135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja að ákveðnum atriðum varðandi það frumvarp sem hér er verið að ræða, frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun til aldraðra. Það hefur nú verið rætt í nokkurn tíma.

Ég vísa til mjög ítarlegs nefndarálits varðandi það mál sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Dýrleif Skjóldal, fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og síðan Jón Björn Hákonarson, fyrir hönd Framsóknarflokksins, hafa skilað. Þau leggja til að þessu frumvarpi verði vísað frá, segja að það sé afar illa undirbúið, einungis tilkomið vegna ágreinings milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Tillaga fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins varðandi þetta mál er þá frávísun. Það atriði í frumvarpinu sem ég ætla annars að gera að sérstöku umtalsefni er umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Ég ætla að lesa umsögnina og víkja að henni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lögð til breyting á verkaskiptingu ráðuneyta á sviði almannatrygginga og öldrunarmála. Gerir frumvarpið ráð fyrir að Tryggingastofnun færist undir félagsmálaráðuneyti en sjúkra- og slysatryggingar verði áfram á forræði heilbrigðisráðuneytis. Jafnframt mun úrskurðarnefnd almannatrygginga færast undir félagsmálaráðuneyti þótt allar ákvarðanir Tryggingastofnunar verði áfram kæranlegar til nefndarinnar. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að þjónusta við aldraða önnur en heilbrigðisþjónusta færist til félagsmálaráðuneytis frá 1. janúar 2008 ásamt yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Í athugasemd með frumvarpinu segir að ljóst sé að nokkurn tíma taki að skilja á milli þess sem telst almenn öldrunarþjónusta og þess sem er heilbrigðisþjónusta við aldraða og má vænta frumvarps um frekari breytingar á lögum um málefni aldraðra á vorþingi. Samhliða þessum breytingum verður nöfnum ráðuneytanna breytt til samræmis við tilflutning verkefna í félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.“

Ég les þetta hérna upp, herra forseti, vegna þess að hér er verið að gera gríðarlega miklar breytingar á stjórnskipan þessara mála, færa stóra málaflokka á milli ráðuneyta, endurraða og endurskipa verkefnum sem lúta að jafnveigamiklum og -stórum þáttum og grunnþáttunum í heilbrigðisþjónustunni, heilbrigðiskerfinu, þjónustu við aldraða o.s.frv.

Þess vegna vekur furðu þegar það er fullyrt í umsögn fjármálaráðuneytisins með þessu frumvarpi að þessar breytingar kosti ekkert, þær muni ekki kosta ríkissjóð neitt, hér sé bara um að ræða orðalagsbreytingar tengdar flutningi á málaflokkum milli ráðuneyta. Það stendur orðrétt, með leyfi forseta, að ekki sé „gert ráð fyrir auknum kostnaði við framkvæmd verkefna heldur eingöngu færslu fjárheimilda á milli ráðuneyta“.

Mér finnst ábyrgðarhluti þegar slík yfirlýsing fylgir með svona viðamiklu frumvarpi — að það kosti ekki neitt. Hver trúir því? Í rauninni á þetta heldur ekki að snúast um trú í þeim efnum. Hver maður veit að þetta kostar gríðarlegt fjármagn. Meira að segja er nú þegar í frumvarpi til fjárlaga sem kemur til lokaafgreiðslu á morgun gert ráð fyrir tugum milljóna króna til að undirbúa þær breytingar sem þarna á að ráðast í. Þegar er gert ráð fyrir líklega á annað hundrað milljónum króna í þessum frumvörpum, bæði til fjáraukalaga og fjárlaga sem tengjast þessu. Nú þegar er þetta augljóslega ekki rétt. Að halda því fram að svona viðamiklar breytingar, hvort sem maður er sammála þeim eða ekki, kosti ekki neitt er að mínu viti bara fullkominn blekkingarleikur. Reynslan hefur sýnt okkur að þegar verið er að gera stjórnskipulegar breytingar kostar það miklu meira en menn hafa viljað vera láta. Svo er dregið að landi með aukafjárveitingum. Ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við að segja að svona viðamiklar breytingar kosti ekkert. Það er bara ekki rétt.

