135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[17:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir yfirgripsmikla og faglega umræðu. Fram komu mjög mikilvægar ábendingar en stundum gætti misskilnings sem ég vona að ég nái að leiðrétta, ég vona að mér takist að svara ákveðnum spurningum hv. þingmanna. Margt athyglisvert hefur verið dregið fram í umræðum um, eins og einn hv. þingmaður nefndi, ein mikilvægustu lagafrumvörp sem þingið kemur til með að fjalla um á kjörtímabilinu. Því skiptir miklu máli að vandað sé til verka og menn hlusti hver á annan og hafi víðtækt samráð. Ekki er þar með sagt að allir séu sammála um leiðir til úrbóta í menntakerfinu en við erum hér til að ræða mismunandi útfærslur. Ég vonast sem áður til þess að víðtæk sátt náist þannig að þau markmið sem sett eru í frumvarpinu verði að veruleika, þ.e. að styrkja skólakerfið, auka tækifæri barna okkar, efla sjálfstæði skóla og sjálfsforræði sveitarfélaga og auka samfellu og sveigjanleika á milli skólastiga.

Með frumvörpunum leggjum við áherslu á þá stefnu sem verið hefur, annars vegar skóla án aðgreiningar og hins vegar einstaklingsmiðað nám og nám á mismunandi hraða. Þeir sem vilja flýta sér fara þá hratt yfir en þeir sem kjósa að fara lengri leiðina geta gert það, það er mikilvægt að menn fái tækifæri til að ljúka grunnskóla. Ég get nefnt sem dæmi fjölgreinadeild sem við fórum í sem tilraunaverkefni með Hafnarfjarðarbæ, Iðnskólanum í Hafnarfirði og Flensborg til að veita grunnskólanemendum sem alla jafna hefðu ekki farið inn í framhaldsskóla tækifæri til að vera lengur í grunnskóla, í ellefu eða jafnvel tólf ár. Þetta er dæmi um þann sveigjanleika sem við höfum verið að vinna að á undanförnum árum. Sveigjanleikinn þarf að vera á alla kanta og alla vegu til að uppfylla þarfir mismunandi einstaklinga.

Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því að við ræðum þessi merku mál á dánardegi Jóns Sigurðssonar en hann lést þennan dag 1879, að mig minnir. Merkasta rit hans fyrir utan allar ritgerðir og ræður til þess að ná fram sjálfstæði landsins var ekki síst lýsing á skólakerfi á Íslandi. Skólakerfi sem átti að gera hvað? Skólakerfi sem átti að hæfa margvíslegum þörfum samfélagsins og ekki síst nemenda. Ég held að þau frumvörp sem við ræðum hæfi einmitt margvíslegum þörfum samfélagsins og nemenda í skólakerfinu.

Gott og vel. Það er eitt og annað sem ég ætla að reyna að svara í síðari ræðu minni. Ég vil leggja á það áherslu að við erum að auka sveigjanleikann og samfelluna. Það er því mikilvægt að við ræðum frumvörpin saman og ekki bara skólafrumvörpin sem slík, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, heldur ekki síður kennaramenntunina. Með breytingu á kennaramenntunarlögunum eða lögverndunarlögunum viljum við ná fram þeirri samfellu sem við erum að reyna að skapa og mér heyrist að allir séu sammála um.

Ég nefndi hér sem dæmi Krikaskóla, mjög merkilegan skóla sem bæjarstjórnin í Mosfellsbæ er að setja á laggirnar. Það er skóli fyrir börn frá eins til níu ára. Slíkir skólar auka fjölbreytni í kerfinu en þá er líka mikilvægt að menn sjái fram á að kennarar geti fylgt börnunum innan þess skóla allan þann tíma. Þetta er dæmi um þann sveigjanleika og samfellu sem við erum að reyna að skapa.

