálfu þessarar nefndar. Ég efast ekkert um að þau sjónarmið sem er að finna hér í formi frumvarpstextans og greinargerðar með honum eru frá þessu fólki runnin, og er það vel.

Ég vona að sú nefnd sem ég vísa hér til ljúki störfum sem fyrst og að það takist að leysa þau úrlausnarefni sem eru á vinnuborði hennar og snúa þá ekki síst að þeim fjárhagslegu þáttum sem ég hef hér nefnt.