135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:53]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gerast nú undur og stórmerki. Einn hv. þingmaður, Jón Gunnarsson, reynir að brjóta af sér handjárnin. Ég heyri að hv. þingmaður er inn við hjartarætur sannfærður um að Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin fari hér rangt að, ekki síst gagnvart landgræðslu og skógrækt. Ég vil fá það skýrt fram: Mun hv. þingmaður greiða atkvæði gegn þessum breytingum? Mun hann fylgja sannfæringu sinni?

Ég minnist þess að á vordögum þegar þetta lá fyrir, þessi vandræðalega aðgerð hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á Þingvöllum, að þau ein og tvö skyldu semja um svona hluti, þá voru margir sjálfstæðismenn reiðir. Þar á meðal var hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heitinn sem sagði: Þessu verður öllu snúið við, við munum laga þetta í sumar og breyta því — þetta verður aldrei gert, Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei gera þetta. Þetta sögðu fleiri þingmenn.

Nú stendur til að gera þetta, að fara með landgræðslu og skógrækt yfir í umhverfisráðuneytið gegn öllum reglum og eins og hv. þingmaður sagði í ágætri ræðu sinni þá er það nánast dæmalaust í allri Evrópu að málaflokkur sé klofinn upp eins og hér er verið að gera.

Hér er mikið eyðileggingarstarf á ferðinni. Ég er sannfærður um það. Eins og hv. þingmaður sagði hafa öll verkefni Landgræðslu ríkisins í 100 ár snúið að samstarfi við bændur. Hvað verður um Gunnarsholt, höfuðstöðvarnar? Verða þær þar áfram? Hvað um allt það samstarf sem Landgræðslan hefur haft við bændur?

Ég þakka hv. þingmanni fyrir það frelsi sem hann hefur sýnt á sínu fyrsta þingi, að rísa gegn flokki sínum og tala út frá lífsskoðun sinni og sannfæringu og segja hluti sem allir sjá. (Forseti hringir.) Það eru fáir sem þora að rísa gegn Sjálfstæðisflokknum, því miður hefur hann ofurvald.