Rætt var um samræmd próf. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór mjög vel yfir öll frumvörpin og kom, eins og hennar er von og vísa, með marga skemmtilega punkta og mjög gott innlegg. Hún velti fyrir sér samræmdum prófum eins og margir aðrir hafa líka gert. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri hafa velt fyrir sér tilgangi samræmdra prófa, um þau hafa alltaf verið skiptar skoðanir. Eiga þau að heita könnunarpróf? Eiga yfir höfuð að vera samræmd próf? Menn hafa margoft rætt PISA-skýrsluna sem kom út í vikunni, niðurstöður PISA 2006. Þegar Danir stóðu frammi fyrir niðurstöðunum 2003 fóru þeir í ákveðnar breytingar á skólakerfi sínu, markvissan lestur o.fl., en einbeittu sér ekki síður að því að setja inn fleiri samræmd próf eða könnunarpróf með ýmsum hætti. Það gerðu þeir til að geta fylgst með námsframvindu nemenda og til að geta brugðist við innan skólakerfisins. Þeir vildu hafa upplýsingar af því tagi annars vegar fyrir skólana, hvað betur mætti fara innan þeirra, en ekki síður fyrir foreldra, hvar börnin þeirra standa og hvort þau fái þá þjónustu sem skólinn á að veita.

Hér hafa nokkrir talað sem foreldrar og mikilvægt er að við foreldrar fáum slíkar upplýsingar. Það er ekki gott þegar engin próf eru og foreldrar fá engar upplýsingar um námsframvindu barna í gegnum allt skólakerfið. Skoðanir eru skiptar um könnunarprófin í 4. og 7. bekk, en mér hefur heyrst á flestum að könnunarprófunum í þeim árgöngum hafi verið betur tekið en samræmdu prófunum í 10. bekk. Við höfum verið að hlusta og það hafa verið mjög alvarlegar athugasemdir uppi varðandi framkvæmd samræmdra prófa í 10. bekk. Ég er ekki hlynnt því, eins og hv. þingmenn heyra, að afnema samræmd próf eða könnunarpróf. Ég tel mikilvægt að ákveðið gæðamat fari fram í skólunum. Hins vegar er framkvæmdin eins og hún er nú ekki óumbreytanleg. Ég legg því til að við förum yfir í könnunarpróf, að við færum þau til á skólaárinu, þau verða væntanlega í október eða nóvember. Með því móti stýra þau ekki skólastarfinu allan 10. bekkinn. Skólar geta þá líka brugðist við það sem eftir lifir árs til þess að efla og bæta upp námið.

Við höfum fengið upplýsingar um það, m.a. í gegnum Námsmatsstofnun, að verið er að þróa einstaklingsmiðuð könnunarpróf, samræmd próf. Við eigum eftir að sjá svonefnd samræmd próf eða könnunarpróf breytast á næstu árum, ekki síst með tilkomu nýrrar tækni. Þau verða mun einstaklingsmiðaðri en þau eru í dag. Mikil þróun og gerjun mun eiga sér stað hvað samræmd próf snertir.

Ég vil draga það fram varðandi heimakennsluna að fram til þessa hefur verið um tilraunaheimild að ræða. Nú er heimild til þess að gera þetta og eru það sveitarfélögin sem meta þá hluti og skólanefndir sem fara yfir þá. Af hálfu ráðuneytisins eru sett ákveðin skilyrði, m.a. í þeim tilraunaverkefnum sem nú eru í gangi, m.a. um það að einn af þeim sem sjái um heimakennslu sé kennaramenntaður. Það breytist ekki þótt verið sé að lengja kennaramenntunina. Ég er sannfærð um að við eigum að hafa þessa heimild til staðar en tek þó undir þær efasemdarraddir sem hafa heyrst úr þessum stól. Við verðum að fara varlega í slíka heimild og gera mönnum ljóst að fylgja þarf ákveðinni námskrá og þeir sem sinna slíkra kennslu þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og sinna ákveðnum skyldum. Með slíkri kennslu þarf að hafa ákveðið eftirlit.

Einhvers misskilnings virðist gæta varðandi sprotasjóðinn. Ekki er handvalið í ráðuneytinu við úthlutun úr sjóðinum og menntamálaráðherra hefur hann ekki til umráða einn og sér. Þvert á móti er sprotasjóður þróunarsjóður til þess að efla rannsóknir og þróun innan skólanna. Ég held að í því felist tækifæri til aukningar fyrir leikskólann og leikskólastigið sem mikið hefur verið rætt um. Það er sjóður sem að stuðla á að rannsóknum og þróun á öllum skólastigum. Þess vegna er mikilvægt að sjóðurinn líti heildstætt á skólakerfið og við vonumst til að svo verði.