Ég vil spyrja formann hv. heilbrigðisnefndar, sem hér er nú, hvort nákvæmlega hafi verið farið ofan í þessar tölur. Var kallað eftir nýju, ábyggilegu kostnaðarmati á þeim breytingum sem þarna eru lagðar til?

Ég er í fjárlaganefnd Alþingis fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og við höfum á undanförnum árum fengið hvern svona málaflokkinn á fætur öðrum þar sem gerðar hafa verið stjórnskipulagsbreytingar, sagt að þær kosti ekkert en síðan er raunin okkur. Tökum Matís, fyrirtæki sem sinnir matvælaeftirliti og þjónustu á þeim sviðum. Það var hlutafélagavætt, sú breyting átti ekki að kosta neitt. Við stöndum nú frammi fyrir á annað hundrað milljóna króna fjárþörf bara á þessu ári umfram það sem gert var ráð fyrir — og sér ekki fyrir endann á. Svona er með fleiri stofnanir sem breytingar hafa verið gerðar á þar sem kostnaðarmatið virðist vera algjörlega út í bláinn og óábyrgt.

Þótt okkur greini á um hvort það sé rétt pólitísk vegferð eiga þessir grunnþættir að vera í lagi. Það er engum greiði gerður með því að vanmeta þann kostnað — vísvitandi verð ég að segja, ég hefði a.m.k. viljað heyra og sjá nákvæma kostnaðarúttekt á þessu máli áður en ég hefði getað staðfest og tekið undir að það kostaði ekki neitt.

Þetta fannst mér vera fyrsta alvarlega atriðið, herra forseti.

Svo er hinn þátturinn sem ég vil víkja að, sú 18. gr. sem hér hefur verið gerð að umtalsefni þar sem verið er að galopna fyrir einkavæðingu og markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Með einni lagagrein er í þessu frumvarpi galopnað á það að heilbrigðisráðherra geti án frekari heimilda að því er virðist opnað á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Við vissum fyrir að þetta var eitt af meginmarkmiðum Sjálfstæðisflokksins með því að fá heilbrigðisráðuneytið — hann var búinn að bíða eftir því í mörg ár — að geta farið í þessa einkavæðingu sem hann telur nauðsynlega. Flestum er minnisstætt þegar núverandi hæstv. forsætisráðherra hældi sér af því á fundi með sjálfstæðismönnum í Valhöll fyrr í sumar að nú væri svo gott að vera kominn með Samfylkinguna inn í ríkisstjórnina því að nú væri hægt að fara í einkavæðinguna að fullu í heilbrigðiskerfinu. Þarna er það. Ég vara við því og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjumst algerlega gegn þeim áformum um einkavæðingu sem þarna er verið að opna fyrir.

Ég er hér með skoðanakönnun Þjóðarpúls Gallups sem var birt í september árið 2007, hún er sem sagt nýkomin, þar sem kannað er viðhorf almennings til einkavæðingar almannaþjónustunnar. Þá kemur í ljós að þeim fer nú aftur fjölgandi sem eru andvíg einkavæðingu í almannaþjónustunni. Þeir flokkar sem telja sig ætla að fylgja almenningsskoðunum ættu að taka eftir því að almenningur er núna í auknum mæli andvígur einkavæðingu í almannaþjónustunni. Í heilbrigðiskerfinu kemur t.d. fram að tæp 60% aðspurðra eru andvíg einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf gefið sig út fyrir að vilja einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, hann hefur aldrei farið leynt með það, en margir áttu von um að Samfylkingin mundi þar standa í lappirnar. Svo virðist ekki vera.

Það sem er líka athyglisvert í þessari könnun er að tekjuhæstu hóparnir eru hlynntari einkavæðingu en þeir tekjulægstu. Fylgnin milli viðhorfs og tekna er nokkuð mikil. Það kemur svo sem ekki á óvart að þeir sem eru tekjuhæstir og telja sig geta keypt heilbrigðisþjónustuna strax og þeir þurfa á að halda eru ekki eins áfram um að hún sé opinber, hún sé á forsjá hins opinbera. Hinir tekjulægstu gera sér rækilega grein fyrir því um hvað málið snýst enda eru þeir tekjulægstu andvígir einkavæðingu á heilbrigðisþjónustunni, andvígir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin virðist nú vera að fara inn á, og vilja sameiginlega, opinbera og félagslega heilbrigðisþjónustu.

