135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:55]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við handjárnin sem hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi. Ég hef lengi verið í Sjálfstæðisflokknum og þar, eins og menn vita, í svo fjölmennum hópi og stórum flokki eru margar mismunandi áherslur. Í þingflokki okkar gildir fullt málfrelsi. Menn hafa að mínu viti fullt leyfi til að hafa mismunandi skoðanir þegar kemur að einstökum málum. Menn reyna hins vegar að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu. Ég hef því ekki brotið af mér handjárnin því að þau hafa aldrei verið á mig sett, hv. þingmaður.

Varðandi það hvort ég muni styðja þetta frumvarp í heild sinni þá hef ég rakið athugasemdir mínar við það, sérstaklega við þá tvo málaflokka sem ég hef fyrirvara við. Ég taldi mjög mikilvægt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri vegna þess að skoðun mín hefur verið alveg skýr, hún var skýr innan sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og forustu flokksins hefur verið þessi skoðun ljós frá því að málið var lagt fram.

Hér er um að ræða lítinn hluta af frumvarpinu og ég geri ráð fyrir því að styðja það en með þeim fyrirvara sem ég hef sett fram í ræðu minni.