PISA-niðurstaðan hefur verið nokkuð mikið rædd í dag. Ég tel tvímælalaust að efla eigi frekari rannsóknir á skólakerfinu varðandi nám, námsframboð og almenna þróun innan skólans, ekki síst með tilliti til PISA-könnunarinnar. Miklu máli skiptir að við leggjum aukinn kraft í þann þátt. Við höfum gert það á síðustu árum sem betur fer en við megum gera betur.

Við eigum að nota það sem tæki, ásamt PISA-niðurstöðunum, til að finna nákvæmlega hvaða leiðir við þurfum að fara til að stuðla að betri frammistöðu, ekki síst hvað lesskilninginn varðar sem er mér mikið áhyggjuefni.

Ég varaði eindregið við því að menn notuðu niðurstöðurnar til að slá pólitískar keilur, eins og einn hv. þingmaður ætlaði sér að gera. Það getur vel verið markmið hans, gott og vel. Ég stend sem ráðherra menntamála og sjálfstæðismaður mjög keik og stolt yfir þeim framgangi menntamála sem við höfum stuðlað að á undanförnum árum, alveg frá 1991. Ég er mjög stolt yfir menntastefnunni sem við höfum staðið fyrir. Við höfum gert það m.a. í samvinnu við samstarfsflokka okkar í ríkisstjórn, þar á meðal Framsóknarflokkinn.

Samstarfsflokkar okkar í ríkisstjórn eru náttúrlega ekki ábyrgðarlausir af menntastefnu þeirri sem er við lýði og sem hefur að mínu mati verið til farsældar almennt fyrir skólalífið í landinu. Við eigum hins vegar ekki að loka augunum fyrir gagnrýni sem við fáum, hvort sem hún kemur frá skólunum sjálfum eða utan frá.

Þess vegna er ég vonsvikin yfir niðurstöðunum, að við skulum ekki ná betri árangri án þess að alhæfa yfir allt kerfið og segja að skólakerfið fái hér falleinkunn, eins og þingmenn Framsóknarflokksins halda fram. Síður en svo. Við höfum aldrei haft jafnmarga fagmenntaða einstaklinga innan skólakerfisins. Við höfum aldrei haft fleiri kennara. Við höfum aldrei verið með fleiri sérfræðinga og meiri sérfræðiþjónustu innan skólakerfisins. Við höfum einn dýrasta grunnskólann, líklega jafndýran og Norðmenn sem eru aðeins fyrir neðan okkur varðandi fjárframlög.

Þess vegna hlýtur að vera okkur áhyggjuefni að við fáum ekki meira út úr því sem við leggjum í skólann og að sjálfsögðu mun ráðuneytið skoða hvaða viðmið við setjum inn í skólana. Þess vegna er sannfærð ég um, og hef sagt að við, þ.e. ríki, sveitarfélög, kennaramenntunarstofnanir og Kennarasambandið, eigum að sameinast um að skoða og rýna vel í það sem fram kemur í tillögum PISA og sjá hvað hægt er að gera betur.

Við höfum frábært fólk innan skólanna og það hefur alla burði til að gera skólakerfið betra og kröftugra en það er í dag. Við erum á góðri leið. Ég sagði fyrr í dag að við ættum alla jafna að vera nokkuð glöð að vera í hópi með Dönum og Svíum og Norðmönnum. Við erum iðulega ánægð með það þegar við erum með þeim í hópi, og einnig Bandaríkjamönnum — svo ég taki það nú sérstaklega fram, það eru svo margir frá vinstri grænum í þingsalnum. Það er hópur sem okkur líður venjulega vel í. Mér finnst það samt vera of mikil meðalmennska. Ég vil sjá okkur framar í röðinni og þess vegna eigum við þingmenn og foreldrar að stuðla að því að efla lestrarkunnáttu og lesskilning heima fyrir.

