135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:45]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður hefur bent á og ýmsir aðrir flokksmenn hans hér á undan tekur það ákveðinn tíma að undirbúa ákveðna þætti eins og t.d. þessa stofnun. Ég tel það mjög skynsamlegt að kveða á um það í bráðabirgðaákvæði í þessu frumvarpi að slík stofnun verði sett á laggirnar, það sé búið að taka ákvörðun um það að hún verði sett á laggirnar og hafinn undirbúningur að því að hún taki til starfa 1. september nk., þannig að mér finnst það mjög eðlilegt að gera þetta með þessum hætti.

Ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmaður er af ýmsum ástæðum mótfallinn slíkri stofnun. Það segir hins vegar í greinargerð með frumvarpinu að eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar sé að kostnaðargreina eigi heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun. Þá segir einnig að þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka.

Er þetta ekki nákvæmlega það sem hv. þingmaður hefur verið að tala fyrir í gegnum árin, að heilbrigðisþjónustan sé fjármögnuð í samræmi við þörf og fjölda verka, þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma? Með slíkri stofnun er verið að setja á laggirnar apparat til þess að takast á við að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna þannig að hún sé rekin fyrir sanngjarnt fé í samræmi við umfang og í samræmi við eðli þjónustunnar. Því hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Er hann mótfallinn því að fé fylgi sjúklingi? Er hann mótfallinn því að heilbrigðisstofnunin fái fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka?