135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:49]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbrn. (Dýrleif Skjóldal) (Vg):

Herra forseti. Þá er loksins komið að því að mæla fyrir nefndaráliti minni hlutans um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun til aldraðra.

Minni hluti heilbrigðisnefndar telur afar mikilvægt þegar gerðar eru umfangsmiklar breytingar á heilbrigðisþjónustu og almannatryggingum að þess sé gætt að allir njóti jafns aðgangs að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og félagslegri stöðu. Einnig telur minni hlutinn að undir engum kringumstæðum megi setja heilbrigðisþjónustu undir skilmála markaðskerfisins þar sem hagnaðar- og viðskiptasjónarmið eru grundvöllur starfseminnar og vísar til umsagnar ASÍ við frumvarp þetta.

Frumvarpinu er í meginatriðum ætlað tvíþætt hlutverk, annars vegar að breyta lögum vegna tilfærslu málaflokka frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis í samræmi við stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og hins vegar að koma á fót nýrri stofnun sem heyri undir heilbrigðisráðuneyti sem sjái um sjúkra- og slysatryggingar ásamt kaupum á heilbrigðisþjónustu.

Í 18. gr. frumvarpsins er fjallað um nýja stofnun sem heyra mun undir heilbrigðisráðherra og ætlað er að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir títtnefndan heilbrigðisráðherra. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skipulag og hlutverk þessarar stofnunar í sérstöku frumvarpi sem lagt verði fram á vorþingi árið 2008. Hlutverk og starfsemi þessarar stofnunar er því algerlega óskilgreint og því teljum við eðlilegast að fella þessa grein niður.

Minni hlutinn telur hætt við að slegið verði af faglegum kröfum um læknis- og hjúkrunarþjónustu á öldrunarstofnunum gangi ákvæði 20. gr. frumvarpsins fram. Minni hlutinn ítrekar að öldrun er ekki sjúkdómur en henni fylgja gjarnan veikindi og oftar en ekki fjölþættir sjúkdómar. Slíkir einstaklingar þurfa ekki einungis öldrunar- og umönnunarþjónustu, heldur líka faglega læknis- og hjúkrunarþjónustu. Vandséð er hvernig fjárveitingar til að tryggja nauðsynlega mönnun fagmenntaðs fólks eigi að fást þegar fagleg yfirstjórn og fjármögnun er í höndum annars ráðuneytis. Því telur minni hlutinn að umræddur flutningur á faglegri yfirstjórn og fjármögnun geti leitt til þess að áherslur á hjúkrunarþjónustu á hjúkrunarheimilum breytist yfir í áherslur á almenna öldrunar- og umönnunarþjónustu. Það yrði mikil afturför og skerðing. Minni hlutinn hvetur því til endurskoðunar á þeim hugmyndum sem fram koma í frumvarpi þessu um að færa faglega yfirstjórn og fjármögnun hjúkrunarheimila frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Í 36. gr. frumvarpsins er fjallað um gildistöku nýrra laga en lögin eiga að öðlast gildi 1. janúar 2008. Minni hlutinn telur þá dagsetningu óraunhæfa í ljósi ónógs undirbúnings og þess að hvorki er gert ráð fyrir framlögum í fjárlögum til hinnar nýju stofnunar né viðbótarframlagi til Tryggingastofnunar vegna þess kostnaðar sem hlýtur að lenda á þeim, á borð við aukið vinnuframlag starfsmanna við uppstokkun stofnunarinnar. Það gefur alveg augaleið að það þarf að breyta miklu í starfsemi Tryggingastofnunar og að byggja upp aðra stofnun frá grunni enda er gert ráð fyrir því í frumvarpi þessu að breytingin hafi komið að fullu til framkvæmda frá og með 1. september 2008.

Minni hlutinn tekur undir og vísar til álits minni hluta allsherjarnefndar þar sem lagt er til að svonefndum bandormi um tilflutning verkefna milli ráðuneyta verði vísað frá. Ljóst er að frumvarp þetta um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun til aldraðra hefði með réttu átt heima í áðurnefndum bandormi.

Leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem frumvarp þetta er afar illa undirbúið og einungis tilkomið vegna ágreinings milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þegar ég var að fletta þessum blöðum fram og til baka og skoða 18. gr. vel og vendilega komu mér í hug orð Axels Halls sem kom á fund nefndarinnar. Axel Hall hefur unnið stórt verkefni um svona stofnun eins og fyrirætlað er að koma á fót. Þar tók hann skýrt fram að þeir sem færu með þessa stofnun yrðu að vita hvað þeir væru að kaupa. Það væri ekki nóg að ætla að kaupa eitthvað af einhverjum sem vissi hvað hann væri að selja ef maður vissi ekki hvað maður væri að kaupa.

Í áðurnefndri 18. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi.“

Ég verð að segja að í ljósi orða Axels finnst mér þetta afar skrýtið. Er verið að segja að það sé nóg að hafa háskólapróf í hverju sem er? Mér þótti það ekki vera svo í máli Axels, hann tók það mjög skýrt fram að menn yrðu að vita hvað þeir væru að gera. Það er ljóst að 18. gr. þarfnast endurskoðunar við. Ég tek því undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar og legg til að að minnsta þessari grein verði vísað frá eða frumvarpinu öllu.