135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[16:03]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég mótmæli því harðlega að hæstv. fjármálaráðherra svaraði ekki í neinu þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Mér þykir miður að þurfa að nota nú af seinni ræðutíma mínum til að nefna það.

Það er líka greinilegt, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur ekki lesið greinargerðina. Ég bið hann um að gjöra svo vel og aðra hv. þingmenn að lesa það sem segir neðst á bls. 16 í greinargerð ríkisendurskoðanda um það að vegna þess að vatnsréttindi jarðarinnar Þjótanda hafa ekki verið aðskilin frá fasteigninni felist í framsali á þeim, eins og er gert með þessum samningi, brot á 40. gr. stjórnarskrárinnar með því að það sé ekki gert með lagaheimild. Að öðru leyti hvað varðar vatnsréttindi annarra jarða felist í því brot á 29. gr. fjárreiðulaganna (GÁ: … bara yfirlýsing.) með því — þetta er einmitt ekki yfirlýsing og á því tekur ríkisendurskoðandi einnig. Það er erfitt að þurfa að tyggja ofan í hæstv. ráðherra áfellisdóm ríkisendurskoðanda að þessu leyti og slæmt að þurfa að eyða seinni ræðutíma sínum í það.

Ég spyr hv. þm. Kjartan Ólafsson og þá sem hér hafa talað niður til okkar þingmanna Vinstri grænna: Helgar tilgangurinn meðalið? Er það virkilega svo að vilji menn virkja geta þeir bara gert það með hvaða móti sem er, líka með ólögmætum gerningum eins og hér liggja á borðinu?

Ég fagna því hins vegar, herra forseti, að iðnaðarráðherra hefur fullvissað, vil ég segja, þingheim um það að leynisamningar af þessu tagi verði ekki gerðir hér í hans tíð og ef vatnsréttindum í Þjórsá verði nú afsalað (Forseti hringir.) verði það ekki gert nema með samþykki Alþingis.