135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að allir hljóti að gera sér grein fyrir því eða a.m.k. ættu menn að vera farnir að átta sig á því núna að umræða um þetta mál hefði orðið talsvert öðruvísi ef hæstv. heilbrigðisráðherra hefði sleppt því að taka smyglgóssið með sem er að finna í 18. gr. frumvarpsins. Það er nokkur skaði að það bitbein tekur upp, eðli málsins samkvæmt, mestan tíma manna, a.m.k. okkar sem erum að gagnrýna það, vegna þess að hitt efni frumvarpsins sem á að heita meginefni þess, þ.e. ákvæðin sem lúta að breyttri verkaskiptingu og flutningi málefna aldraðra frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis, verðskuldar ítarlega umræðu og margt er enn á huldu um hvernig þar á að standa að málum. Málið er algerlega tvíþætt þótt það tengist á vissan hátt heildarviðfangsefninu sem er bandormur ríkisstjórnarinnar um breytingar á Stjórnarráðinu og til varð upp úr samkomulagi stjórnarflokkanna um myndun ríkisstjórnar síðasta vor.

Það sem er dálítið athyglisvert við það mál er að í gegnum tíðina hafa menn oft rætt um þörfina á að breyta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og þá hefur jafnan verið talað um og lögð mikil áhersla á að um slíka hluti þurfi að ná góðu samkomulagi, slíkt þurfi að undirbúa mjög vel og ekki megi vera nein lausung eða los á því þegar það yrði gert. Ég hygg meira að segja að hæstv. forsætisráðherra hafi einmitt notað slík orð þegar hann var að spyrjast fyrir um hvort e.t.v. væri færi á að gera einhverjar slíkar breytingar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og með þeim rökum þá að langheppilegast væri að slíkt væri frágengið og lægi fyrir við kosningar þannig að ekki væri hætta á að slíkir hlutir færu að blandast inn í stjórnarmyndun. En hvað gerðist svo? Það var nákvæmlega þetta sem gerðist og afleiðing þess er sú að við sitjum uppi með ákaflega hraðsoðnar hugmyndir um hvernig þetta eigi að ganga fyrir sig. Þetta verður að taka gildi um áramótin. Af hverju verður þetta að taka gildi um áramótin? Af því að stjórnarflokkarnir ákváðu það í vor, jafnóendanlega vitlaust og það var, að negla sig niður fyrir fram með að þetta skyldi gerast núna um áramótin og þvinguðu í gegn á vorþinginu, eins og menn muna, breytingar á nefndaskipan Alþingis og breytingar á nafngiftum ráðuneyta út í loftið út á það sem í vændum væri um áramótin.

Hvað kemur svo á daginn þegar fara á í verkefnin, t.d. þennan flutning viðfangsefna milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis? Það kemur auðvitað á daginn að málið er ekki tilbúið, ekki á nokkurn hátt. Menn viðurkenna það í forsendum málsins, menn viðurkenna það að vissu marki í greinargerð með frumvarpinu og meiri hlutinn viðurkennir það í nefndaráliti sínu. Það má út af fyrir sig hrósa meiri hlutanum fyrir það, það er heiðarlegt að viðurkenna að málið sé ekki tilbúið en það á samt að ganga í gildi. Ég held að það séu ekki aðallega einhver tölvukerfi og annað því um líkt sem er snúið í þessum efnum. Það er auðvitað algerlega óleyst mál hvernig verkefnin verða sorteruð upp í blönduðu stofnununum og hvernig menn ætla að ganga frá því að hjúkrunarheimilin heyri í raun undir yfirstjórn tveggja ráðuneyta. Stundum hefur verið sagt þegar menn tala um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga að það sé vont að hún sé mjög óhrein, og það var mikið trúboð, a.m.k. á ákveðnu árabili, að þar yrðu alltaf að vera algerlega hrein verkaskipti, því að það væri svo vont ef hlutir sköruðust, þá væru menn að togast á um ábyrgðina og því gæti fylgt kostnaður, sóun, af því að menn reyndu að koma ábyrgð og kostnaði hver yfir á annan. Auðvitað er nokkuð til í því að það hefur stundum gengið þannig. Aðallega er það þá ríkið sem í krafti aflsmunar og stöðu sinnar níðist á sveitarfélögunum en ekki öfugt.

