135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:41]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og vinstri græn reiða hátt til höggs í þessu máli. Stjórnarskráin er undir en þeim ásökunum er ýtt til hliðar í skýrslunni. Samkeppnislögin eru undir en þeim ásökunum er líka ýtt til hliðar í skýrslunni. Jarðasala án heimilda sem ekki er gerð athugasemd við og síðan er hinn meinti glæpur, afsal vatnsréttinda í Þjórsá, en í skýrslunni kemur fram að hann hafi ekki átt sér stað. Í skýrslunni segir að afsalið hafi ekki átt sér stað vegna þess að samkomulagið hafi ekki verið borið undir Alþingi.

Það skyldi þó ekki vera að ástæðan fyrir því að samkomulagið var ekki borið undir Alþingi hafi einmitt verið sú að það stóð aldrei til á þessu stigi málsins að afsala vatnsréttindum í Þjórsá frá ríkinu til Landsvirkjunar. Samkomulagið er skilyrðum háð, þeim skilyrðum að virkjanaleyfi fáist. Samkomulagið fjallar um það hvað gerist ef virkjanaleyfið fæst og er í samræmi við raforkulög þar um. Því skyldu vera gerðar athugasemdir við það?

Herra forseti. Þegar þetta samkomulag var gert höfðu sveitarfélög talað um að það væri skilyrði til þess að hægt væri að setja virkjunina inn á skipulag að samningar yrðu gerðir við landeigendur. Í því ljósi var mikilvægt að það lægi greinilega fyrir hver staða Landsvirkjunar yrði fengist virkjanaleyfi. Til þess var þetta samkomulag gert, til þess að enginn vafi væri um það að fengist virkjanaleyfi mundi ríkið ganga til samninga við Landsvirkjun um að vatnsréttindin fengjust.

Ég veit ekki til þess að eitthvað annað hafi verið upp á teningnum í þessu. Ég fæ ekki séð að hægt sé að ásaka menn fyrir að hafa ætlað sér að afsala eignum, menn sem augljóslega eiga að vita hvað stendur í fjárreiðulögunum, og láta sér detta í hug að þeir hafi gert það án þess að ætla sér að leggja það fyrir Alþingi.

Ég er þess vegna sammála niðurstöðunni. Það er engin skuldbinding um að afsala vatnsréttindunum á þessu stigi máls. Ég ætla hins vegar ekkert að deila við Ríkisendurskoðun um það hvernig Ríkisendurskoðun kemst að niðurstöðu sinni miðað við það hvernig ég kemst að minni. Lögfræðin er þannig málefni að lögspekingar eru ekki einu sinni sammála um hvort við einni og sömu lögfræðilegu spurningunni geti verið eitt, tvö eða fleiri rétt svör. Ég ætla ekki að hafa sérstakar áhyggjur af því að Ríkisendurskoðun skuli komast að sömu niðurstöðu og ég en á annan hátt. Ég verð bara að vera ánægður með það að við séum á einu máli um niðurstöðuna.

Ég hef það á tilfinningunni að í bókaflóðinu um jólin þegar alls konar sögur eru kynntar hafi hv. þingmaður einhvern veginn flækst í sínu eigin plotti, svo maður sletti, og mér sýnist einfaldlega sem glæpinn vanti. Það hefur ekkert afsal farið fram og það vantar eiginlega líkið í plottið hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur til að það geti gengið upp. (SJS: … samkomulag um ekki neitt?)