135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:14]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Með því að frumvarpið var lagt fram og samþykkt á þingflokksfundi Samfylkingar þá túlkar hæstv. ráðherra það svo að þar með sé í þeirra hópi fullur stuðningur við 18. gr.

Ég hlýt að harma þessa afstöðu vegna þess, herra forseti, að efni 18. gr. hefur ekki komið til umræðu eða verið vakin sú athygli á því sem við höfum nú gert, fyrr en í dag og í gær.

Það sem er aðalatriði þessa máls er að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að hann ætli að nota þetta bráðabirgðaákvæði til þess að setja nýrri óskilgreindri stofnun stjórn og ráða þar forstjóra án þess að fyrir því sé lagastoð að öðru leyti. Það á ekki að koma lagafrumvarp um efni og innihald stofnunarinnar fyrr en í vor.

Ég vil af þessu tilefni vekja athygli á því að í athugasemdum með frumvarpinu segir alveg skýrt frá skrifstofu fjármálaráðuneytis, að það fylgi enginn kostnaður þessari nýju stofnun, með því að, eins og segir á blaðsíðu 12 í frumvarpinu, hlutverk þessarar stofnunar verði skilgreint nánar í sérstöku frumvarpi á vorþingi sem verður kostnaðarmetið þegar það verður lagt fram.

Nú hefur hæstv. heilbrigðisráðherra lýst því yfir að hann muni áður en frumvarpið er lagt fram, skipa þessari stofnun bæði stjórn og ráða til hennar forstjóra og þá hlýt ég að spyrja og ég spyr ráðherra iðnaðarmála sem er eini ráðherrann á svæðinu: Hvaðan á að taka peninga til þess að borga þessum mönnum laun eða halda menn að þeir muni vinna í þessari stofnun í sjálfboðavinnu?