135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:41]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að velkjast í neinum vafa um að við metum þær umsagnir sem koma fram og margar þeirra hafa einmitt sýnt fram á feila, atriði sem okkur hefur yfirsést, þannig að það má alls ekki setja orð mín í þetta samhengi.

Hins vegar varð hv. þingmaður vör við það eins og ég að ákveðinn misskilningur var í gangi, ekki bara varðandi þetta atriði sem ég hef gert að umtalsefni, heldur ýmis önnur. Þetta var ný nálgun sem margir þurftu að fá skýringar á og ýmsir gestir nefndarinnar þurftu virkilega að spyrja og fengu ákveðin svör frá okkur þótt það væri í sjálfu sér ekki verkefni nefndarinnar að svara spurningum gesta heldur öfugt.

Það þarf að gefa ákveðnar skýringar og það er mjög mikilvægt þegar einhver misskilningur er í gangi, eins og sá sem ég hef rætt um, að hann sé leiðréttur því að sá misskilningur getur líka farið út í samfélagið, (Forseti hringir.) farið yfir til heilbrigðisstofnana (Forseti hringir.) og það er full ástæða til þess að halda því til haga og að rétt sé farið með.