135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:37]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki hjá því komist að taka hér til máls vegna ræðu hv. formanns heilbrigðisnefndar vegna þess mikla tíma sem hún eyddi í afstöðu minni hlutans í heilbrigðisnefnd.

Ég hef vanist því að það sé hlutverk þess hins sama minni hluta gera grein fyrir áliti sínu og nú háttar svo til, herra forseti, að að þeim lið er ekki komið á dagskránni. Ég hlýt að mótmæla því harðlega að nefndarálit minni hlutans, sem gerð verður grein fyrir á eftir, byggist á einhverjum misskilningi. Með þeim orðum er hv. formaður heilbrigðisnefndar að segja að umsagnir frá Landssambandi eldri borgara byggist á misskilningi, að umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga byggist á misskilningi og varnaðarorð í umsögnum bæði frá Öryrkjabandalaginu og Alþýðusambandinu líka. Reyndar má líka lesa ákveðin varnaðarorð út úr umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, varðandi flækjustig málsins. Allir þessir aðilar hafi bara misskilið það sem meiri hlutinn er að gera.

Ég vil fullvissa þingheim um að við munum, þegar við fáum til þess hér tíma á dagskrá þingsins, gera grein fyrir afstöðu minni hlutans en hann byggir ekki á misskilningi, hæstv. forseti.