Hér koma upp mjög sérstakar aðstæður að þessu leyti og hver er lausnin? Hún er sú að þetta verði að reddast og verði vonandi tilbúið 1. september nk. Það segir í greinargerð með frumvarpinu, og meiri hlutinn tekur það upp í nefndarálit sitt og „vekur athygli á athugasemdum í greinargerð við lagafrumvarpið“, eins og þar segir „… að nokkurn tíma muni taka að skilja á milli almennrar öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu við aldraða og að gert sé ráð fyrir að ráðuneytin skilgreini þessa þætti nánar og móti hvernig samskiptum við öldrunarstofnanir og greiðslum til þeirra verði háttað í framtíðinni.“

Þetta er allt eftir. Annars þyrfti ekki að taka svona til orða. Svo er rúsínan í pylsuendanum sú að annað frumvarp er boðað um frekari breytingar á lögum um málefni aldraðra á vorþingi 2008 og stefnt að því að þeirri vinnu verði lokið fyrir 1. september 2008. Af hverju er þessu bara ekki slegið á frest, þetta boðaða frumvarp flutt, lögin sett, viðfangsefnið undirbúið þannig að hægt sé að bera það á borð fullbúið og taka afstöðu til þess? Þetta er að mínu mati ekki sá vandaði undirbúningur og ekki þau faglegu vinnubrögð sem æskileg væru í tilvikum sem þessum. Ég held að það sé að mörgu leyti ágætt mál að fara út í þá breytingu að flytja málefni aldraðra sem slík og þjónustu við aldraða aðra en heilbrigðisþjónustu til félagsmálaráðuneytisins og að mörgu leyti skynsamleg breyting en málið líður fyrir að vera borið hér inn illa undirbúið og í raun og veru er öll vandasamasta og viðkvæmasta vinnan eftir. Auðvitað hafa farið sögur af miklum átökum bak við tjöldin á milli heilbrigðisráðuneytis annars vegar og félagsmálaráðuneytis hins vegar og því er ekki alveg sjálfgefið að allt verði í einhverju logni þegar sú vinna sem boðuð er í nefndaráliti meiri hlutans fer loksins í gang .

Síðan vil ég víkja aðeins að kostnaði við þetta mál og hinni kostulegu kostnaðargreiningu fjármálaráðuneytisins. Eiginlega er það alveg stórkostlegt að ráðuneytið skuli láta sér detta í hug að setja það á blað, fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins, að þessu fylgi enginn kostnaður. Meira að segja meiri hlutinn er hálfvandræðalegur út af því og kemur inn á það í nefndarálitinu að oftast megi reikna með einhverjum kostnaði þegar svona er í gangi. En fjárlagaskrifstofan fer í gegnum málið með því að segja, með leyfi forseta:

„Í meginatriðum felur frumvarpið fyrst og fremst í sér orðalagsbreytingar“ — ég veit ekki hvaða einkunn sá ágæti maður fengi fyrir stíl sem setti þetta á blað, ég geri ekki ráð fyrir að það sé fjármálaráðherra sjálfur — „sem tengdar eru flutningi málaflokka á milli ráðuneyta og er því ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði við framkvæmd verkefna heldur eingöngu færslu fjárheimilda á milli ráðuneyta.“

Af því að í meginatriðum feli það fyrst og fremst í sér orðalagsbreytingar. Trúir því nokkur maður að þessu muni ekki óumflýjanlega fylgja umtalsverður kostnaður? Ég held að það hljóti að vera. Eitthvað kemur standsetning nýju stofnunarinnar samkvæmt 18. gr. til með að kosta. Eitthvað kemur sorteringin til með að kosta. Eitthvað kemur það til með að kosta að taka á móti verkefnunum á nýjum stað. Síðan er sagt að af því að koma eigi sérlög eða flytja eigi sérstakt frumvarp um nýju stofnunina sem verði kostnaðarmetið þegar það kemur fram þá er málið afgreitt svona, að þetta muni ekki kosta neitt. Mér finnst ákaflega sérkennilegt að bera það á borð fyrir Alþingi að hér sé ekki verið að stofna til neins sérstaks kostnaðar og að því marki sem það kunni kannski að gerast þá verði það metið seinna þegar frumvarpið um stofnunina kemur fram.

Virðulegur forseti. Þetta eru allt rök fyrir því að hyggilegast væri að fresta þessum pakka í heild sinni, eins og reyndar er lagt til hér, og í nefndaráliti minni hlutans er frávísun á málið sem er í samræmi við afstöðu okkar í stjórnarráðsbandormsmálinu í heild sinni að öllum pakkanum verði frestað og ráðherrarnir verði að láta sig hafa að að sitja undir þeim nöfnum sem þeir fengu á ráðuneytið strax í vor þó að verkefnin endurspegli það ekki enn um sinn.

