135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum fylgst með fréttum undanfarna daga og við höfum heyrt forsvarsmenn heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa tala um þarfir sínar. Það velkist enginn í vafa um hverjar þær eru og það velkist enginn í vafa um að það er þörf á meira fjármagni, það eru pólitískar deilur um hvert eigi að beina þessu fjármagni. Ríkisstjórnin og fjárveitingavaldið, með stuðningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, neita að láta nægilegt fé af hendi rakna til þessara stofnana svo að þær séu reknar með sómasamlegum hætti.

Á hinn bóginn sjáum við fjármagni og undirbúningi beint í þá átt að greiða götu einkareksturs. Vandinn hér er ekki skipulag, vandinn er pólitískur vilji og vandinn er fjármagn. Fyrst þurfum við að komast að niðurstöðu um að hyggilegt sé yfirleitt að koma á laggirnar stofnun af þessu tagi. (Forseti hringir.) Síðan tökum við aðferðina. Það er það sem ég mæli fyrir, að við frestum því (Forseti hringir.) að veita samþykki fyrir 18. gr. þar til við höfum tekið þá umræðu.