135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[17:02]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ræða hv. þm. Jóns Gunnarssonar kom gjörsamlega flatt upp á mig. Það er gaman að heyra að hv. þingmaður þori að standa með sinni skoðun. Hefði ég hatt á höfðinu hefði ég tekið hann ofan fyrir hv. þingmanni. En í málinu sem við erum að fjalla um er tilfærslan á landgræðslunni og skógræktinni og sú aðgerð sem hefur fengið langharðasta gagnrýni. Þetta er ekki veigalítið atriði í frumvarpinu. Það er veigamikið atriði og gaman að heyra þingmann úr röðum sjálfstæðismanna segja meiningu sína og lýsa því yfir að hann sé ósáttur við það sem stendur í frumvarpinu.

Það hefur verið þannig, virðulegur forseti, að hv. þm. Pétur Blöndal hefur stundum ákveðið að standa gegn félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum. En þar með held ég að það sé nánast upptalið hjá Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að þingmönnum sem þora að standa með sinni skoðun. Það er gaman að annar hv. þingmaður hafi bæst í þann hóp. Ég vona sannarlega að hann geti talað um fyrir félögum sínum.

Það væri ágætt að vita hvort hv. þingmaður veit um fleiri alþingismenn í stjórnarliðinu sem eru andsnúnir þessum breytingum. Það væri enn þá fréttnæmara. Mér finnst fréttnæmt að hv. þm. Jón Gunnarsson skuli tala gegn frumvarpinu að þessu leyti en það væri gaman að vita hvort fleiri alþingismenn hjá Sjálfstæðisflokknum séu sama sinnis.

Við vitum af mörgum sjálfstæðismönnum úti í bæ sem hafa mikið vægi í málinu sem eru á móti því. Ég vil nefna hér Magnús Gunnarsson, formann Skógræktarfélags Íslands, sem er algjörlega andsnúinn þessum breytingum og það hefur komið skýrt fram í umsögn þeirra og á fundum allsherjarnefndar. Það væri því (Forseti hringir.) til þess vinnandi að spyrja hv. þingmann: Ertu einn eða eruð þið fleiri?