135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[16:01]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar þar sem segir að „afla þurfi sérstakrar lagaheimildar til þess að ráðstafa þeim réttindum með þeim hætti, sem gert er í margumræddu samkomulagi. Því hefði verið rétt og eðlilegt að gera samkomulagið með fyrirvara um samþykki Alþingis“.

Það er nú það eina sem mál þetta snýst um þannig að hér hafa verið látin orð falla sem eru ekki í nokkru samræmi við það sem þessi niðurstaða kveður á um eða það sem fjallað er um í þessari greinargerð Ríkisendurskoðunar. Niðurstaðan samandregin: Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að afla sérstakrar lagaheimildar til þess að ráðstafa þeim réttindum sem samkomulag íslenska ríkisins og Landsvirkjunar frá 9. maí 2007, um yfirtöku vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár, mælir fyrir um. Þetta er ekki flóknara mál en það.

Að gera þetta að einhverju meginmáli þar sem spurningin er um það að afla lagaheimilda til þess að tryggja gildi þessa samnings finnst mér ekki bara vera að gera úlfalda úr mýflugu, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson sagði áðan, við getum alveg eins kallað þetta storm í vatnsglasi.

Það er svo annað mál hvort menn eru inni á því að virkja eigi neðri hluta Þjórsár eða ekki. Við erum að fjalla hér um þessa greinargerð og þessa niðurstöðu og það var sagt í umræðunni áðan, mig minnir að hæstv. fjármálaráðherra hafi talað um að lögfræði væri svo skemmtilegt fyrirbrigði að það væri til margs konar niðurstaða, þær væru ein, tvær eða jafnvel fleiri. Þannig er það nú. Ákveðinn hæstaréttardómari sem kom úr röðum flokks hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri aðeins til ein lögfræðilega rétt niðurstaða og þannig er að sá dómstóll og sá stjórnsýsluaðili sem fjallar um málið kveður upp endanlega niðurstöðu (Forseti hringir.) hvað þetta varðar — og hún liggur fyrir hér.