Þá langar mig að víkja aðeins betur 18. gr. frumvarpsins, um þetta sérstaka ákvæði til bráðabirgða sem þar á að bætast við lögin um heilbrigðisþjónustu og ég hef kallað fyrr í umræðu um þetta „smyglgóss“, þ.e. þetta er í eðli sínu í raun atriði sem er óskylt hinum sem frumvarpið hefur að geyma. Þarna er hæstv. heilbrigðisráðherra einfaldlega að fá far fyrir þetta ákvæði til að koma þeirri hugsjón sinni í framkvæmd að stofna þessa innkaupastofnun í heilbrigðismálum, búa til þessa markaðsbúð sem þarna á að verða til.

Mönnum hafa sjálfsagt verið mislagðar hendur á köflum þegar þeir hafa stofnað til nýs rekstrar á vegum hins opinbera en mér er til efs að Alþingi hafi áður verið boðið upp á annað eins, þegar setja á á fót heila nýja, opinbera stofnun með þeim hætti sem hér er lagt til, að í örfáum línum fái ráðherrann heimild til að stofna nýja ríkisstofnun, ráða henni forstjóra, setja henni stjórn og stjórninni erindisbréf, bara blankó. Seinna komi lög svo um viðfangsefni þessarar stofnunar. Það er ekki eins og hér eigi hvað sem er í hlut. Hér eiga í hlut hvorki meira né minna en viðamiklir hlutar heilbrigðiskerfisins, undirstaða velferðarþjónustu í landinu, og lögin sem eiga að skilgreina viðfangsefnið eiga bara að koma eftir á.

Þegar betur er að gáð er margt við þessa grein að athuga. Ég tek t.d. eftir því að forstjórinn, sem ráðherrann á að fá vald til að skipa þarna til fimm ára í senn fyrir stofnun sem á svo að fá lög undir sig eftir á, skal hafa lokið námi á háskólastigi. Er þetta ekki stofnun á heilbrigðissviði? Væri þá ekki eðlilegt að skilgreina einhverjar faglegar kröfur? Hverju sætir að það skuli ekki eiga að vera háskólamenntaður maður með sérfræðiþekkingu á heilbrigðismálum? Getur það verið vegna þess að hæstv. ráðherra vill hafa það opið að ráða bisnessmann, mann með háskólapróf í rekstri, í því að græða peninga kannski, en ekki fagmann á sviði heilbrigðisþjónustu og þess vegna þurfi að orða þetta svona? Það er kannski ekki alveg diplómatískt, hugsar ráðherrann, að segja það beinlínis að hann sé með í huga að ráð bissnessmann, einhvern svona kaupahéðinn, en það skal alla vega ekki vera bundið að það sé einhver með sérfræðiþekkingu á heilbrigðisþjónustu.

Síðan á ráðherrann að skipa fimm menn í stjórn. Er einhver leiðsögn að öðru leyti um það hvernig stjórnin skuli saman sett? Nei, ráðherrann á að fá blankó alræðisvald um það. Kannski á það að koma í nýju lögunum seinna meir hvernig stjórnirnar verða skipaðar í framtíðinni en ekki hér alla vega. (Gripið fram í: Til fimm ára.) Til fimm ára. Er eitthvað þarna um að einhverjir t.d. eigi tilnefningarrétt inn í stjórnina? Nei. Er einhver trygging fyrir því t.d. að starfsfólk í heilbrigðisgeiranum komi til með að eiga einhverja aðild að stjórn þessarar mikilvægu stofnunar? Nei. Ráðherrann ræður því bara sjálfur. Hann getur skipað þarna fimm alveg svellharða sjálfstæðismenn úr atvinnulífinu ef honum sýnist svo. (Gripið fram í.) Eitthvert starfsmannalýðræði? Nei, nei, aldrei heyrt það nefnt.

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta ekki ganga. Mér finnst ekki hægt að setja á fót ríkisstofnun á þennan hátt, að framselja til ráðherra jafngríðarlegt vald og þarna á að gera með þessu, algjörlega opið, og svo ræðst það bara eftir á hvort síðar meir verða gerðar einhverjar kröfur eða sett einhver skilyrði, t.d. tryggt að einhverjir eigi þarna aðild að stjórn stofnunarinnar o.s.frv.

