135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þótti þetta afskaplega sérkennileg ræða. Ég vek athygli á því að sú sem hér talaði, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, var heilbrigðisráðherra þar til fyrir sex mánuðum og engar grundvallarbreytingar hafa orðið þegar kemur að fjárlögum hvað varðar þær tvær stofnanir sem hún talaði um, ekki til í dæminu. Það er ótrúlegt að koma sex mánuðum síðar og tala um einhverjar grundvallarbreytingar. Og það er fráleitt að leggja út af einhverjum hugmyndum, um einhvern 550 millj. kr. sparnað, sem ekki stendur til að fara út í. Og það liggur alveg fyrir, þegar vísað er í grundvallarbreytingu, að í stjórnarsáttmálanum segir, ekki ósvipað og var sagt í stjórnarsáttmálanum 1999, að skoða eigi þætti eins og að kostnaðargreina frekar, vera með aukið gegnsæi þegar kemur að fjármögnun og það er í samræmi við það sem er gert í nágrannalöndum okkar eins og t.d. Svíþjóð. Svo einfalt er það mál.

Hv. þingmaður lagði út af því í viðtali, hún gerði það ekki í ræðunni, að við værum að fara yfir í eitthvert amerískt kerfi af því að menn væru að nýta kosti einkareksturs. Ég vil benda hv. þingmanni á, vegna þess að þetta hefur hvergi komið fram og ekkert bendir til þess að það verði gert, að það er einkarekstur í kerfinu. Salastöðin er t.d. einkarekin, Læknavaktin, tæknifrjóvgun ART Medica, Orkuhúsið, sjálfstæðir læknar og allt er þetta meira og minna í tíð ráðherra Framsóknarflokksins. Framsóknarmenn þurfa að svara því: Voru þetta mistök? Eru þeir að leggja til að sá sem hér stendur vinni gegn þessum stofnunum sem hafa staðið sig afskaplega vel?