Ég talaði um frístundalesturinn fyrr í dag. Við eigum að leggja aukinn kraft í það sem foreldrar og fjölskyldur gera heima fyrir. Ekki þýðir að leggja ábyrgðina eingöngu á skólakerfið. Við eigum að stuðla að því að lestur verði aukinn og gera hann spennandi og aðlaðandi valkost við tölvurnar og annað sem krakkarnir fást við. Tölvur eru góðar en lesmálið og fleira sem krakkarnir finna á netinu er ekki alltaf til þess fallið að stuðla að auknum lesskilning.

Ég tel því að það sé víðtækt samfélagslegt verkefni að stuðla að enn betri árangri, ekki síst á sviði lestrar hjá okkur. Við munum því rýna mjög vel í allar niðurstöður PISA. Umræðan sem við höfum átt um frumvörpin mun stuðla að því að kerfið okkar verður betra, um það er ég sannfærð. Við gerum ríkari kröfur til enn betri kennaramenntunar.

Talað hefur verið um eflingu faggreina. Ég tek heils hugar undir þá umræðu með hv. þingmanni Katrínu Jakobsdóttur. Við eigum að skoða sérstaklega að efla faggreinarnar og ég bind vonir við að með sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands 1. júlí 2008 getum við sett enn meiri þunga í faggreinamenntunina en nú er. Gríðarleg tækifæri eru fólgin í að efla íslensku, stærðfræði, ensku, allar raungreinar og náttúruvísindi með sameiningunni. Sameiningin felur í sér mikla ábyrgð og mikilvægt er að að grípa tækifærin sem gefast með henni.

Fram kom hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að námsgögnin væru ekki ókeypis. Það er rétt, það kemur ekki fram í frumvarpinu og það er ekki ætlunin. Það kemur fyrir annars staðar, m.a. í tengslum við lög um námsgögn. Ég vil geta þess að við höfum, m.a. í samvinnu í síðustu ríkisstjórn, sérstaklega aukið framlög til námsgagna og námsgagnagerðar. Við lögðum hundrað milljónir til viðbótar til námsgagnagerðar til að hleypa fleirum að framleiðslu á efni en Námsgagnastofnun. Við treystum skólunum. Þeir fá úthlutað fjármagni til námsgagnakaupa og námsgagnagerðar til að meta sjálfir hvaða námsgögn þeir vilja kaupa. Ég held að það skipti miklu máli.

Um leið vil ég þó geta þess að skýrt er kveðið á um í stjórnarsáttmálanum að stuðla eigi að því að hagkvæmara verði fyrir nemendur að nálgast námsgögn en nú er. Það gerist þó ekki á næsta ári en verið er að vinna að því, svo það komi fram.

Ég vil einnig svara hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni varðandi símenntunina, ég er honum hjartanlega sammála. Til þess að ekki byggist upp tvöfalt kerfi er brýnt að ég leggi fram frumvarp um fullorðinsfræðslu eins fljótt og auðið er og að við förum vel yfir það. Við höfum nú hafið frumvinnu við frumvarp um fullorðinsfræðslu og símenntun.

Ég tel mikilvægt að hægt verði að leggja það fram á yfirstandandi þingi til að koma til móts við þá miklu aukningu sem átt hefur sér stað á sviði símenntunar og fullorðinsfræðslu. Það er ánægjulegt að upplifa að ásókn fólks sem hefur litla framhaldsskólamenntun hefur aukist verulega. Fólk sækir inn í skólana okkar aftur og við eigum að halda þeim opnum, við eigum að hafa kerfi sem tekur vel á móti fólki sem vill auka menntun sína, hvort sem það er með stúdentsprófi eða annars konar prófi.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom inn á að ef til vill gæti frelsið, sem gefið er svigrúm til í frumvarpinu, verið of mikið fyrir skólana, að valið væri of snemma í kerfinu. Ég er ekki sammála því að svo sé eða verði. Ég vil jafnframt benda hv. þingmanni á að grunnurinn í frumvarpinu sem tengist framhaldsskólum er starfsnámsskýrslan sem við ræddum sérstaklega á þingi á sínum tíma og bæði stjórn og stjórnarandstaða fögnuðu. Menn fögnuðu því að kominn væri ákveðinn kjarni sem birtist nú í frumvarpinu, í íslensku, ensku og stærðfræði, og síðan hefðu skólarnir meira frelsi til að móta nám og námsframboð. Ekki síst átti það að stuðla að aukinni aðsókn í iðn- og verknám og starfsnám og auka námsframboð á því sviði og það átti líka að vera betur í takt við atvinnulífið.