Mér finnst algjörlega óboðlegt að bera þetta svona upp fyrir Alþingi og ég held að það minnsta sem hæstv. ráðherra og meiri hlutinn geti gert sé að kalla þennan þátt málsins til baka. Hér er að vísu flutt frávísunartillaga á málið í heild og hún kemur náttúrlega fyrst til atkvæða en ég held að það sé alveg sjálfgefið að verði ekki fallist á þá frávísun hljótum við að hugleiða að flytja breytingartillögu í öllu falli ef málið heldur áfram, um að fella út 18. gr.

Hér hefur farið fram nokkur umræða um það í hvaða mæli þetta er angi af eða undirbúningur undir grundvallarstefnubreytingu í heilbrigðismálum. Eðlilega ræða menn það, nema hvað? Ég held að mjög þarft og tímabært sé að taka um það umræðu á Alþingi og láta Sjálfstæðisflokkinn ekki komast upp með að ryðja þessa braut án þess að gangast við þeirri stefnu sem hann er virkilega að fara að innleiða hér. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn hafi áttað sig á að það er kannski ekki sérstaklega vinsælt að segja það berum orðum og blátt áfram og upphátt hvað fyrir honum vakir. Því er farin svona mjúk leið en hún liggur í sömu átt. Því miður er enginn vafi í mínum huga að þangað er stefnt. Stefnt er inn í miklu umfangsmeiri einkarekstur í kerfinu og þar með verður það blandaðra og blandaðra. Þar með skapast allar sömu hættur og við þekkjum á því að kerfið verði tvöfalt og á endanum, ef illa tekst til, gætum við setið uppi með, ekki bara óskilvirkara kerfi og ekki bara kerfi þar sem hættan á mismunun vex, heldur það sem ekki er síður alvarlegt, dýrara kerfi. Því veruleikinn er auðvitað sá þegar heilbrigðiskerfin eru borin saman að það kerfi sem hefur umfangsmesta einkareksturinn, og byggir mest á þeirri hugsun sem menn eru upp að vissu marki að fikra sig hér inn á og kalla fallegum nöfnum, kostnaðargreiningu og annað í þeim dúr, það kerfi er dýrast.

Bandaríska heilbrigðiskerfið, jafngötótt og það er og jafnstóran hluta þjóðarinnar og það skilur út undan, er dýrasta kerfi í heimi af því að þar koma til sögunnar ýmsir milliliðir sem hirða sitt, vilja fá arð og ávaxta sitt pund inni í kerfinu og taka sinn gróða út úr því. Þegar upp er staðið borga skattborgararnir og sjúklingarnir til samans miklu meira fyrir heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum en nokkurs staðar annars staðar í heiminum og langhæsta hlutfall af þjóðartekjum þeirrar ríku þjóðar fer til að reka þeirra gloppótta heilbrigðiskerfi.

Það er athyglisvert t.d. að skoða samanburð á bandaríska kerfinu og því kanadíska og ræða við Kanadamenn sem líta á það sem ein mestu forréttindi við það að vera Kanadabúi að hafa ekki heilbrigðiskerfi eins og er sunnan landamæranna. Mjög algengt er að heyra það í Kanada að þar telji menn alveg sérstaklega til tekna því að búa í Kanada að þeir búi við heilbrigðiskerfi í norrænum anda.

Tvær undirstöður þessa kerfis hafa verið ræddar hér lítillega. Í gær var rætt um heilsugæsluna og fjársveltið sem hún hefur búið við og alveg sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Á hinum endanum er Landspítalinn, flaggskip sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu í landinu. Þessar tvær stoðir eru náttúrlega undirstöður heilbrigðiskerfis okkar. Þótt mikil starfsemi sé þar á milli og allar heilbrigðisstofnanir sinni mikilvægu hlutverki er það samt alveg þess virði að velta aðeins fyrir sér stöðu og hlutverkum, upphafs og endis ef svo má að orði komast í heilbrigðisþjónustunni, undirstöðunnar, heilsugæslunnar annars vegar og Landspítalans hins vegar.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að einn af veikleikunum í heilbrigðiskerfi okkar og uppbyggingu þess sé hin sundurlausa heilbrigðisþjónusta, heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að hluti vandans liggi í því að því viðfangsefni sem heilbrigðislögin, sem sett voru á 8. áratugnum, áttu að tryggja, uppbygging grunnheilsugæslukerfisins í landinu, var aldrei lokið á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í: Og er ekki enn.) Og er ekki enn. Það kerfi er allt of götótt og brotakennt og þúsundir manna meira að segja án heimilislækna. Sem betur fer tókst nokkuð myndarlega að ljúka þeirri uppbyggingu almennt á landsbyggðinni og það hefur haft gífurlega mikla þýðingu fyrir þessa undirstöðuvelferðarþjónustu þar. Aðalvandinn síðan hvað snertir landsbyggðina hefur verið mönnunarvandinn, að fá t.d. lækna til starfa við erfiðar aðstæður í einmennings- eða tvímenningshéruðum.

