135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni hefur orðið tíðrætt um breytt kerfi, breytt fjármögnunarkerfi o.s.frv. og honum hefur líka orðið tíðrætt um Landspítalann. Honum er kunnugt um að það er stefna ríkisstjórnarinnar að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun.

Í sambandi við Landspítalann er það akkúrat hann sem hefur sérstaklega gengið eftir því að breyta fjármögnun úr föstum fjárlögum sem hafa ekki reynst spítalanum neitt sérstaklega vel að hans mati yfir í að kostnaðargreina og fá greitt fyrir þjónustuna eftir svokölluðu DRG-kerfi, að það sé blanda af föstu fé og síðan afkastatengdu eða árangurstengdu eða magni eða hvernig sem við viljum líta á það.

Ég tel að með því að kostnaðargreina þjónustuna og með því að ríkið fái í hendurnar skilgreiningu á þeim verkum sem það kaupir fyrir hönd almennings séum við að ná því markmiði að heilbrigðisstofnanirnar fái fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Það er nákvæmlega það sem hefur verið keppikefli ýmissa stofnana, þær segja að þær séu að vinna meira en fjármögnun segir til um.

Ég skil ekki andstöðu hv. þingmanns við þessa aðferðafræði því að hún getur akkúrat náð því að stofnanirnar fái það fjármagn sem til þarf, og ríkið fær í hendurnar tæki sem snýr að því hvaða verk eru unnin fyrir hönd almennings. Andstaða hv. þingmanns vekur stöðugt furðu mína. Stöðugt.