135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður og formaður heilbrigðis- og tryggingamálanefndar, Ásta Möller, fór yfir þann misskilning sem kom fram í minnihlutaáliti um þetta frumvarp, hvar ábyrgðin liggur á hjúkrunarþættinum í þessu frumvarpi og þar með talið hjúkrunarrýmum, og ég sé enga ástæðu til að fara meira yfir það nema til þess sé sérstaklega ætlast, en það liggur alveg skýrt fyrir og kemur fram bæði í lagafrumvarpinu og í skýringum við það.

Varðandi spurningarnar sem beint var til mín um 18. gr., hvenær á að skipa stjórn og ráða forstjóra o.s.frv., er rétt að hafa í huga að gert er ráð fyrir að ný stofnun taki til starfa í síðasta lagi 1. september á næsta ári og því þarf að flytja lagafrumvarp, ekki bara um þessa stofnun heldur líka um þá stofnun sem byggð verður á grunni Tryggingastofnunar og snýr að félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Það liggur fyrir að þetta á við um báðar stofnanirnar. Þess vegna er æskilegt að ný stofnun eða forstjóri og stjórn taki til starfa sem fyrst og komi að þeim undirbúningi.

Ég verð að viðurkenna að þetta rekst svolítið hvað á annars horn þar sem alla jafna er verið að tala um, og hefur ríkisvaldið eða framkvæmdarvaldið verið gagnrýnt fyrir það, að ekki sé vandað nóg til undirbúnings og ekki tekinn nógu góður tími í hann. Í þessu tilviki eru menn svo sannarlega að taka góðan tíma í grunninn að þessari stofnun, enda skiptir það miklu máli. Þó svo að fyrirmyndirnar liggi fyrir og þetta sé vel þekkt annars staðar þá skiptir máli að (Forseti hringir.) vanda vel til þessa undirbúnings og það er nokkuð sem menn ætla að gera.