135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Góð heilsugæsla er einn mikilvægasti þáttur okkar velferðarkerfis. Það er sá þáttur sem ég held að við öll viljum í raun standa vörð um, að allir eigi þar jafnan aðgang óháð búsetu, kjörum og efnahag. Það virðist samt ekki stefna í þá átt nú. (GÁ: … alla fátæka?)

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu býr við fjársvelti, uppsafnaðan halla frá því bæði í ár og fyrri árum og hefur auk þess bent á að til að halda óbreyttum rekstri á næsta ári þurfi milli 400 og 500 millj. kr. Heilsugæslan víða um land, ekki hvað síst í hinum dreifðu byggðum sem hefur verið þrengt að, býr líka við verulegan fjárskort.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt tillögur á Alþingi við 2. umr. fjárlaga um að komið yrði til móts við fjárþörf þessarar grunnþjónustu. Við fluttum hér tillögu við afgreiðslu fjáraukalaga um að halli á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og mikilvægum heilbrigðisstofnunum úti um land yrði skorinn af. Þær tillögur voru felldar af stjórnarmeirihlutanum, Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Við munum aftur flytja tillögur við 3. umr. fjárlaga þar sem tekið verður á, lagt til að sett verði nægjanlegt fjármagn í Heilsugæsluna í Reykjavík, í Landspítalann, í heilbrigðisstofnanirnar úti um land til að standa vörð um þessa grunnþjónustu, að (Forseti hringir.) hún verði ekki sett í trog einkavæðingarinnar eins og þessi ríkisstjórn virðist stefna að.