135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þetta athyglisverða og málefnalega innlegg í umræðuna. Ef það er rangt hjá mér að þau boð hafi gengið frá heilbrigðisráðuneytinu eftir að hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson tók þar við embætti að menn ættu að nýta sér markaðslausnir, einkarekstrarformið í eins miklum mæli og hægt væri innan heilbrigðiskerfisins, ef það er rangt að þessi boð hafi gengið út sem eru í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins, yfirlýsingar formanns flokksins aftur og ítrekað, hlýt ég að biðjast afsökunar á því að hafa farið með rangt mál.

Þá eru það fróðlegar upplýsingar fyrir heilbrigðiskerfið almennt að þetta sé bara misskilningur vegna þess að ég hef heyrt frá forsvarsmönnum innan heilbrigðiskerfisins að þessar áherslur séu nú uppi í ráðuneytinu og komnar frá hæstv. heilbrigðisráðherra sjálfum. Ef það er rangt hjá mér, ef þetta er alls ekki svona, og það eigi að nýta sér hið samfélagslega form eru það bara mjög fróðleg skilaboð frá Alþingi og ríkisstjórn og hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég hlýt þá bara að biðjast afsökunar á þessum misskilningi sem ég hef leyft mér að bera hér á borð.