135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:19]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki í karp um það hverjum er um að kenna að svo er komið fyrir heilsugæslunni eins og um er að ræða og sem er viðurkennt. Það er uppsafnaður vandi og það vantar meiri peninga til að leysa vandamálin. Þá er viðfangsefnið: Hvernig gerum við það?

Það er í fyrsta lagi spurningin um að leysa uppsafnaðan vanda, tryggja heilsugæslunni nægjanlegt fjármagn til að geta sinnt þeirri nauðsynlegu þjónustu sem við viljum hafa, það er fyrsta úrlausnarefnið sem við þurfum að stefna að. Við erum væntanlega öll sammála um að þannig eigi það að vera en þess sjást kannski ekki merki að nægum fjárveitingum sé varið til málsins, þannig að þær dugi til.

Hitt er svo annað mál að menn mega ekki hlaupa upp til handa og fóta þegar hagsmunaaðilar taka til máls og gera kröfur í hvert eitt sinn. Spurningin lýtur líka að því að gætt sé að hagræðingu í rekstrinum og þar tel ég að ekki hafi verið nægjanlega fylgst með þannig að hagræðingar og sparnaðar væri gætt í hvívetna og yfirbyggingin sem minnst.

Að sjálfsögðu kemur ekki til greina að við sem velferðarþjóðfélag, eitt ríkasta samfélag í heimi, samþykkjum að ekki sé boðið upp á nægjanlega heilsugæslu fyrir almenning í landinu, að sjálfsögðu ekki. Spurningin er hvernig við leysum vandamálið þannig að það sé hagkvæmni, gert með sem ódýrustum hætti en peningar tryggðir til þess að það sé nægjanlegt. Ég tel að á það skorti.

Síðan að lokum, hér koma menn upp og ekki síst þingmenn Vinstri grænna sem tala um að nú eigi að nýta kosti einkareksturs og hins frjálsa framtaks og lýsa því yfir að þeir séu andvígir því. Af hverju? Af hverju á ekki að nýta kosti einkareksturs ef um hann er að ræða? Að sjálfsögðu horfir það þá til sparnaðar og hagræðingar í kerfinu. (Gripið fram í: … spara …) (Gripið fram í: Nei, nei.)