135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:10]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá hefur það verið upplýst hér að meiningin er að skipa fimm manna stjórn og auglýsa eftir forstjóra og ráða hann til fimm ára áður en lagt verður fram frumvarp um innviði þessarar stofnunar sem fyrirhugað er að setja á laggirnar og áður en Alþingi hefur fengið að fjalla um hvernig þessi stofnun á að starfa og um hvað hún á nákvæmlega að fjalla.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég átti í rauninni ekki von á að þetta yrði svarið. Það þarf ekki að kosta óvandaðan undirbúning að byrja ekki á því að ráða stjórn og forstjóra áður en búið er að koma stofnuninni á fót með lögum. Menn ráða einfaldlega ráðgjafa eða kaupa sér þjónustu og nýta til þess þá starfsmenn sem fyrir eru í báðum ráðuneytum og í Tryggingastofnun ríkisins. Ég sé þess vegna ekki að nauðsyn þess að vanda málið vel eða undirbúning þess kalli á gildistöku 18. gr. og heldur ekki að byrja þurfi á því að ráða forstjóra og stjórn áður en frumvarp um starfsemi stofnunarinnar er fætt.