135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki eins og menn séu að koma á fót stofnun sem enginn veit hvað á að gera. Það kemur fram í lagatextanum hvað hún á að gera og það kemur fram í stjórnarsáttmálanum líka hvaða leið menn vilja fara í þessu, þannig að það er algjörlega skýrt. Ef menn lesa 18. gr. kemur skýrt fram hvað þessi stofnun á að gera. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á þessum málflutningi.

Það getur vel verið að menn takist á þegar fram kemur lagafrumvarp um þessa stofnun eða hina stofnunina og menn séu ekki sammála um einstaka þætti. Það er bara allt í lagi. Kannski eru menn algjörlega ósammála því að stofna þessa stofnun. Það er líka allt í lagi. En það er ekki rétt að halda því fram að menn viti ekki hvað verið er að fara út í, því að það liggur fyrir og kom fram þegar sá sem hér stendur flutti málið, það hefur komið fram í ræðum hv. formanns heilbrigðisnefndar, Ástu Möller, og hefur komið fram hvað eftir annað. Það er ekki neitt leyndarmál og kemur hér fram í textanum.

Hins vegar er alveg ljóst, og nú geta menn gagnrýnt það og sagt að það eigi að gera þetta einhvern veginn allt öðruvísi, kaupa ráðgjafa eins og það sé eitthvert markmið í sjálfu sér hve margir muni koma að undirbúningi, menn geta gagnrýnt ýmislegt en það liggur alveg hreint og klárt fyrir að menn vilja vanda til undirbúningsins. Hann er reyndar hafinn á vettvangi ráðuneytisins en menn vilja vanda eins vel til verka og mögulegt er og ég mundi nú ætla að þingmenn fögnuðu því.