Ég tek gjarnan dæmin, virðulegi forseti, af heilsugæslustöðinni á Akureyri sem er ein stærsta, ef ekki sú stærsta, og öflugasta í landinu. Ég held að kerfið á Akureyri, og er ég þá ekki að tala sérstaklega um samninginn sem verið hefur við bæinn um að annast rekstur heilsugæslunnar heldur bara grunnskipulagið og uppbygginguna eins og hún er þar, sé það langbesta sem við getum haft. Á heilsugæslustöðinni á Akureyri eru saman á einum stað allir þeir undirstöðuþættir sem þar eiga að vera, í öflugri stofnun sem veitir bæjarbúum og nágrenninu í Eyjafirði geysilega góða þjónustu, metnaðarfulla og góða þjónustu og þar er haldið utan um allt á einum stað.

Þetta hefur ekki tekist höfuðborgarsvæðinu, því miður, bæði vegna þess að uppbyggingunni hefur aldrei verið lokið almennilega og svo hafa verkefnin jafnvel verið að tvístrast sem er auðvitað alls ekki til góðs. Þegar þetta er gert eins og á Akureyri, sem að mörgu leyti hefur gefist mjög vel, að sveitarfélagið hefur tekið við rekstri heilsugæslunnar og getur samþætt hana ýmissi annarri starfsemi sem er á þess vegum, þá held ég að komið sé upp módel sem væri ákaflega æskilegt að líta til víðar. Það ætti í raun og veru að vera grunnmódelið alls staðar og setja ætti stóraukna krafta í að efla heilsugæsluna, forvarnirnar og undirstöðuþjónustuna, vegna þess að það sparar mikla peninga fyrir utan allt sem því fylgir í formi betra heilbrigðis og meiri vellíðunar.

Ég verð að játa það, herra forseti, að ég hef alltaf verið dálítið hallur undir tilvísunarfyrirkomulag, t.d. einhvers konar valfrjálst tilvísunarkerfi vegna þess að þannig finnst mér heilbrigðisþjónustan vera best skipulögð. Að alltaf sé reynt að takast á við málin á frumstigi, á neðsta þrepi þjónustunnar í öflugri vel skipulagðri undirstöðuheilsugæslu sem greiði úr málum eftir því sem hún getur og vísi þeim síðan áfram eftir því sem þörf er.

Á hinum endanum, ef svo má að orði komast, er svo Landspítalinn, flaggskipið, miðstöð sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu í landinu. Ég held að aumingja Landspítalinn, ef mér leyfist að orða það svo með mikilli virðingu fyrir þeirri góðu stofnun, njóti oft ekki sannmælis vegna þess að menn hafa kannski ekki alltaf í huga og átta sig ekki á í hvaða stöðu hann er. Hann getur aldrei vísað verkefnunum neitt annað, hann hefur engan fyrir ofan sig. Þar safnast upp erfiðustu og dýrustu viðfangsefnin. Þar er tekist á við að veita veikasta fólkinu þjónustu og það er allt annar heimur en þar sem menn eru með minni stofnanir, eða litlar stofur, og geta valið sér þau verkefni sem aðstæður þeirra leyfa og þeir ráða auðveldlega við, það frískt fólk að það getur komið inn á morgnana og farið heim á kvöldin.

Hugsum okkur bara muninn sem er að takast á við það að gera aðgerðir eða framkvæma rannsóknir á fólki sem kemur gangandi inn af götunni og gengur út aftur að verkefninu loknu, eða fólki sem ekið er inn í hjólastól eða liggur lárétt á börum og fara þarf að glíma við að mynda og greina í þannig ástandi. Það er himinn og haf á milli þeirra aðstæðna sem menn glíma við að þessu leyti og þetta þurfa menn alltaf að hafa í huga í öllum samanburði.