Ég leyni því ekki að gengið var út frá styttingu náms til stúdentsprófs en nú hefur öllum áformum í þá átt verið lagt. Við treystum skólunum til að móta námsframboð og við munum sjá fjölbreytt stúdentspróf. Við munum hugsanlega sjá þriggja ára stúdentspróf og það er ekkert athugavert. Við munum jafnframt sjá stúdentspróf sem eru þriggja og hálfs, fjögurra og jafnvel fjögurra og hálfs árs stúdentspróf. Meðalnámstími til stúdentsprófs nú eru tæplega fimm ár.

Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir í öllum reiknilíkönum að greitt verði fyrir einingar sem teknar verða, þannig að því sé líka haldið til haga. Reiknilíkanið og námskráin sem samþykkt verður eiga að fara saman. Ég ítreka að reiknilíkanið er nú í endurskoðun með tilliti til ýmissa athugasemda sem settar verða fram vegna þess.

Það byggir að grunni til á starfsnámsskýrslunni sem sett var fram og þar áttu til að mynda framsóknarmenn sinn fulltrúa sem var og er mikill skólamaður, Hjálmar Árnason, fyrrverandi þingmaður og skólameistari. Við treystum skólunum til að móta námið og námsframboðið.

Nemendur munu ekki sækja í þriggja ára nám, þriggja og hálfs árs eða jafnvel skemmra nám ef það dugar þeim ekki til að standa sig í atvinnulífinu eða að fara inn í háskólana. Engin eftirspurn verður eftir slíku námi. Skólarnir móta ekki námsframboð án þess að eftirspurn verði eftir því. Þeir gera það m.a. í samvinnu við háskólana og atvinnulífið og ég bind miklar vonir við að skólarnir líti sérstaklega til atvinnulífsins þegar komið er að því að móta nám og námsframboð á sviði iðn- og starfsnáms.

Spurt var um fermingarfræðsluna og skorað á mig að taka bréfið til baka sem sent var. Ég mun ekki taka bréfið til baka. Hins vegar var áréttað og getur vel verið að það hafi ekki verið nægilega skýrt orðað í niðurlagi bréfsins, að við breytum ekki framkvæmdinni frá því sem nú er. Kvartanir hafa þó borist í ráðuneytið þess efnis að sumir skólar skilgreina hluta af skólaskyldunni, af þeim 180 dögum sem nú eru í skólaárinu, sem fermingarfræðsluferðir eða annað. Það er ekki skólanna að skipuleggja það. Hins vegar er, eins og verið hefur hingað til, kirkjunnar og foreldranna að sækja um leyfi í slíkar ferðir. Á því er engin breyting. Bréfið var sent til að hnykkja á því og öðru sem því miður hefur borið á, að nemendur sem ekki hafa farið í fermingarfræðsluferðir hafa sumir hverjir orðið fyrir einelti. Skólar verða að vera meðvitaðir um það og hafa úrræði fyrir nemendur sem ekki fara í slíkar ferðir.