Þetta ætti bara að vera alveg ljóst og þess vegna skora ég á Samfylkinguna að standa nú í lappirnar og bremsa af. Það segir líka með þessari grein að það þurfi að setja frekari lagaheimildir fyrir lagafrumvarpi um þennan málaflokk og verði gert seinna í vetur. Engu að síður á að keyra málið af stað. Það er einmitt þess vegna sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í heilbrigðisnefnd vilja fresta málinu. Látum það allt koma fram, ræðum það í heild sinni. Vöðum ekki bara beint út í einkavæðinguna sem hæstv. heilbrigðisráðherra virðist krefjast. Það á að hafa frjálsar hendur og vaða beint út í einkavæðinguna.

Ég kalla líka eftir meiri heildarstefnu varðandi heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu. Við höfum rætt mikið um heilbrigðismálin á höfuðborgarsvæðinu og það að grunnheilsugæslan standi frammi fyrir miklum fjárskorti. Það eru 8.000–10.000 manns á svæðinu sem ekki hafa heilsugæslulækni. Það er alveg ljóst að með óbreyttum fjárveitingum verður að skera niður þjónustu. Hvaða þáttur hennar verður skorinn niður ef ástandið verður óbreytt? Það eigum við eftir að sjá. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjum til að heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu verði lagt til nægilegt fé til að standa undir henni.

Heilbrigðisstofnanir úti um land, þessar litlu sem gegna lykilhlutverki úti um land, hvort sem er á Snæfellsnesi, í Stykkishólmi, heilsugæslustöðvar í Búðardal eða á Vestfjörðum — tökum dæmi af Ísafirði, þar var safnað fyrir sneiðmyndatæki, háþróuðu tæki sem var nauðsynlegt að hafa til staðar á sjúkrahúsinu. Rekstrarkostnaður af því hefur ekki enn verið viðurkenndur vegna þess að það mátti víst ekki gefa sjúkrahúsinu tækið. Þó sparar það fólkinu gríðarlega mikið fé að þurfa ekki að ferðast langt og tryggir auk þess gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustunni.

Heilsugæslan og heilbrigðisstofnanirnar úti um land, hvort sem er á Austurlandi, Höfn, Norðurlandi eða á Vesturlandi, í Vestmannaeyjum — með allar þessar stofnanir virðist vera fullkomið skipulags- og stefnuleysi. Það er ekki eins auðvelt að koma á einkavæðingunni á þessum stöðum. Það fólk sem býr á þessum stöðum þarf líka sína heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu og mér þykir miður hvernig þessum stofnunum er haldið í fjársvelti og stefnuleysi. Ég hefði viljað sjá þessi mál rædd í heild sinni og tek undir þær kröfur sem hérna hafa verið lagðar fram um að þessum málum verði frestað.

Ég minni á ágæta grein í Fréttablaðinu í dag um heilsugæsluna. Vilhjálmur Ari Arason, heilsugæslulæknir í Hafnarfirði, birtir ágæta grein þar sem hann bendir á grunnheilsugæsluna og talar um að gefa henni tíma, hún hafi svo mikið forvarnagildi. Hann bendir á að hér sé einna mest sýklalyfjanotkun í samanburði við önnur lönd og að það sé vegna þess að menn fari í of miklar skyndilausnir, afgreiði málin með skyndihætti í staðinn fyrir að hafa grunnheilsugæslu að leiðarljósi og byggja upp þjónustuna samkvæmt því.

Ég held að fleiri vari við þessari einkavæðingarstefnu sem keyrð er áfram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég tel afar brýnt að nú verði stoppað, við stöldrum við og stöðvum einkavæðingaráformin sem hér eru keyrð upp og förum heildstætt yfir málið þegar öll lagafrumvörp um þetta mál eru komin fram.