135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ég hafi í fyrra svari mínu veitt alveg afdráttarlausar upplýsingar um afstöðu Samfylkingarinnar til frumvarpsins í almennum atriðum. Ég hef greint frá því hver var undirbúningur og aðdragandi þess að frumvarpið var lagt fram. Það var hefðbundinn undirbúningur. Hv. þingmaður veit með hvaða hætti slík frumvörp fara í gegnum ríkisstjórn og þingflokka.

Það er síðan undir þinginu komið hvað það gerir við einstök frumvörp. Þingið er sjálfrátt. Framkvæmdarvaldið skipar því ekki fyrir. Eða varðandi einstök ákvæði í frumvörpum þá er það auðvitað þingið sem að lokum tekur allar ákvarðanir um þau. Ég verð að viðurkenna það fyrir hv. þingmanni að ég hef meira sinnt iðnaðarmálum upp á síðkastið en heilbrigðismálum og ég hef nú ekki kynnt mér efni 18. gr. jafn vel út í hörgul og hv. þingmaður hefur gert. Hún finnur því margt til foráttu. Um það ákvæði eins og öll önnur, auðvitað gildir að það er þingið sem hefur síðasta orðið í því.

Ráðherrar leggja fram sinn vilja, einstakir fagráðherrar. Þeir vilja fá málin fram með tilteknum hætti. En sem betur fer þá er aðskilnaður löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins enn það skýr, þó að sá aðskilnaður hafi nú aðeins dofnað á síðustu árum, að það er þingið sem ræður þessu. Hinn sameiginlegi vilji þingsins eftir rökræðu og, af minni reynslu, yfirleitt mjög vandaða umræðu í nefndum þingsins þar sem hv. þingmaður væntanlega mun koma fram með mótbárur sínar við þessu og eftir atvikum þá rök bæði frá sérfræðingum, þeim sem til þekkja og öðrum þá er það þingið sem ræður þessu. Ekki ég og ekki einu sinni hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er nú bara svo einfalt mál. Þingið er hin endanlega rödd.

Að öðru leyti undirstrika ég það að Samfylkingin mun ekki taka þátt í neinu sem hægt er að skilgreina sem einkavæðingu og sem leiði til þess að einhver fyrirtæki eða einhverjir menn ætli að fara að hagnast á sjúkdómum. Það verður aldrei gert.