135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði talið æskilegra að hv. þingmaður, formaður heilbrigðisnefndar, hefði notað meira af ræðutíma sínum í að útlista fyrir okkur í einstökum atriðum hvernig þessar breytingar eigi að fara fram og minni tíma í að bera misskilning upp á minni hlutann. Það var ekkert óskaplega upplýsandi hluti af ræðu hv. þingmanns.

Stjórnarráðslagafrumvarpið og breytingarnar sem þetta er hluti af eru í heild sinni mjög vanbúnar og ætti að fresta því öllu saman. En það vekur sérstaka athygli hvernig hér á að standa að verki af því að það er viðurkennt í forsendum málsins að þessi tilfærsla sé alls ekki tilbúin. Það á ekki einu sinni að reyna að gera tilraun til að láta þetta gilda frá áramótum. Ég hljóp í skarðið, sat fundi í félagsmálanefnd og reyndi að fá botn í það þar hvernig menn hugsuðu sér að þetta gerðist og hvernig ætti að sortera þetta sundur, sérstaklega í blönduðu stofnununum. Svörin voru: Ja, það verður vonandi komið í ljós hvernig það gerist 1. september næstkomandi. Þá skildist mér að ætti að reyna að prufukeyra hið nýja fyrirkomulag.

Ég vil þar af leiðandi spyrja hv. þingmann, formann heilbrigðisnefndar: Hverju sætir að gildistaka málsins í heild sinni, a.m.k. að þessu leyti, sé ekki einfaldlega látin vera frá einhverjum tíma í framtíðinni sem einhver von er til að geti staðist og málið sé tilbúið til framkvæmda?

Í öðru lagi vil ég segja, herra forseti, af því að hv. þingmaður skildi ekki að menn gætu verið á móti því að kostnaðargreina þjónustuna og líta á þetta sem kaup og sölu. Ég ætla bara að svara fyrir mig. Ástæðan hvað mig varðar og ég hygg fleiri er fyrst og fremst sú að heilbrigðisþjónusta, velferð og heilsa fólks, er ekki markaðsvara. Þess vegna geta menn ekki talað eins og það sé einfalt mál að gera þetta að markaði og fara að ástunda kaup og sölu (Forseti hringir.) án fyrirvara með þessa hluti.