135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:59]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbrn. (Dýrleif Skjóldal) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að við höfum miklar áhyggjur af því að þessi fjármögnun muni ekki verða á höndum rétts ráðuneytis er sú að mikill hluti þessara stofnana er nú þegar í lögum skilgreindur sem dvalar- og hjúkrunarheimili. Þegar eldra fólk sem kemur inn á stofnun — þó að þeim fari vissulega fækkandi, ég tek undir það, sem koma inn sem eingöngu aldraðir á slíkar stofnanir, þar sem ekki eru nægar stofnanir til til að taka á móti þeim og fólk er orðið miklir sjúklingar þegar það loksins kemst þangað — þá er afar stutt þetta bil á milli þess þegar maður hættir að vera bara gamall og fer að verða sjúklingur að auki.

Ég hef unnið töluvert inni á stofnunum með aldrað fólk, og ég set mikla fyrirvara á, tökum sem dæmi föndur, sem hlýtur að flokkast undir félagslega færni fólks, og ég spyr mig hvenær er föndur orðið sjúkraþjálfun? Ef þetta á að vera á milli tveggja ráðuneyta, annars vegar félagsmálaráðuneytis og hins vegar heilbrigðisráðuneytis þá er svona mál dæmigert til að lenda í því að falla á milli skips og bryggju. Hvorugur vill eiga það. Hvaðan á fjármagnið að koma? Þetta er alveg nauðsynlegur hluti þó að þetta sé lítilvægt atriði. (Forseti hringir.) Það er ósköp einfalt að taka matinn og segja: Maturinn sem þú borðar er eingöngu á vegum félagsmálaráðuneytisins, en ekki svona lagað.