135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:29]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem ekki hingað upp til að gera athugasemdir við málflutning hv. þm. Kristins Gunnarssonar heldur þakka ég honum öllu fremur fyrir málefnalega umfjöllun um málið. Við erum ekki sammála um framgang þess en í kjarna frumvarpsins eru þau sjónarmið og markmið að skilja á milli félagsmála og heilbrigðismála, að færa mál sem snúa að félagslegu hliðinni yfir til félagsmálaráðherra. Ég hef ekki heyrt annað í umræðunni eða frá þeim sem gerði umsögnina en að frumvarpið hafi fengið jákvæð viðbrögð, það sé rétt stefna og í raun réttlætismál, ekki síst gagnvart öldruðu fólki því að ekki á að flokka það sem sjúklinga þótt það sé komið á efri ár.

Inn í umræðuna hafa svo blandast viðhorf sem snúa að nýrri stofnun eða stofu á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem á að hafa það hlutverk að kaupa, selja og ganga frá samningum að því er varðar heilbrigðisþjónustu sem þegar er veruleiki og hefur hún verið starfrækt af einkaaðilum eftir atvikum. Þar er gerð tilraun til að kostnaðargreina þjónustuna og ég vil sérstaklega taka fram að ekki er um einkavæðingu að ræða heldur er reynt að nýta þá þjónustu og þekkingu sem einkaaðilar geta lagt inn í almenna heilbrigðisþjónustu sem við rekum af miklum myndarskap á landinu. Ég get því ekki séð neitt hættulegt við það. Auðvitað eru margvísleg vandamál sem koma upp við breytingu af þessu tagi í Stjórnarráðinu og á verkefnum ráðuneyta en við tökum á því þegar þar að kemur. (Forseti hringir.) Ég held, herra forseti, að eftir atvikum sé ekki eftir neinu að bíða.