135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:48]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem hv. þingmaður og fleiri flokksmenn hans hafa tekið sem fyrirmyndarheilbrigðisþjónustu er þjónustusamningurinn við sveitarfélagið Akureyri um rekstur heilsugæslu, öldrunarstofnanir og félagslega þjónustu. Þar til grundvallar liggur þjónustusamningur sem heilbrigðisráðuneytið hefur gert við sveitarfélagið Akureyri. Þar er samþætting á þjónustu og það er borgað ákveðið verð fyrir þá þjónustu sem er innan samningsins. Þar er allt saman skilgreint til hlítar ásamt fjármagni sem liggur þar að baki. Er þetta ekki það sem hv. þingmaður mundi óska hverri einustu heilbrigðisstofnun, að hún hafi ákveðið fjármagn til umráða sem byggir á kostnaðargreiningu á þeim störfum sem fara þar fram?

Ég átta mig ekki á hvað það er sem hv. þingmaður er mótfallinn þegar hér er verið að setja upp kerfi til þess að meta þjónustuna og (Forseti hringir.) veita til hennar því fé sem til þarf.