135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hvað veldur því að við tökum þessa afstöðu er ekki annað en stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og fagnaðaróp hæstv. forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins og hvatning hans til síns fólks í Valhöll síðasta haust um að taka til hendinni við að koma á einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni.

Við erum ekki alveg blind. Við höfum fylgst með þeim lagabreytingum sem hafa verið keyrðar í gegnum þingið á undanförnum árum. Allt myndar þetta smám saman samfellu, nýju heilbrigðislögin í fyrra um að auðvelda (ÁMöl: Sem þið samþykktuð.) einkarekstur (Gripið fram í: Þið samþykktuð þetta.) sem við … Hv. þm. Ásta Möller veit nákvæmlega hvaða fyrirvara og efasemdir við höfðum, ekki síst sá sem hér stendur, enda ræddum við þau mál á sínum tíma. (Gripið fram í.) Þetta þekkir ráðherrann.

Við horfumst bara í augu við það núna að það er pólitískur ágreiningur um hvernig eigi að skipuleggja heilbrigðiskerfið á Íslandi. Það er djúpstæður pólitískur ágreiningur um það. Og við segjum: Tökum þá umræðu, stígum hægt. Við erum með mjög gott heilbrigðiskerfi. Við erum með blöndu af almannareknu kerfi og einkareknu. Sú blanda hefur reynst okkur farsæl. Ég er ekkert á móti þeirri blöndu, alls ekki.

Ég hefði viljað taka tannlæknaþjónustuna inn í almannakerfið í ríkari mæli en er. Ég vildi það. En ég vil ekki ganga lengra út á braut einkarekstrar, og um það hvar þessi landamæri eiga að liggja er ágreiningurinn.

Varðandi sjúkrahúsin í kraganum og á Akureyri, að það eigi að vísa verkefnum þangað — þau eru fjársvelt líka. (Gripið fram í: Nei, nei.) Þetta er pólitísk ákvörðun, gott og vel, að vísa (Forseti hringir.) verkefnum til þessara sjúkrahúsa — en hvar eru peningarnir? Menn spyrja um þá á þessum bæjum.