Ég held að menn þurfi að hugsa sig mjög vel um vegna þess að Landspítalinn og aðrar stærstu og sérhæfðustu stofnanir hins opinbera að þessu leyti, Sjúkrahúsið á Akureyri fyrir sitt leyti eftir því sem það framast getur á sínu upptökusvæði, munu áfram hafa þetta hlutverk með höndum. Og er þá endilega skynsamlegt að flytja út af þessum stofnunum auðveldari viðfangsefnin og skilja bara þau þungu og erfiðu eftir? Verður það betri rekstur? Verður það þægilegra upp á að manna starfsemina? Ég er ekki viss um það. Ég held að hafa verði heildina í huga áður en menn fara að hrapa að einhverju slíku.

Ég hef því ekki alveg keypt þá hugmyndafræði að leysa málin þannig, jafnsjálfsagt og það er að nýta möguleikana á sjúkrahúsunum umhverfis höfuðborgarsvæðið að því marki sem þau hafa verið vannýtt, á Akranesi, Selfossi, í Reykjanesbæ eða á Suðurnesjum, að það eigi beinlínis að gera það í formi þess að færa verkefni út af Landspítalanum og þangað. Ég held að skoða eigi þjónustuna og þörfina, t.d. á hinu ört vaxandi svæði á Suðurnesjum, og spyrja: Á ekki að gera þetta hvort sem er Suðurnesjanna sjálfra vegna og þeirrar þjónustu sem þar er en ekki endilega tengt einhverjum fjárhagserfiðleikum Landspítalans? Þar sem menn eru beinlínis að auka afköstin, t.d. til að stytta biðlista, eins og í einhverjum mæli má segja að hafi átt við um Akranes og í bæklunaraðgerðum og fleiru í þeim dúr, er það hið besta mál.

Ekki má gleymast að þessar stofnanir eru auðvitað mikilvægastar vegna þeirra svæða sem þær sinna og þeirrar þjónustu sem þær eiga að veita þar. Það er auðvitað stórundarlegt að þar skuli ekki fyrir löngu vera komin á sólarhrings- og helgarvakt, t.d. á Suðurnesjum. Það er alveg stórfurðulegt að menn skuli láta það standa í sér að það kosti kannski 50–70 millj. kr. á ársgrundvelli að uppfæra þá stofnun upp í það að þar séu vaktir og þar geti t.d. farið fram fæðingar á kvöldin og um helgar. En þannig er ástandið ekki í dag eða var ekki síðast þegar ég vissi. Það er alveg ótrúlegt að nýta ekki betur þá aðstöðu sem þar er.

Þetta var nú útúrdúr út frá hugleiðingum mínum um Landspítalann og áður um heilsugæsluna. Ég ætla að hverfa aftur að 18. gr. og ljúka máli mínu á því að segja að ég skora á aðstandendur þessa máls að hugleiða hvort það sé ekki nægt viðfangsefni sem frumvarpið felur í sér að öðru leyti og er að verulegu leyti óunnið, samanber það sem aðstandendur málsins segja sjálfir að þetta eigi að reyna að gera á fyrri hluta næsta árs og vonandi verði þetta klárt 1. september næstkomandi. Það á að koma aftur frumvarp af því að málið er einfaldlega óljóst enn þá og liggur ekki fyrir hvernig á að fara í þetta. Er ekki nóg að takast á við það að í öllu falli verði þessi pakki samþykktur í heild sinni, og henda 18. gr. út og hreyfa ekki við því máli, ef menn ætla að gera það á annað borð, fyrr en menn koma með fullbúið frumvarp um hana þar sem verða sómasamleg ákvæði, t.d. um stjórn og skipulag stofnunarinnar og það óheyrilega valdaafsal sem hér á að fara fram og hefur aldrei þótt góð latína. Í raun á að fara framselja það til heilbrigðisráðherra, sem ætti að vera löggjafarvald úti í bæ, að hafa algjört sjálfdæmi um það hvernig hann setur þessa stofnun á fót og hvernig hann mannar hana í byrjum, hverja hann setur þar í stjórn, o.s.frv. Engar hæfiskröfur skilgreindar, enginn tilnefningarréttur heilbrigðisstétta eða eins eða neins, svo maður tali ekki um að t.d. þingið eða flokkarnir ættu aðild að þessu og þarna væri tilnefnd eða kosin hlutfallslega þingkjörin stjórn, sem einhvern tímann hefði verið talið sjálfsagt að gera þegar slíkt viðfangsefni ætti í hlut. Nei, bara algjört ráðherraræði, 100% ráðherravæðing á þessu og lögin koma einhvern tímann seinna.

Herra forseti. Ég skora á aðstandendur málsins að fari í þetta áfram verði 18. gr. hent út. Ég hef lokið máli mínu.