135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð ljóst hvað fellur undir heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilunum og yfirleitt hefur verið talað um að í kringum 80% af kostnaði við þá þjónustu sé vegna heilbrigðisþjónustu. Þeir þættir sem snúa að rekstri heimilanna, búsetunni, ræstingum, mat, það sem sem snýr að búhaldi og félagslegir þættir, fara til félagsmálaráðuneytisins.

Ég heyri ekki betur en að fullur vilji og ákveðin eftirvænting sé hjá báðum ráðuneytum, bæði heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, að greiða úr þessum málum, að þetta gangi eftir. Segja má að ráðuneytin hafi svigrúm næsta ár til að greiða úr þessu. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það taki ákveðinn tíma að komast að niðurstöðu um aðgreiningu á þessu og ákveða daggjöld varðandi heilbrigðisþáttinn annars vegar og hins vegar varðandi félagslega þáttinn. (Forseti hringir.) Það ríkir eftirvænting eftir því að fá að klára þetta mál.