135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru fyrst og fremst verkin sem tala en ekki orðin í því sem gerist. Gangi eftir þau áform að skerða fjárveitingar heilsugæslunnar, t.d. í Reykjavík um 300–400 millj. kr. til að geta haldið óbreyttu starfi, skerðast nauðsynlegar fjárveitingar Landspítalans um kannski 600–800 millj. kr. Ef minni heilbrigðisstofnanir úti um land, lykilstofnanir í samfélögum sínum — margar eiga erfitt vegna þess að það er samdráttur í samfélaginu, minnkandi tekjur o.s.frv. — verður veruleg fjárþörf. Ég get talið þær upp frá Snæfellsnesi, um Vestfirði, Norðurland og Austurland. Það eru verkin sem tala.

Vilji hæstv. ráðherra virkilega láta verkin tala og segja: „Við ætlum ekki að knýja stofnanirnar til einkavæðingar, við ætlum ekki að knýja heilbrigðiskerfið til einkavæðingar“ látum við þær fá nægilegt fé til grunnheilsugæslunnar.

Ég met góð orð hæstv. ráðherra í þessum efnum en þau þurfa að birtast í fjárveitingum, í því að staðinn sé vörður um a.m.k. þá starfsemi sem nú er og henni gefinn möguleiki til að svara nýjum og auknum kröfum. Og það gerum við ekki með einkavæðingu. (Forseti hringir.)