135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kallar fram í að iðnaðarráðherra muni ræða um stefnu Samfylkingarinnar varðandi virkjun Þjórsár. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði áðan, að það hafa löngum staðið deilur um virkjun Þjórsár. En það vill svo til að ekki eru liðin mörg missiri síðan því var haldið fram af einum sem af þeim sem standa hv. þm. Jóni Bjarnasyni miklu nær en ég geri að virkjanir í neðri Þjórsá væru með álitlegri virkjunarkostum. Meiri voru ekki deilurnar á þeim tíma.

En, herra forseti, það skyldi þó ekki vera að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði átt kollgátuna, eins og oft áður í þessari umræðu, að hér hefði verið gert samkomulag um ekki neitt. Í þeim skilningi að það er alveg ljóst af niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að þetta er ekki bindandi fyrir ríkið. Ég tel hins vegar að þetta sé merkileg niðurstaða og vil segja það alveg skýrt að ég er þessu sammála í öllum meginatriðum. Sérstaklega finnst mér eftirtektarvert að skoða hvaða ályktanir má draga af umfjöllun Ríkisendurskoðunar t.d. um fjárreiðulög og samspil þeirra við lög um raforku. Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að vatnsréttindi í neðri Þjórsá séu veigamikil eign í skilningi fjárreiðulaga og af þeim sökum verði þau ekki framseld nema með samþykki Alþingis. Ég túlka þetta svo að komi til þess að Landsvirkjun fái virkjanaleyfið og gangi í krafti 38. gr. raforkulaga til samninga við ríkið um þau vatnsréttindi sem eru í þess höndum, þá ríki í besta falli óvissa um heimild framkvæmdarvaldsins til að afhenda þau réttindi varanlega án samþykkis Alþingis og í versta falli sé það óheimilt. Ég vil því segja það alveg skýrt að miðað við stöðu málsins tel ég óvarlegt að það sé gert.