Ég vil hins vegar geta þess að samstarf kirkju og skóla hefur verið með eindæmum gott fram til þessa fyrir utan örfá undantekningartilvik sem við eigum ekki að festa okkur of mikið við. Samfélag okkar byggir á kristnum gildum og eigum að vera ófeimin við að viðurkenna það. Það verður hins vegar að vera gert út frá ákveðnum reglum og lögum. Lögin eru þannig að ekki á að gera ráð fyrir trúarfræðslunni eða trúboði sem hluta af skólaskyldunni. Eftir sem áður á það að gerast í góðri samvinnu trúfélaga og skóla og eftir atvikum sveitarfélaga.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði m.a. um heilsugæsluna og mér heyrist á flestum að þeir fagni sérstaklega ákvæðum í skólalöggjöfinni sem tekur til sérþarfa, sérkennslu barna með ýmsar sérþarfir. Verið er að taka með miklu markvissari hætti á rétti barnanna en áður og nálgunin er annars konar í frumvörpunum en verið hefur fram til þessa. Miðað er við þarfir barnsins, nemandans. Þess vegna er einingakerfinu breytt, viðmiðið er vinnuframlag nemanda þegar einingarnar verða metnar. Ég ítreka enn að þótt við tölum ekki um háskólann nú er engu að síður ákveðin tenging. Við drögum fram ákveðna tengingu við háskólann með því að gera skólanum auðveldara um vik að meta einingar á milli framhaldsskóla og háskóla, þ.e. viðbótarnám eftir stúdentspróf.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um heilsugæsluna og ég undirstrika að við reynum að færa þjónustuna inn í skólana, heilsugæslu og aðra þjónustu sem bjóða þarf upp á. Ég hef nefnt iðjuþjálfun, talkennslu og fleira sem verið er að færa inn grunnskólana og leikskólana eftir því sem kostur er, eins og segir í frumvörpunum.

Varðandi heilsugæslu á framhaldsskólastigi bendi ég á verkefni sem loksins hefur náðst samvinna um við heilbrigðisráðuneytið. Heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið eru nú í samvinnu um mjög öflugt forvarnaverkefni þar sem Lýðheilsustöð kemur að málum við að tengja heilsugæsluna og lýðheilsuna betur inn í skólana. Það er m.a. gert til að stuðla að öflugri forvörnum en nú eru og mun menntamálaráðuneytið leggja fram starfsmann til verkefnisins. Auðvitað skiptir máli að ráðuneytin ræði saman um úrvinnslu og útfærslu á slíkum ákvæðum. Við erum þegar byrjuð á því, það er ótvírætt merki þess að hægt er að efla þjónustuna og heilslugæsluna án þess að það leiði til aukins kostnaðar. Oft og tíðum er það spurning um skipulag og forgangsröðun innan ráðuneytanna.

Mikil þörf er á að efla forvarnir og miðað við kannanir og rannsóknir er það sérstaklega mikilvægt á framhaldsskólastigi því að eins og menn vita breytist hegðunarferli barna okkar verulega á milli grunnskóla og framhaldsskóla. Því miður er vímuefnanotkun nokkuð mikil í framhaldsskólum en fer minnkandi í grunnskólunum. Á því þarf að taka og margir þurfa að koma að málinu.

Rætt var um nemendalýðræði, hvort ekki ættu að vera skýrari ákvæði um það. Ég tel einmitt að við höfum aukið skyldur og réttindi nemenda í frumvarpinu, ekki síst hvað varðar framhaldsskólann og framhaldsskólafrumvarpið. Við aukum að sjálfsögðu ábyrgð foreldra, drögum þá meira inn í framhaldsskólana. Það er nýmæli. Við setjum inn foreldraráð og látum foreldrana taka þátt í starfi framhaldsskólanna. Það skiptir miklu máli.

Varðandi nemendalýðræðið er að sjálfsögðu á valdi skólameistara að reyna að virkja nemendalýðræðið sem mest og gera það sem hluta og eðlilegan þátt af öllu skólastarfi innan framhaldsskólanna. Með því undirstrikum við enn að sjálfstæði skólanna varðandi mótun skólastarfs er verulega aukið með frumvörpunum.

Hæstv. forseti. Ég mun ekki að hafa mál mitt lengra. Ég þakka umræðuna í dag sem að mínu mati ber ótvírætt merki þess að allir hafa metnað fyrir hönd íslenska skólakerfisins, fyrir hönd barnanna okkar og er það vel. Ég vænti þess að farið verði gaumgæfilega yfir allar athugasemdir og ábendingar sem hv. menntamálanefnd berast og óska þingmönnum öllum velfarnaðar í þeim mikilvægu störfum, einu af mikilvægustu störfum sem fram undan eru sem þingmenn hafa tekist á við í menntamálanefnd .